Ég var að horfa á þátt í sjónvarpinu fyrr í kvöld sem heitir Extra (er í Noregi) og er með svona skemmtilegar og/eða óvenjulegar sögur. T.d. hefur verið fjallað um fegurðarsamkeppni barna, öfgafullar lýtaaðgerðir og svona hitt og þetta.

Í kvöld var ein af sögunum um konu sem var búin að finna þessa “frábæru” aðferð til að hægja á öldrun. Á ég að segja ykkur töfralausnina? Júbb, hún er að sofa í ísskápnum. Ég er ekki að grínast! Þessi kona er búin að sofa í ísskápnum sínum s.l. 20 ár. Hún komst að þeirri niðurstöðu að fyrst allur matur, blóm o.fl. geymist betur í kæli, þá hljóti hið sama að gilda um fólk.

Þessi kona er gift og á dóttur, sem er líklega um 12-15 ára. Heimilislífið er bara ósköp venjulegt þar til kemur að háttatíma. Þá fer frúin í náttkjólinn sinn (þunnur hlýrakjóll), tekur koddann sinn og skríður inn í ísskáp. Þar sefur hún svo um nóttina, samankuðluð og krjúpandi (þetta er ekki einu sinni stór ísskápur). Hún er með vekjaraklukkuna sína hjá sér og varalitina. Svo lokar hún ísskápshurðinni og fer að lúlla… í hitastigi um 4°C.

Hún viðurkenndi að hún væri svolítið stirð á morgnana þegar hún vaknaði, en þegar liði á daginn liði henni dásamlega. Svo brosti hún blítt og sagði að þetta hlyti nú að virka því ekki liti hún út eins og fimmtug. Ég verð nú að segja að mér fannst hún einmitt líta út eins og fimmtug og þegar þetta fréttaskot byrjaði var mér einmitt á orði að hún væri ferlega sjúskuð þessi kona.

Maðurinn hennar var nú eitthvað að ýja að því að þegar brúðkaupsafmæli þeirra bæri upp væri hann að óska þess að hún myndi breyta út af vananum og sofa við hliðina á honum, en hún var nú ekki alveg á því. En hann hlýtur nú að vera ánægður með svona “unglega” konu.

Það sem fólk leggur á sig fyrir fegurðina… eða ímyndaða fegurð.
Kveðja,