Hvernig er þetta með ykkur, verðið þið aldrei kolrugluð á öllu þessu heilsukjaftæði sem er í kringum okkur? Ég hef ekkert út á hollt mataræði og hæfilega hreyfingu að setja, ekki einu sinni út á mikla hreyfingu að setja. En… hverju í andsk… á maður eiginlega að trúa? Það úir og grúir af allskyns ráðum, alls kyns kúrum, alls kyns hjálparefnum, töflum, dufti, fæðubótarefni, brennsluefni o.s.frv. Einn segir þetta og hinn segir hitt, og allt á að virka svo vel og vera svo æðislegt. Hvernig stendur þá á því að offita sé enn vandamál, eða að allir séu ekki megamassaðir í frábæru formi?

Mér sýnist nú sem betur fer að flestir séu orðnir sammála um að skyndikúrar virki almennt ekki. Skyndikúrar hafa eitt sameiginlegt hvernig sem þeir eru uppsettir, og það er að kaloríumagn þeirra er mjög lítið og manneskjan missir þ.a.l. þyngd. Slatti af því er reyndar vatn, en eitthvað fita, en mikið er líka bara vöðvamassi. Líkaminn upplifir þetta nefninlega sem svelti og fer að spara fituna og minnka vöðvana til að þurfa á minni orku að halda. Eftir kúrinn er því grunnbrennslan orðin minni og þegar fólk fer að borða eðlilega aftur fitnar það hratt og oft meira en það var upphaflega. Sumir kúrar eru hreint og beint stórhættulegir þar sem fæðan er svo einhæf að fólk fær ekki nóg af öllum næringarefnum og álag á lifur og nýru getur orðið það mikið að það valdi skaða.

Samt sem áður eru enn ótrúlega margir sem enn reyna skyndikúrana. Hvað ætli þeir séu margir til? Í fljótu bragði man ég eftir hrísgrjónakúrnum, próteinkúrnum, ávaxtakúrunum, ríkisspítalakúrnum og sítrónukúrnum, og þeir eru pottþétt miklu, miklu fleiri.

Nú svo eru það auðvitað fæðubótar/megrunardrykkirnir eins og Herbalife og Nupo létt. Sumir segja þetta virka vel… en ég hef þó heyrt að þetta virki á meðan maður notar efnið, en ef maður hætti notkun þess fari allt fljótt í sama farið. Svo er núna Myoplex-æðið að tröllríða öllu. Það er náttúrulega alveg möst fyrir alla sem ætla að grennast eða styrkja sig, það segja allir.

Já og svo eru það allar kenningarnar… OMG þvílíkur frumskógur! Einhver segir að maður verði að borða ólíkt mataræði eftir því í hvaða blóðflokki maður sé, aðrir segja að kúamjólk sé stórhættuleg. Sumir banna alveg alla neyslu sykurs og sumir banna nú bara alla neyslu kolvetna. Aðrir segja að maður eigi alls ekki að borða prótein. Nú svo segja sumir að maður eigi helst bara að borða prótein. Einhverjir halda því fram að fita sé stórhættuleg á meðan hinir vilja endilega að við borðum sem mesta fitu. Svo hefur heyrst að brauð sé stórhættulegt og gerið hreinlega valdi því að maður tútni út. Aha, þess vegna erum við svona feit, þetta er sum sé bara gerið að virka á okkur eins og brauðdegið… hmmm? Já svo eru líka kartöflur hættulegar… en var ekki annars til eitthvað sem hét kartöflukúrinn???… *hristihristihaus*. Svo er alveg lífsnauðsynlegt að fasta af og til og hreinsa út þarmana. Það vita náttúrulega allir að þeir eru fullir af rotnandi kjöti sem við átum fyrir 7 vikum síðan, eða þá tyggjóklessum sem við óvart gleyptum í æsku.

Svo er náttúrulega trikkið að borða á einhvern undarlegan hátt, það breytir nefninlega öllu. T.d. er best að borða bara ávexti fyrir hádegi og svo smá pasta í hádeginu og síðan ekkert fyrr en klukkan sex… eða var það bara ávexti EFTIR hádegi? Átti maður kannski að sleppa alveg að borða fram að hádegi? Nei, það var bara einn ávöxtur í hádeginu… æ ég man þetta ekki.

Og ekki má gleyma öllum töfra náttúrumeðulunum. Hörfræolía er allra meina bót, bætir meltinguna og eykur brennsluna. Króm dregur úr sætindaþörf og því verðum við að kaupa krómtöflur (ég hélt reyndar að króm fengist úr fæðunni). Eplaedik er æðislega vatnslosandi og grennandi og svo eru náttúrulega til fullt af vatnslosandi te-tegundum. Já og ekki gleyma svo að vatn með sítrónudropa út í er miiiiklu hollara en venjulegt vatn. Ég held reyndar líka að vatnið sé hollara eftir því sem það kostar meira og sé í flottari umbúðum. Egils kristall er t.d. hollara en kranavatnið og svo er náttúrulega svona útlensk vötn í flottum flöskum mjög holl.

Hey, svo er auðvitað fullt af efnum til að auka brennsluna. Diet fuel, Ripped fuel og svo er til fullt af einhverjum megrunarheilsubrennsluefnum sem ég hreinlega veit ekkert hvað eiga að gera, t.d. l-Carnitine töflur, Cla og Hydroxycut. Já og svo náttúrulega Kreatín til að byggja upp vöðvana.

Jahérna, það er allt of mikið mál að fara í megrun eða reyna að byggja sig upp nú til dags, ég veit ekkert hvað af þessu ég á að velja. Best að éta bara sitt súkkulaði og drekka sitt kók og sitja fyrir framan tölvuna eitt kvöldið enn. Eða kannski ég prófi gömlu hallærislegu aðferðina, þ.e. að borða hollan og fjölbreyttan mat í hæfilegu magni og fara í sund eða út að skokka svona 4-5 sinnum í viku.
Kveðja,