Hæ, öll sömul. Það er smá vegis að brjótast í mér varðandi heilsufræðilegt málefni og mig langar að bera það undir ykkur. Of á tíðum er í fjölmiðlum fjallað um það hversu mikið af geðdeyfðarlyfjum við íslendingar notum, ég hef ekki haldbærar tölur um það en mér skilst að það sé nokkuð hátt hlutfall. Um daginn var frétt um þetta í Rúv, aðalfréttatíma sjónvarpsins. Ég fékk það mjög sterklega á tilfinnguna að fréttamanninum þætti það miður hve mikið væri notað af þessum “gleðipillum” hér á landi. Það lá á bak við orðin að þetta væri einhver óþarfi, eins og verið væri að fjalla um sælgætisát hjá óþekkum börnum. Þetta stakk mig og ég fór að hugsa um það að þetta væri kannski ríkjandi þáttur hjá mörgum. Enn meira stakk þetta mig vegna þess að ég er í þeim hópi sem að þarf þessi lyf.Mér varð hugsað til allrar þeirra erfiðu daga og tapaðara daga, þar sem ég þjáðist vegna vanlíðunar áður en ég fékk “gleðipillurnar” mínar. Misnotkun á lyfjum og áfengi á liðnum árum var búið að brjóta mig svo niður að það sýndust ekki margar leiðir færar. Flest tilefni mikillar áfengisneyslu er vegna vanlíðunar, sem að á sér oft geðrænar skýringar. Ég fékk lyfið “Seroxat” hjá heimilslækni mínum í kjölfar þess að ég hætti að drekka. Kannski gat ég hætt að drekka einmit vegna þess að þetta lyf breytti alveg lífi mínu, það er ekki ofsögum sagt að það hafi nærri bjargað lífi mínu. Hversu margir skyldu vera í mínum sporum, ég efast ekki um að þeir eru margir og þeir eru enn alltof margir sem að héðan eru farnir, vegna þess að þeir tóku sitt eigið líf. Það er sjaldan eða aldrei fjallað um þá hlið mála, samhliða þeirri gagnrýni sem að oft fréttamenn halda uppi á neyslu geðdeyfðarlyfja. Ráðamenn okkar blessaðir kjósa helst að horfa í aðrar áttir. Enginn, ég segi ENGINN gerir það að gamni sínu að nota geðdeyfðarlyf. Hversu margir hafa bjargast með þessum geðdeyfðarlyfjum, það eru þeir hlutir sem að máli skipta. Við megum ekki falla í þá gröf að horfa aðeins á þá hlið sem telur í peningum. Allra síst fjölmiðlamenn sem að með skoðunum sínum móta almenningsálitið. Það eru svo sannarlega tvær hliðar á þessari lyfjaneyslu okkar Íslendinga, en því miður virðist önnur hliðin, hin mannlega vera oftar í hvarfi. Við ættum öll að leggjast á eitt að reyna að breyta því.
KV september.