2001: A Space Odyssey 2001: A Space Odyssey
Útgáfuár: 1968
Aðalhlutverk: Keir Dullea, Gary Lockwood, William Sylvester, Daniel Richter.
Handrit: Stanley Kubrick & Arthur C. Clarke (skáldsaga)
Leikstjórn: Stanley Kubrick
Einkunn á IMDB: 8,3 (topp 250: nr. 76)

Eins og í öðrum greinum sem ég hef sent inn á þetta áhugamál fjallar þessi grein um heimspekina o.fl. í 2001 sem krefst þess að fólk sjái hana fyrst. Ég ráðlegg öllum sem ekki hafa séð hana að bæta úr því sem allra fyrst.

* SPOILER *

2001: A Space Odyssey fjallar um þróun mannsins frá upphafi og áfram. Í þær 150 mínútur (þó mismunandi eftir útgáfum) sem myndin er eru aðeins um tæpar 40 mínútur með tali. Kubrick tekst hér snilldarlega að koma því sem hann vill á framfæri með heillandi tæknibrellum og frábærri tónlist.

Myndin hefst þannig að svartur skjár sést í um 2 mín. og tónlist undir. Margir hugsa þarna: “Hvað er ég búinn að koma mér út í?” og taka augun af myndinni en auðvitað hefur þessi byrjun tilgang eins og allt annað sem Kubrick gerir. Þetta táknar tímann áður en maðurinn verður til; myrkrið fyrir ljósið. Síðan kemur kafli sem nefnist “The Dawn of Man”. Í þeim kafla eru apar sem eru þó farnir að þróast í átt að mönnum; komnir niður úr trjánum og farnir að geta gengið á 2 fótum. Sýnt er frá tilbreytingarlausu lífi apanna sem eru varnarlausir gagnvart óvinum (sbr. tígrisdýrið sem ræðst á apann í byrjun en enginn getur gert neitt) og eru grænmetisætur (ýmis dýr (held það voru svín eru innan um apana í myndinni á meðan þeir borða gróður).

Einn daginn vakna aparnir og þá hefur risastór ferhyrningslaga blokk birst þar sem þeir hýrast sem gefur frá sér undarlegt “humm”-hljóð. Moonwatcher, sá sem virðist líklegastur til að gegna forystuhlutverki hjá öpunum, fer fyrir öpunum þar sem þeir fara varlega að blokkinni og þreifa á henni. Stuttu seinna er sýnt þar sem Moonwatcher (held ég) er að fikta í beinum og áttar sig á því að hægt er að nota það sem vopn. Á meðan uppgötvuninni stendur spilar Kubrick undir “Also Sprach Zarathustra” eftir Richard Strauss sem hentar mjög vel við aðstæðurnar. Blokkin veldur því að Moonwatcher gerir þessa uppgötvun og stígur mannapinn fyrsta skref sitt í átt að siðmenningu og þróaðra lífi (þó sumir vilji meina að mannskepnan og siðmenningin hefði verið betur sett ef hún hefði ekki þróast í þann stríðsfulla heim sem við lifum í í dag).

Moonwatcher hendir beininu upp í loft og þá er skipt yfir á gervihnött. Engin kaflaskipti eru þarna á milli, við vöðum beint frá frummanninum yfir í nútímamanninn sem hefur náð betri tökum á geimferðum og hefur byggt á tunglinu. Ef til vill er Kubrick að segja að við höfum í raun ekkert þróast; við séum ennþá sama villidýrið og við vorum í upphafi. En á tunglinu komumst við að því að fundist hefur blokk á tunglinu, nákvæmlega eins og sú sem aparnir sáu áður í myndinni. Aðeins nokkrir menn (minnir þrír) vita raunverulega af þessu og þegar þeir koma að blokkinni og þreifa á henni (sem minnir mjög á þegar Moonwatcher og félagar gerðu það sama) gefur hún frá sér gríðarlegt hljóð og verður mönnum ljóst að það voru útvarpssendingar til Júpíter. Ákveða mennirnir að leggja upp í leiðangur til Júpíter til að kanna þetta og er hann kominn í gang 18 mánuðum síðar.

