Hver hefur ekki setið og horft á sjónvarpið og svo kemur á skjáinn Nýtt í bíó! og svo rúllar trailer að einhverri mynd sem mann langar ógurlega að sjá og er búinn að bíða eftir. Trailerinn er geðveikur, segjum að þetta sé gamanmynd, og það er alveg slatti af fyndnum atriðum.

Vá, hvað þetta er örugglega fyndin mynd! Svo skellir maður sér í bíó eða út á leigu og svo kemst maður að því að öll fyndnu atriðin voru í trailernum sem sýndur var svona 10 sinnum í sjónvarpinu. Það var eiginlega búið að skemma myndina. Ég man þegar myndin Mr. Deeds var að koma í bíó, þá var í trailernum atriði þar sem Adam Sandler bað þjóninn sinn um að stinga sig í fótinn með staf. Þjónninn gerði það og Sandler öskraði rosahátt en svo kom í ljós að þetta var gervifótur á Sandlernum. Þetta var fyndið í trailernum en crap, alls ekki í myndinni. Það er einmitt þetta sem ég meina. Maður sér atriðin aftur og aftur í sjónvarpi og svo eru þau bara ekkert fyndin í myndinni sjálfri. Það er hægt að skemma allar gerðir af myndum, það er eitthvað drasl sprengt í trailernum og svo sér maður myndina: “Heeey! Þetta springur!”

Væri ekki svalt að fara á mynd sem maður vissi ekkert um? Það er náttúrulega alltaf hægt að fara út á vídeoleigu og fá sér eitthvað óþekkt drasl en það væri betra ef það væri líka fyrir nýju myndirnar. Það væri bara poster fyrir myndina og að það væri ekkert meira en það. Stæði kannski smá á auglýsingunni um söguþráðinn en ekki meira en það. En þessir hákarlar í Hollywood þurfa endilega að troðfylla mann af upplýsingum um myndina og skemma hluta af henni í leiðinni, auðvitað til þess að fá fleiri á myndina.

Ég er á þeirri skoðun að trailerar gera í raun ekki neitt gott fyrir þann sem er að fara að sjá viðkomandi mynd, það eina sem hann gerir er í raun að skemma fyrir manni. Ég er satt að segja orðinn leiður á því. Í framtíðinni ætla ég að skipta um stöð þegar ég sé þessar auglýsingar og halda fyrir augun í bíó. Það er ekkert gagn að þessu fyrirbæri fyrir utan “spoilera”. Ég veit að það er ekki minnsti möguleiki veraldar að trailerar hætti að verða sýndir en þetta er allavega mín skðun á þeim.

Niður með trailerana!