Kæru umsjónarmenn, ritstjórar, tilsjónarmenn, lesendur og aðrir áhugamenn um bætta cs-menningu á Íslandi!

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þau svör og þá umræðu sem skapast hefur í kjölfar greinar minnar “Opin fyrirspurn um ritstjórn og ritstjórnarstefnu”. Ég ætla þó ekki að gera tiltölulega rýr svör að umræðuefni að þessu sinni heldur fara útí aðra sálma.

Fídel félagi minn hefur undanfarnar vikur og mánuði verið að viða að sér orðum sem viðgangast í cs samfélaginu og í raun snara þessum tjáskiptamáta yfir á íslenskt mál. Erum við sannfærðir um að þessi banki mun nýtast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í cs. Þessi útgáfa er nú í undirbúningi og mun birtast innan tíðar á heimasíðu GGRN, ríkulega myndskreyttur og vel framreiddur. En af því að við erum svo vænir drengir, og Hugi er okkur kær, og þar fer nú einu sinni helst fram sú umræða sem skapast í tengslum við þennan leik viljum við gefa ykkur kost á að verða fyrstir til að birta texta þennan.

Hér er sem sagt um leiðarvísi að ræða fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á þyrnum stráðri braut counter-strike iðkunnar sinnar. Sjálfir teljum við að þetta muni verða til þess að bæta cs-menninguna almennt. Til þess er nú leikuinn gerður. Njótið heilir,

Bestu kveðjur,

Roosterinn!



Orðsifjafræði Fidels

Stuttur inngangur:
(Formáli 1. útgáfu)

Í þessari stuttu samantekt er farið yfir það helsta sem Counter-Strike-spilari þarf að vita til að geta verið virkur þátttakandi í hinum sérstæða, oft dularfulla og flókna tjáskiptamáta sem viðgengst í cs kultúrnum. Utanaðkomandi gæti haldið að þarna væri á ferð hópur manna sem væri viti sínu fjær, en ekkert getur verið lengra frá sannleikanum. Þetta er afar þróaður samskiptamáti sem einkennist af knöppum skilaboðum sem eiga sér oftar en ekki djúpa og sögulega skýrskotun. Hér er lagður grunnur að nauðsynlegri orðabók þeirra sem leggja cs fyrir sig. Það væri að ætla sér um of að þykjast geta náð undan um hið fjölskrúðuga tjáningarform sem hefur þróast í tengslum við þessa íþrótt en hér er í það minnsta tekið á því helsta og ráð er fyrir gert að bæta fljótlega við safn þetta eftir því sem kostur er á.

Við samningu orðsifjafræði þessarar hefur það sjónarmið síflellt verið haft í huga að hún yrði sem aðgengilegust notendum, og því aðeins hefur verið hvikað frá föstum reglum um frágang skýringa að það hefur þótt gera orðsifjafræðina notabetri. Höfundur vill þakka Rooster yfirlestur og góð ráð og GGRN þolinmæðina við verk þetta.

Tákn eða orð:

clan/klan: Er cs orða sambærilegt og orðið lið er notað í öðrum íþróttagreinum. Hér er auðvitað um algjört lykil og undirstöðu orð að ræða. Þótt orðið sé þýtt í orðabókum sem ættkvísl eða ættbálkur þarf enginn skyldleiki að vera meðal spilara í sama klani. Fremur er vísað til einskonar bræðra/systralags. Spilara í sama klani sýna hver öðrum þó að jafnaði kurteisi í samskiptum og eru ekki mikið að owna hvern annan.

LoL: Þýðir að viðkomandi er nokkuð skemmt. Viðeigandi er að nota þetta tákn þegar eitthvað hnyttið kemur upp, svo sem að einhver drepur sjálfan sig í ógáti eða einhver sé drepinn með hnífsbragði. En þá er einnig gott að segja ownaður.

Rofl: Þýðir að viðkomanda er mikið skemmt. Hann hefur orðið vitni af einhverju sem er svo fyndið að venjulegt lol dugar ekki og þá þykir fínt að segja rofl. Rofl hefur reyndar til að bera víðari merkingu en lol, því þarna er háðsbroddur og má jafnvel segja að ákveðið yfirlæti fylgi þessu snaggaralega orð.

wtf: Þýðir að viðkomandi er nokkuð misboðið. Eitthvað frekar óskemmtilegt hefur komið uppá og frekar en að lýsa því og kvarta er sá siður að segja bara wtf, vita þá allir að sá sem snarar þessu stuttirði fram er misboðið.

omg: Töku-orðatiltækni sem sennilegar er ættað frá Friends-æðinu sem fyrir skömmu skók hinn vestræna heim. Eiginlega svipað og wtf en vísar á sterkari hátt til einhverskonar klaufaskapar. Með þessu lýsir viðkomandi að það þyrmi yfir sig.

gg: Þýðir í raun: skemmtilegur leikur! Þetta ber kurteisum mönnum að segja í lok hvers borðs. Þetta þykir sjálfsögð kurteisi og er vottur um slæmt uppeldi ef menn sleppa þessu tákni í lok leiks. Undirliggjandi merking er auðvitað sú að þar fari fágaður leikmaður sem sé hreint ekki nýr í cs.

