Síðastliðin misseri hefur, að því er virðist, glundroði ríkt í málum Adams nokkurs Sandler. Hann hefur gefið frá sér hvert lambasparðið á fætur öðru og ber þar helst að nefna “Big Daddy”, “Mr. Deeds” og annað slíkt sorp (reyndar hef ég ekki séð Punch-Drunk Love en hef heyrt góða hluti… Ég læt því vera að gagnrýna hana). Vissulega var mér því þungt um geð er ég kíkti á nýjustu afurð kappans, Anger Management. Ég gladdist þó þegar ég sá að myndin var frá “Happy Madison” og skyndilega hugsaði ég mér gott til glóðarinn enda vongóður um að hugur Sandler hefði nú beinst inn á brautir “Billy Madison” og “Happy Gilmore”.

Mér varð að ósk minni.

Í myndinni leika á móti Sandler Marisa Tomei og Jack Nicholson. Einnig er í aukahlutverki John Turturro auk þess sem Woody Harrelson og Heather Graham bregður snögglega fyrir… Þetta er að sjálfsögðu einvalalið leikara og Sandler og Nicholson mynda frábært teymi á skjánum enda báðir með afbrigðum fyndnir menn.
Myndin fjallar í stuttu máli um ungan mann (Sandler) sem er nokkuð “inní sig”, segir fátt sér til varnar og virkar í raun hinn mesti indælisnáungi. Einhvern veginn tekst honum að flækja sig inn í hvert vandræðamálið á fætur öðru þannig að í lokin er hann kominn í 24-7 meðferð hjá “anger management” sérfræðingnum Dr. Rydell (Nicholson).
Ég vil eiginlega ekki segja neitt meira. Myndin er með skemmtilega framvindu, ég efast um að margir séu búnir að sjá hana þannig að ég ætla ekki að eyðileggja neitt fyrir neinum.
Í raun ætla ég með þessari grein einungis að fagna endurkomu Sandler! Hann og Nicholson er vægast sagt frábærir saman og Nicholson er algjörlega í essinu sínu í hlutverki ofur-pirrandi sálfræðingsins sem virðist sjálfur þurfa á mestri hjálp að halda. Hann sýnir það og sannar enn og aftur að hann er meðal fremstu leikara enda hlutverkið gjörólíkt síðasta verki hans (About Schmidt) sem hann leysti gríðarvel af hendi…

Svartur húmorinn er gegnumgangandi alla myndina. Þeir félagar eru óvægnir og gera jafnt grín að hommum sem friðarsinnum (nokkuð nett atriði þegar Sandler slæst við og að lokum brókar Búdda-munk sem lagði hann í einelti í æsku!). Einnig er líka skondin undiralda þar sem Sandler er sífellt í vandræðum yfir limstærð sinni… eða öllu heldur limsmægð…

Verið hress og kíkið á þessa mynd, hún er frábær og markar vonandi skil í ferli Adams Sandler.

Kveðja, The Outlaw Torn.

http://www.fts.blogspot.com