Ég fór loksins og tók þátt í þessarri veislu í gær

Ég dreif mig á þá umdeildu mynd Ett Hål i mitt hjärta eftir LUKAS MOODYSSON, og ég verð að leggjast á sveif með þeim sem líkar myndin vel.

Að mínu mati er þetta mjög góð hádramatísk raunsæismynd úr veruleika þessa áratugar um fólk með opin hjartasár sem sækja í hvort annað án þess að gera hvoru öðru neitt gott, hræðilegar aðstæður fólks og hvernig hlutir í fortíð geta haft áhrif á líf fólks alla ævi og einnig stílaði myndi inn á að slíkt hefur líka mikil áhrif á þá sem standa nálægt eða eru háðir þeim sem hafa þessi opnu hjartasár.

Ég veit reyndar ekki um marga sem ég myndi mæla með þessarri mynd við, hún spilar alfarið inn á tilfinningar og það er sagan sem ekki er sögð sem er verulega sorgleg, ástandsmynd þar sem söguhetjum miðar hvorki áfram nér afturábak og ekki útlit fyrir að það muni gerast á næstunni, þeim miðar ekkert, þau bara eru.

Það þarf þroska til að meðtaka myndir sem fjalla um tilfinningar og sálarástand og ég get vel skilið að þessi mynd sé ekki allra. Félagi minn sagði mér að þetta væri mynd um stelpu sem langaði svo að leika í klámmynd og að þetta væri eiginlega svona “ógeðsleg klámmynd”. Annar félagi okkar, eldri og þroskaðari, sem fór með honum laumaði því síðan að mér að það væri nákvæmlega ekki þetta sem myndin snerist um, hann hefði bara ekki skilið hana og þá vissi ég að þetta væri mynd sem ég þyrfti að sjá.

Mjög góð mynd og Lukas Moodysson er svo sannarlega að skipa sig sem einn af mínum uppáhaldsleikstjórum eftir þessa mynd og hinar frábæru Fucking Amal, og Lilja 4-ever. Nú get ég varla beðið eftir að sjá Tilsammens sem Moodysson gerði einnig en ég hef ekki séð enn þá.