Hrossanál er hávaxin seftegund (25–45 cm) með sívölum stráum. Hún er mjög algeng um allt landið, frá láglendi upp í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli. Helst kýs hrossanálin, ef hún fær eitthvað um það að segja, að lifa og dafna við árbakka eða rakar, sendnar áreyrar; á mörkum þurrlendis og votlendis. Hún blómstrar í júní-júlí, með heillandi blómum í þéttum hnapp fyrir ofan miðju strásins.


Mynd 1 - Blóm hrossanálar.


Eitt af því sem gerir hrossanálin svo áhugaverða er ástríða hennar fyrir ferðalögum, persónueinkenni sem er fremur sjaldgæft á meðal plantna. Hrossanálin hefur nefnilega sterkan jarðstöngul sem skríður áfram ár frá ári.


Ennþá furðulegra er að þessi jarðstöngull skríður ávallt í eina tiltekna átt, alla ævi hrossanálarinnar. Á öðru ári lífs síns virðist hrossanálin gera upp hug sinn og ákveður í hvaða átt hún vill skríða. Og hún stendur við ákvörðunina og skríður áfram í beinni línu í átt að dularfullu takmarki sínu. En hver veit hvert hún stefnir? Hvert er lífsmarkmið hennar? Hvert er hún að fara? Hrossanálar vaxa oft margar saman í þyrpingum þó virðast þær ekki sammála um hvert eigi að stefna en oftast skríða þær hver í sína áttina. Ef til vill er þetta merki um mismunandi persónuleika einstaklinga sem hver hefur sinn drauma að elta. Þetta gætu verið draumar um birtu og búsvæði, vinda eða vatn, félagsskap eða fjallasýn. Hver veit hvað býr í hjarta hrossanálar?


Mynd 2 - Hrossanálin skríður alla sína ævi í eina átt. En hvert hún stefnir veit enginn.

Áhugamaður um alvarleg málefni.