Fyrir nokkrum árum stóð norska íþróttasambandið fyrir könnun á áhrifum áfengis á árangur í íþróttum. 70 handknattleiksmenn og knattspyrnumenn borðuðu léttan málsverð og drukku með matnum bjór og aðra áfenga drykki. Engum þeira fannst hann þó vera undir áhrifum áfengis eftir máltíðina. Síðan voru þeir látnir skjóta á mark hjá góðum markvörðum, sem ekki höfðu drukkið áfenga drykki, og framkvæma vítaskot, knattrak og aðrar æfingar. Áfengisneyslan reyndist valda því að árangur þeirra, bæði stuttu eftir máltíðina og daginn eftir, varð talsvert lakari en þegar þeir höfðu ekki drukkið áfengi. Þó íþróttamennirnir hafi ekki drukkið mikið áfengi, kom það verulega niður á nákvæmni, snerpu, krafti og hraða, jafnvel daginn eftir. Til að tryggja að leikmennirnir legðu sig alla fram voru peningaverðlaun í boði fyrir bestan árangurinn. Þessar niðurstöður sýna hvaða áhrif áfengisneysla getur haft á árangur íþróttamanna.

Áfengi og hraði

Gott samstarf heila, tauga og vöðva er undirstaða þess að mögulegt sé að bregðast fljótt við og hreyfa sig hratt. Við áfengisneyslu raskast starfsemi heilans svo þetta samstarf riðlast og þarf einungis lítið magn alkóhóls til að það gerist. Rannsóknir hafa sýnt að 0,04-0,05% styrkur alkóhóls í blóði lengir viðbragðstíma um 10-35%. Áfengisneysla hefur því slæm áhrif í öllum íþróttagreinum sem krefjast viðbragðsflýtis og hraða.

Áfengi og þol

Neysla áfengis eykur vökvatap við áreynslu og dregur þannig úr þoli líkamans. Einnig truflar alkóhólið losun blóðsykurs frá lifrinni, en blóðsykur er það eldsneyti sem vöðvarnir nýta sér við áreynslu. Jafnframt kemur brennsla alkóhóls í lifrinni í veg fyrir að mjólkursýra, sem myndast í vöðvum við áreynslu, sé brotin niður. Mjólkursýran safnast þá fyrir í vöðvum og veldur þreytutilfinningu. Loks skerðir alkóhól flutning súrefnis til vöðva með blóðinu og veldur því að þeir þreytast fyrr en ella.

Áfengi og kraftur

Einbeiting og hæfileiki til beita mörgum vöðvum í samhæfðu átaki skipta miklu máli í íþróttagreinum sem krefjast vöðvastyrks og sprengikrafts.
Stjórnun þessara þátta fer að miklu leyti fram í heilanum og því eðliegt að hún raskist við deyfandi áhrif áfengisins. Styrkur og sprengikraftur verður þá minni en undir eðlilegum kringumstæðum.
Enginn íþróttamaður sem stefnir að því að ná árangri hefur efni á að eyða mörgum dögum í að jafna sig eftir áfengisneyslu. Með áfengisneyslu eftir æfingar lengist verulega sá tími sem líkaminn þarf til að jafna sig eftir áreynsluna. Þannig er sóað til einskis dýrmætum tíma sem annars gæti nýst til að undirbúa líkamann fyrir næstu æfingu!