Næsti kafli fjallar um ferð mannanna og kynntir eru til sögunnar 5 áhafnarmeðlimir og nýjasta gerð ofurtölva sem stjórnar flauginni, HAL 9000 sem er kallaður Hal (ef við förum einn staf áfram í stafrófinu með H, A og L kemur út IBM en Clarke hefur sagt að það sé aðeins tilviljun). Á tímanum sem myndin var gerð höfðu menn ofurtrú á tölvum og héldu að einn daginn gætu þeir tekið algjörlega við af mönnunum. Allt sem gerist næst er ádeila Kubricks á þessa ofurtrú. Báðir áhafnarmeðlimir sem eru vakandi eru sýndir sem mjög ópersónulegir og kaldir menn en í staðinn virðist Hal hafa þeim mun meiri persónuleika. Hal lýsir sjálfum sér sem óskeikulum og ef einhver mistök gerist er það pottþétt mönnum að kenna. Í lokin drepur Hal þó 4 áhafnarmeðlimina áður en sá 5.- nær að stöðva hann. Með þessu vill Kubrick segja að við eigum ekki að treysta of mikið á tölvur því sama hversu fullkomnar við teljum þær vera geta þær alltaf klikkað.

Næsti og síðasti kafli myndarinnar “Jupiter and Beyond the Infinite” er vægast sagt mjög súreallískur og djúpur. Sá áhafnarmeðlimur sem lifir enn ferðast á eftir enn einni blokkinni um allan geiminn að því er virðist. Síðan kemur hann allt í einu í hálfkunnuglegt umhverfi; hann endar í húsi sem er mjög Versalalegt í stíl. Hann eldist síðan um nokkra tugi ára á um 5 mínútum og svof þegar hann liggur uppi í rúmi, orðinn örugglega um 100 ára birtist blokk fyrir framan rúm hans og hann teygir sig í hana. Í næsta skoti hefur hann breyst eða endurfæðst í einhvers konar “superhuman” og lítur út eins og þróað mannsfóstur. Þetta hefur einnig gerst vegna blokkarinnar og í lok myndarinnar ferðast þessi endurfæddi “superhuman” aftur til jarðarinnar án þess að þurfa nein farartæki; síðasti kafli í þróunarsögu mannsins hefur verið skrifaður.

Í myndinni er þeirri spurningu varpað fram hvort einhver utanaðkomandi áhrif hafi stuðlað að þróun okkar. Í 2001 eru það geimverur frá Júpíter. Fyrst koma þær fyrir blokk á jörðinni og kenna mönnunum að nota bein sem áhöld og sem vopn. Síðan vísar önnur blokk mönnnunum til Júpíter þar sem einn þeirra kemst á æðra þróunarstig; til verður superhuman. (Bendi á bókina “Voru guðirnir geimfarar?” eftir Erich von Däniken“)

Notkun tónlistar í myndinni er eins og áður sagði gríðarlega mikilvæg þar sem lítið er um tal. Aldrei í myndinni eru tónlist og tal á sama tíma; alltaf annaðhvort. Kubrick er snillingur í tónlistarvali og á ”Also Sprach Zarathustra“, lag sem Richard Strauss samdi undir áhrifum samnefndar bókar eftir Nietzche sérstaklega vel við því myndin spilar svolítið inn á þær kenningar sem Nietzche setur fram í þeirri bók. Einnig passar ”The Blue Danube" eftir Johann Strauss einstaklega vel við enda fallegt lag.

Eins og alltaf er enginn heilagur sannleikur í þessum efnum og vil ég gjarnan heyra aðrar túlkanir ef þið hafið einhverjar. Vinsamlegast verið samt ekki að skíta á mínar.

Takk fyrir,

spalinn