Grave of the Fireflies 1988

Leikstjóri: Isao Takahata

Handrit: Akiyuki Nosaka & Isao Takahata

Myndin Grave of the Fireflies gerist í Japan í síðari heimsstyrjöldinni. Hún fjallar um systkinin Seita og Setsuko sem lifa við endalausar sprengjuárásir bandamanna á síðari hluta seinni heimstyrjaldarinnar. Eftir eina slíka er bærinn þeirra nánast jafnaður við jörðu og þau eru skilin eftir heimilislaus. Það sem verra er er að móðir þeirra slasast alvarlega og deyr svo stuttu síðar. Þau fara því til ættingja sem í fyrstu er góð við þau en verður svo sífellt harðari við þau svo þau ákveða á endanum að fara. Seita, ungur piltur þarf því að sjá um sig og Setsuko litlu systur sína með öllum tiltækum ráðum. Það er hægara sagt en gert á þessum tíma þar sem aðstæðurnar eru vægast sagt hrikalegar.

Ég horfði á Grave of the Fireflies í dag eftir að hafa heyrt mikið um hana og ég var langt frá því að verða fyrir vonbrigðum. Myndin gefur öðrum japönskum teiknimyndum ekkert eftir og hún er núna ein af mínum uppáhalds ásamt Spirited Away og Ninja Scroll. Reyndar er erfitt að bera hana saman við aðrar vinsælar japanskar teiknimyndar því hún er rosalega sérstök. Hún er bæði mjög krúttleg og skemmtileg og hrikalega átakanleg um leið. Það telst afrek að geta sitið í gegnum hana án þess að tárast því hún er hrikalega sorgleg. Myndin er laus við allan stríðsáróður sem reynir að réttlæta eina hlið stríðsins heldur einblínir hún bara á mannlega þáttinn og vilja mannsandanns til þess að komast af. Þótt hún sé orðin svolítið gömul og miklar framfarir hafa orðið í teiknimyndabransanum er samt ennþá stórkostleg upplifun að horfa á hana.

Myndina er hægt að fá í Nexus er ég nokkuð viss um og svo auðvitað er bara hægt að panta hana á ýmsum síðum á netinu. Það er vel þess virði, því get ég lofað ykkur.

Til gamans má líka geta þess að myndin er byggð á sönnum atburðum. Akiyuki Nosaka gekk í gegnum þessa sama atburði í síðari heimsstyrjöldinni og skrifaði bókina sem myndin er byggð á til þess að reyna að jafna sig á atburðunum.