Verðlagning á DVD á Íslandi Mikið hefur verið rætt um verðlagningu DVD mynda hérna á Íslandi og jafnan hefur mönnum þótt hún of há. Almennt hef ég þó ekki talið að hér væri um vísvitandi tilraunir til að féflétta viðskiptavininn, en á því varð breyting í gær.

Þannig bar undir að ég brá mér í verslun Skífunnar í Kringlunni. Tók ég þar eftir að þeir eru enn með X-Files pakkanna til sölu á um 13þúsund krónur stykkið. Það eitt og sér er reyndar hálfgert okur, þar sem Play.com selur þetta á (með tolli og alles) um 9000kr, en gott og vel.

Tók ég þá ekki eftir því að fyrsta serían var í öðruvísi pakkningum. Þarna var um að ræða nýja útgáfu í svokölluðum M-Lock pakkningum, en serían var nýlega endurútgefin í þessu formi á mun lægra verði (um 4700kr frá Play.com með tolli og öllu).

Og hvernig skyldi verðið á þessu hafa verið hjá Skífunni? Nákvæmlega það sama og á eldri (dýrari) útgáfunni!!!

Skv. Play þá var ‘suggested’ verð framleiðanda um 90 pund fyrir gömlu settin, en 35 pund fyrir þau nýju. Verð framleiðandans er í takt við þetta.

M.ö.o., Skífan hefur ákveðið að hirða alla lækkun sem varð á þessum pakka hjá framleiðandanum!

Í ljósi þess að þegar var vel okrað á þessu, þá er ljóst að jafnvel þó innkaupsverð Skífunnar sé það sama og útsöluverð Play.com (bæði með flutningskostnað og 10% vörugjald innifalið) eða um 3500 kr, og útsöluverðið er 13.000 kr (þar af um 2600kr VSK), þá er hagnaðurinn af hverju setti 6900 sem er nærri 200% álagning!

Nei, nú er nóg komið, hugsaði ég með mér, hér eftir versla ég einungis við Play.com, Amazon.com og aðrar netverslanir sem eru í virkri samkeppni.