Ég var að horfa á fréttirnar á Stöð2 í kvöld og sá þar frétt um Rottweiler og Dobermann. Fréttin var um hvort banna ætti þessar tegundir á Íslandi þar sem upp hefðu komið atvik að hundar af þessari tegund hefðu ráðist á fólk, en enn ekki náð að slasa neinn alvarlega(sem betur fer). Tekið var viðtal við hundaeftirlitsmann í Reykjavík og var hann á þeirri skoðun að banna ætti þessar tegundir hér. Hann sagði að í röngum höndum og hundar með lélegt geðslag gætu verið hættulegir. Einnig talaði hann um að búið væri að sækja um leyfi fyrir innflutningi á öðrum tegundum sem ekki eru leyfðar hér á landi, og vonaðist hann til að það leyfi yrði aldrei veitt.
Ég er sammála því að hundar af þessari tegund geti verið hættulegir lendi þeir hjá röngum aðilum og/eða ef þeir eru ekki undan góðum hundum og þá kannski með ekki nógu gott geðslag.
Uppeldi er mikilvægasta atriðið hjá öllum hundategundum, og þá ekki síst Rottweiler og Dobermann. Það er nauðsynlegt að fara með þá á hvolpa-og hlýðninámskeið og viðhalda þarf góðum aga ætli eigandinn sér að hafa stjórn á þeim. Ég efast ekki um að þetta séu eðalhundar, séu þeir komnir undan góðum hundum og fái rétt uppeldi. En engu að síður, það gæti verið erfitt að gæta þess að hundar af þessari tegundi lendi ekki í röngum höndum. Það væri hægt að hafa eftirlit með því hverjir eru að rækta þá, og eins gæti ræktandinn kannað tilvonandi kaupendur. Það myndi kannski gera eitthvað gagn, en ekki fyrirbyggja endanlega að einhver sem veit ekkert hvað hann er að gera endi með svona hund.
En mér finnst mjög óréttlátt ef þessar tegundir yrðu bannaðar hér enn á ný vegna einstakra hunda sem hafa ekki verið eins og þeir eiga að vera. Það er ekki þar með sagt að allir Rottweiler og Dobermann hundar séu hættulegir.

Hvað finnst ykkur um þetta?

Kv. T.