bg: Vondur leikur. Ef menn eru illa upp aldir eða almennt fúlir á móti er það gjarnan táknað með bg. Þetta er í raun andstæðumerking orðsins gg.

vbg: Eins og bg nema með áhersluforskeitinu “v” til að leggja ríka áherslu á dónskapinn. Sem sagt Verulega slæmur leikur.

spawn: upphafsreitur, en það sér hver maður að orðið upphafsreitur er ekki orð sem hægt er að nota í cs.

planta: koma fyrir sprengju á þar til gerðum stað. Það er afar illa séð þegar menn í fragsýki láta undir höfuð leggjast að P. sprengjunni.

frag: Þýðir í raun að drepa en hefur víðtækari merkingu. Þjónar oft hlutverki forskeytis, sbr. Fragfest, fragstealer, fragsjukur…

ff: þýðir að server er þannig stilltur að þú getur ekki einungis sært og/eða drepið andstæðing heldur virka vopnin einnig á samherja. Gerist það verða þeir eðli málsins samkvæmt oft reiðir. Byrjendur ættu að fara varlega í að spila þar sem ff viðgengst þar sem þeir gætu óvart verið stimplaðir tk og útskúfaðir úr samfélagi cs spilara.


Brostákn og fleira:

1. =] …. Svona broskarl var lengi kallaður Spazinn og er það almennt illa séð að menn með undir 0.8 í kill-rate á ifrags séu staðnir að því að nota þennan broskarl.

2. :) …. hinn hefðbundin broskarl. Góður fyrir byrjendur og táknar nokkurn veginn það sama og “lol” nema á hæverskari hátt.

3. =) …. Þennan broskarl hefur hið agureyrska klan 3D höfundarréttarleyfi á. Hann er skemmtileg blanda af “Spazinum” og “hinum hefðbundna” en byrjendum ber að varasta að nota hann svo 3D menn sjái til.

4. :D…. Monkarinn hefur þessi broskarl verið nefndur í höfuðið á hans helsta framapotara, hinum fornfræga [-IRA-]MonkeyNinja. Þessi broskarl er nokkuð varasamur fyrir byrjendur þar sem “D” er einnig “til vinstri” takkinn í default stillingum CS. Engu að síður þykir þetta fínn broskarl fyrir lengra komna og hefur jafnvel svipað gildi og “lol” án hægverska undirtónsins sem aðrir broskarlar þurfa að lúta að.

5. >)….. Þessi broskarl er einnig góður fyrir byrjendur. Hann þykir hafa aðeins glettnari undirtón en aðrir og einskonar létt blanda af “omg” og “lol” en samt með hægverskum undirtón.

6. >] …. þessi broskarl er einskonar glettin útgáfa af “Spazinum”. Ekki vel séð að byrjendur séu að slá um sig með svona táknum. Betra er að nota blöndu af broskarli 5 og nokkrum auka “lol”um.

7. :O … þessi broskarl er lítið notaður nú til dags en var um skeið broskarla ígildi “rofl”. Gallinn við þennan broskall er sá að menn geta hæglega dregið þá ályktun að menn hafi slegið skakt á lyklaborðið.

Frasar:

Athugið að í anda cs-málískunnar, felast heilu frasarnir gjarnan í einu litlu orði. Þannig er mjó lína milli þess sem flokkast getur sem “orð” og “frasi”. Allt miðast við hið knappa form og má eiginlega líkja cs-málískunni við hinar japönsku hækur í ljóðlistinni hvað þetta varðar.

Kampari: Eitt helsta skammaryrði í cs notað er um þá leikmenn sem koma sér fyrir í dimmum skotum og bíða þess að andstæðingurinn komi til þeirra fremur en að sækja. Einkum teljast þeir slæmir K. sem bíða á spawn í liði sem lögum samkvæmt á að sækja, þ.e. ýmst planta sprengju eða bjarga gíslum. K. er eitt af lykilorðum í cs. g eitt það fyrsta sem menn læra. Því er afar mikilvægt að menn átti sig fullkomlega á merkingunni. Ritaðar hafa verið greinar um þetta fyrirbæri og settar fram (ósannfærandi) kenningar um það að K-ari geti jafnvel talist virðingarverð persóna.

Newbie: Er maður sem sýnir klaufalega tilburði, sem einatt eiga við um þá sem eru að hefja þyrnumstráðan feril sinn í cs. Þetta er því tiltölulega niðrandi orð en þó ber að hafa í huga að allir voru N. einu sinni.

TeamKiller (skst: TK): Sé einhverjum eignuð sú ætlun að vilja liðfélögum sínum illt, að skjóta þá þannig að þeir særist og/eða drepist hreinlega er hann úthrópaður sem T. Fari svo að meirihluti spilara á server kalli leikmann T. er hann stimplaður sem illmenni, skítbuxi og þaðan af verra og fylgir því jafnvel fordæming, í það minnsta fyrirlitning enda er þetta versti stimpill sem cs spilari getur fengið á sig.

