hmmm…Veit eiginlega ekki hvar skal byrja, en jæja.
Nú hef ég reykt síðan ég var 14 ára. Ég reyki enn eftir rúm 10 ár. Nú er svo komið að mig langar að hætta þessu. Ég hef aldrei reynt að hætta og hef alltaf reykt mikið, satt best að segja er ég alger fíkill og reyki meira en flestir sem ég hef kynnst.
Muniði eftir gæjunum úr myndinni “Englar Alheimsins” sem keðjureyktu allan daginn? Það er ég… T.d. byrjar dagurinn hjá mér svona: Ég vakna, kveiki mér í, borða morgunmat, reyki aðra eftir sturtuna, aðra á leiðinni í vinnuna, aðra þegar komið er á staðinn…ogsfrv. Ætli ég reyki ekki ca. 2 pakka á dag þegar vel lætur. Enginn af vinum mínum man eftir mér öðruvísi en með sígarettu. Ég reyki sérstaklega mikið ef mér leiðist eða þegar ég er í þungum þönkum, og enn meir ef eitthvað bjátar á.

En já, eins og ég segi þá langar mig að hætta, einfaldlega vegna þess að ég þekki ekki lífið öðruvísi en í reykjarmekki en skylst að það sé víst betra.

Fólk segir að maður eigi að forðast aðstæður sem fá mann til að reykja, en… hvernig í fjandanum gerir maður það þegar maður reykir ALLTAF??? Nánast allt sem ég geri geri ég reykjandi. Ég get ekki flutt, skipt um vinnu og hætt að hitta fólk… Jújú, ég fer sosum á reyklaus kaffihús ef að einhver heimtar hreint loft og á ekkert erfitt með það og ég reyki ekki heima hjá félögum mínum sem reykja ekki. Það sem ég á erfiðast með er sennilega það ég á erfitt með að finna ástæður: Ég hef alveg efni á því að reykja, ég er hraustur, mér finnst rosalega gott að reykja, mér finnst akkúrat ekkert ógeðslegt við þetta og finnst lyktin af sígarettureyk satt að segja góð og svo hin týpíska ástæða: þetta er það eina sem ég leyfi mér. Fyrir utan allt þetta þá eru reykingarnar það stór hluti af persónuleika mínum og daglegu lífi að ég er einfaldlega hræddur um að vera ekki samur ef ég hætti.

Þá má bæta því við að mér finnst spaðar eins og Þorgrímur Þráinsson og margir aðrir meðal and-reykingamanna svo hræðilega ósvalir að þeir nánast hvetja mig til að halda áfram að reykja…
Að ekki sé minnst á reyklausa daginn, rappað gegn reyk og hvað öll þessi átök og samtök heita nú öllsömul. Enda hefur ekkert af öllu þessu fengið mig til að hætta, hvorki dónaleg börn sem hósta gelgjulega nálægt reykingamönnum, myndir af sundurtættum heilum, kynfæralausir menn á plaggötum, dauðir heimilisfeður í sjónvarpsauglýsingum…Nei enn reyki ég.

En já, þessi ákvörðun er náttúrulega algerlega fyrir sjálfann mig. Nú vil ég hætta! Að mestu leiti er þetta forvitni því ég hef bara ekki hugmynd um hvernig lífið er án sígarettunnar…
Ég hef engann áhuga á því að fara að tyggja nikótíntyggjó, sjúga að mér einhverjar gufur úr pennum, drekka jurtate eða setja á mig plástur. Því, þótt ótrúlegt megi virðast, þá finnst mér það ógeðslegt.

Tjah, á morgun ætla ég að reykja 15 sígarettur (meira en helmingi minna en ég reyki venjulega), svo 14 hinn daginn o.s.frv. þar til ég er kominn niður í 0 sígarettur, og þá mun ég segja skilið við þennan lífsförunaut minn endanlega (vonandi).

En já, ef einhver fyrrverandi reykingamaður les þetta:
Hverju má ég eiga von á? Eru einhver ráð sem þú getur gefið mér? Er eitthvað sem getur slegið á löngunina, fyrir utan öll þessi fjandans nikótínlyf? Eitthvað annað en lyf?