Ég ákvað að skella hér inn smá færslu af blogg-síðunni minni, fts.blogspot.com
Þið afsakið það þótt ég tali eitthvað um “færslur” í þessu, ég nennti lítið að edita áður en ég setti þetta inn hér á Huga.is.
Here goes:


Á laugardaginn var tók ég mér frí frá bókunum og skellti mér í kvikmyndahús að sjá nýju Matrix-myndina, The Matrix Reloaded. Myndin er að nokkru flókin, a.m.k. flóknari en sú fyrri og því var ég ekki alveg sáttur við sjálfan mig fyrr en ég fór aftur að sjá hana í gærkvöldi. Nú er ég búinn að velta nógu mikið vöngum yfir efni myndarinnar til þess að geta skrifað eina færslu eða svo um hana. Þær verða hins vegar örugglega fleiri eftir því sem á líður enda alltaf eitthvað nýtt að koma í ljós.
Áður en umfjöllun þessi hefst vil ég þó færa fram kvörtun sem á áreiðanlega ekki eftir að komast til skila. Þannig er að orðið matrix (n.) er í myndunum alltaf þýtt sem fylki no. hk. Mér virðist sem þýðandinn hafi flett orðinu upp og notast við fyrstu þýðingu sem hann kom auga á. Fleiri þýðingar eru hins vegar til og eru þær í raun mun heppilegri. Orðið fylki er eðlisfræðilegt hugtak sem kemur efni myndarinnar lítið við. Í líforðasafni finnast eftirfarandi þýðingar: grind, mergur, uppistöðuefni, innrúm . Þá er matrix einnig það sem heitir grunnfrymi í umfrymi frumna. Þetta virðist mér einmitt þýðing við hæfi þar sem Matrix-forritið er í myndunum uppistöðuforritið sem myndar grind fyrir minni stjórnunarforrit. En nóg um það.


Í fjölmiðlum og á vefsíðum tileinkuðum kvikmyndaiðnaðinum hafa undanfarna daga verið birtar umfjallanir um nýju Matrix-myndina þar sem hún hefur verið vegin og metin eftir verðleikum fyrstu myndarinnar frekar en eigin eiginleikum. Menn bera hana sífellt saman við forvera sinn og segja hana ýmist “flopp” eða “verðugan arftaka”. Berorður gerist ég þegar ég segi að ýmsir ágætir einstaklingar hafi greinilega ekki hundsvit á myndinni sem þeir eru að gagnrýna. Þeir líta ekki á heildarsöguna og eru sáttir við “óvænta framvindu” og ósáttir við “ofnotkun bullet-time myndatökunnar” og þar fram eftir götunum. Lítið er hugsað um táknin í sögunni, boðskap hennar né pælingar í sambandi við næstu mynd.


Myndin hafði sína vankanta, ekki er hægt að neita því. Þar má helst nefna atriðin í Síon (Zion) og þegar Neo berst við ca. 90 stk. af A. Smith í einu. Þegar ég segi að atriðið í Síon hafi verið slakt er ég ekki að meina að það hafi verið óþarft. Gaman var að sjá borgina og sýn Wachowski-bræðra á lífið þar. Einnig var “dansatriðið” umdeilda einnig að nokkru skiljanlegt og e.t.v. þarft. Það sýndi eðli mannsins, villt og óbundið, sveitt og nakið og nokkuð frumstætt og þannig myndaðist nokkuð mögnuð andstæða við tölvuheiminn “Matrix” og sjúklega reglubundinn heim vélanna. Hins vegar var atriðið of langt. ALGJÖRLEGA.
Margir hafa líka sett út á þá staðreynd að flest allir íbúar Síon-borgar virðast vera á aldrinum 18-24 ára. Þetta fór einnig í taugarnar á mér en eftir að ég kíkti aftur á fyrstu myndina rann ástæða þessa upp fyrir mér. Morpheus segir þá í samtali við Neo að ekki tíðkist að “frelsa” huga manna eftir að þeir hafa náð vissum aldri. Þannig eru flestir börn þegar þeir koma fyrst til Síon. Síon er ekki nema hundrað ára eða svo og þar fyrir utan hafa aldrei jafnmargir einstaklingar verið frelsaðir einsog síðustu 6 árin frá því The Matrix Reloaded gerist. Þess vegna er augljóst af hverju svo stór hluti íbúa Zion er ungmenni. Þar fyrir utan er líkast til ekki hár meðalaldur við harðar aðstæður eins og í kjarna jarðar og enn fremur má benda á að gamalmenni sækja sjaldnast teiti af því tagi sem sást í myndinni.