Fragstealer: er skammaryrði notað um þá sem blanda sér í vopnaviðskipti annarra á viðkvæmum tímapunkti með þeim hætti að drepa andstæðinginn og fá skráð á sig stig sem annar leikmaður telur sig eiga heimtingu á. Óforskammaðir leikmenn, sem verða uppvísir af slíku athæfi, reyna gjarnan að fela sig á bak við það að þeir hafi verið að koma til bjargar, en allir reyndir leikmenn sjá í gegnum slíkt yfirvarp.

Awphóra: Hver sá sem nær að drepa andstæðinginn í tvígang með sniper úr (lúalegu) færi hefur áunnið sér titilinn A. Hefur fórnarlambið áunnið sér fullan rétt að að úthrópa dráparann með slíkum titili.

iFraghóra: Er sá maður sem, að dómi annarra, lætur gagnabankann iFrags stjórna leik sínum. Það gerir maður með þeim hætti að láta sig hverfa af server undir lok leiks gangi honum illa hvað dráp varðar og/eða breytir um nafn, þ.e. altnikkar. Þetta gerir viðkomandi einnig með því að breyta frá sínu viðtekna nafni í eitthvað nafn útí bláinn gangi honum illa eða í sitt rétta nafn úr einhverju bjána nafni, gangi honum vel. Þetta athæfi er litið hornauga og verði menn uppvísir af slíku athæfi er þeim gjarnan velt upp úr því og jafnvel kallaðir altnikkhórur. M.ö.o. leikmaður lætur aðeins skrást leik á sitt “rétta” nafn þar sem honum gengur vel.

Altnikk: er nafn sem þekktur leikmaður notar til að dyljast bak við, þ.e. dulnefni. Þessi frasi er margslungin því forsendurnar geta verið af ýmsum toga. Bæði geta menn notað altnikk til að fá frið fyrir frökkum newbie-um sem vilja gera sig breiða við viðkomandi eða að maðurinn sé hreinlega ifraghóra.

Owna: Þetta er nokkuð margslungið orðatiltæki en jafnframt eitt hið mikilvægasta. Að O. einhvern á fyrst og fremst við samskipti einstaklinga innan leiksins. Þegar þannig er komið að annar aðili tveggja manna, sem að einhverjum orsökum eru við mannjafnað, hefur ítrekað haft betur í bardögum þeirra á milli má hann segja að hann O. hinn aðilann. Einnig má nefna sértilvik að hnífi einn spilari annan má hann einnig segjast O. hinn hnífaða. Til að flækja mál svo enn frekar má yfirburðaspilari segjast O. í almennri merkingu, þótt slíkt sé stundum talið til hroka. Þó þetta kunni að virðast byrjendum flókið í fyrstu er mjög mikilvægt að fá tilfinningu fyrir réttri notkun þessa orðatiltækis enda er það í hávegum haft í leiknum. Sérstaklega ber að vara við ófagmannlegri notkun þessa orðatiltæksi þar sem reyndir spilara eiga það til að reiðast mjög sé O. notað í röngu samhengi eða af ónógum forsendum.
Jafnframt ber að taka fram að heilu klönin geta Ownað. Það á sér svipaðar forsendur og hvað einstaklinga snertir en krefst talsverðar virðingar innan cs-veraldarinnar til að geta leyft sér slíka notkun á þessum frasa. Byrjendum ber að varast sem heitan eldinn að vera með klan-“Own” yfirlýsingar þar sem slíkt mun kalla yfir þá fyrirlitningu reyndari spilara, jafnvel þó að viðkomandi kunni að hafa sitthvað til síns máls.

0wna: Sé 0wn skrifað með núlli í stað “O" er það vottur um auka hroka og gjarna gert til að núa salti í sárin, sérstaklega eftir hnífun. Byrjendum er alfarið ráðlagt gegn því að nota þessa tegund Owns þar sem reyndari spilarar kunna að reiðast slíku oflæti.

Hnífa: Að H. einhvern vísar til þess að reka náðarhöggið með hníf. Þó sumir málvandir menn kunni að benda á að þarna myndu sagnorð á borð við “að skera” eða “stinga” vera málfræðilega nákvæmara ber að vara byrjendur við að nota þessháttar orð komi H.-staða upp. Með slíku væru þeir að kalla yfir sig lol og broskalla. Í augum margra reyndra cs spilara er það hin versta niðurlæging að vera H. og kallar slík H. oft á mörg lol, broskarla og sá sem hnífar fær jafnvel eitt óumdeilt Own. Höfundur þessarar orðsifafræði vill nota tækifærið og benda á að með því að H. Einhvern en jafnframt sleppa owninu er sá hinn sami að sýna ákveðna stórmennsku.

rula: Sé leikmaður ánægður með eigin framstöðu eða framistöðu annars spilara er honum frjálst að segja að hann eða sá spilari R. Þótt varasamt sé að hlaða sjálfan sig miklu R. er þetta viðurkennd aðferð til að koma sér í mjúkinn hjá þekktum spilurum. Að R. er að mörgu leiti sakleysisleg útgáfa að Owni sem ekki beinist á neikvæðan hátt gegn einum né neinum.