Eflaust þekkja það margir að myndin varpar fram heldur óþægilegri hugmynd um heim þann er við lifum í. Dæmi um þetta er að litla systur mín fór að klípa sig hér og þar eftir að hafa séð fyrri myndina til að athuga hvort hún væri ekki örugglega “til í alvöru”. Ekki lítið klikkað, þetta ungdæmi. Þetta er hins vegar ekki ástæða pælinga minna í sambandi við myndina. Wachowski-bræður, sem eiga hugmyndina að öllu saman og sáu um að koma þessu stórvirki á hvíta tjaldið, hafa ítrekað bent mönnum á ýmsar bókmenntalegar, heimspekilegar og síðast en ekki síst trúarlegar (og þá helst biblíutengdar) tilvitnanir. Þetta virðist algjörlega hafa farið framhjá íslenskum kvikmyndagúrúum sem rita í fjölmiðla hér á landi.


Eitt helsta verkfæri bræðranna hvað táknin og tilvitnanir varðar eru nöfn ýmissa hluta og persóna. Þessi nöfn sækja þeir á ýmsa staði, s.s. til Grikklands og í Biblíuna og eru nöfnin eða “saga nafnanna” oftast lýsandi fyrir persónurnar.
Morpheus, sem Larry Fishburne túlkar á einkar svalan máta, er skv. grískum goðsögnum guð svefnsins og vekur drauma í brjóstum manna. Ekki er erfitt að sjá samlíkinguna sem hér er á ferð.
Niobe, leikin af Jada Pinkett, er fyrrum ástkona Morpheusar. Hún stýrir eigin skipi og er stolt og sterk kona, jafnvel hrokafull ef sá gállinn er á henni. Niobe var einnig goðsagnavera hjá Grikkjum en hún átti einstöku barnaláni að fagna þ.s. hún eignaðist 6 fríða syni og 6 fagrar dætur. Hún gerðist svo hrokafull að lýsa því yfir að hún væri jafnvel frjórri en sjálf Letó sem eignaðist Apollon og Artemis og fyrir þetta galt hún með lífi sínu.
Nebuchadnezzar er skip Morpheusar. Nebuchadnezzar var skv. Biblíu og öðrum bókum konungur í Babýlon og réðst á Júdeu og sat um Jerúsalem. Í Daníelsbók dreymir Nebuchadnezzar draum og man ekki hvernig hann var en ræður engu að síður til sín draumráðningamenn sem eiga ekki aðeins að ráða drauminn heldur skulu þeir einnig rifja drauminn upp fyrir honum. Hann segir (tekið úr Jakobsbiblíu Daníel 2):


“And the king said unto them, I have dreamed a dream, and my spirit was troubled to know the dream. Then spake the Chaldeans to the king in Syriack, O king, live for ever: tell thy servants the dream, and we will shew the interpretation. The king answered and said to the Chaldeans, The thing is gone from me: if ye will not make known unto me the dream, with the interpretation thereof, ye shall be cut in pieces, and your houses shall be made a dunghill.”


Það sem ég feitletraði í þessum kafla er klippt saman í nýju Matrix-myndinni. Þar segir Morpheus undir lokin, er hann verður fyrir miklu áfalli (vil ekki eyðileggja fyrir neinum með því að útskýra áfallið nánar en það tengist skipinu mjög!): “I have dreamed a dream, but now that dream is gone from me.” Mér þykir líklegt að þetta bendi til spennu milli Morpheusar og Neo í næstu mynd þar sem Neo gæti verið settur í hlutverk Daníels. Daníel réð draum Nebuchadnezzar og gerðist vinur hans en var hent í ljónagryfju, hvaðan hann bjargaðist síðar meir. Ef til vill er þessi stúfræða Morpheusar vísir á það sem koma skal í næstu mynd og bendir kannski einnig til þess að hann hyggist ljúka baráttu sinni og gefast upp.


Neo, eða “hinn Nýi”, er einnig hægt að umraða í “One”. “Hinn Nýi” vísar einnig til þess að Neo sé hin nýja von mannkyns, nýi sáttmálinn (þ.e. Nýja Testamentið). Hann er bjargvættur Manna og er hann rís frá dauðum í lok fyrri myndarinnar er hann einnig orðinn hluti hinnar heilögu þrenningar og tengdur henni um ástina.
Trinity er að sjálfsögðu hin heilaga þrenning (the holy trinity). Örlög hennar skv. Véfréttinni (The Oracle) eru að elska Bjargvættinn (Neo, the One) og þar með sameinast honum.


Neo hefur oftsinnis sýnt að honum er ætlað að vera hliðstæða Krists í Biblíunni. Hann þurfti að láta lífið til þess að geta risið upp og bjargað heiminum. Gerðist þetta fyrir framan herbergi 303 á ónefndu hóteli. Hringir þetta einhverjum bjöllum? “Reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna…


Nú er einnig nokkuð í gangi sem ég hafði ekki velt fyrir mér…
Smith er Bane.
Það virðist vera það sem á að vera ”elementið“ í næstu mynd. Hún mun að öllum líkindum snúast um átökin milli Smith og Neo. Smith virðist hafa tekið yfir líkama Bane þar sem hann ”tók yfir vitund hans" í Matrix-num og tók svo upp símtólið í stað hans. Þar með fluttist hann yfir í líkama hans.


Þetta er spennandi….

Kveðja, The Outlaw Torn.