Fóbía Ég á við vandamál að stríða, ég er nefnilega sjúklega hrædd við kóngulær.

Mér er ekki illa við þær, eins og sumir kalla það, heldur sjúklega, fáránlega dauðhrædd. Mér er svosum sama um flest önnur skordýr og á til dæmis ekkert erfitt með að henda út geitungum eða býflugum. En ef kvikindið með átta fætur og heitir kónguló þá fer bara allt í baklás og ég á erfitt með að vera í sama herbergi og fyrirbærið.

Þetta getur verið mjög heftandi, vandræðalegt og jafnvel stórhættulegt eins og sýndi sig í dag þegar ég var að keyra á þjóðvegi 1 í mikilli umferð og allt í einu er risahlussusterakónguló á baksýnisspeglinum. Fyrstu viðbrögð mín voru að reyna að beygja frá henni (mjög skynsamlegt eða þannig, sem betur fer var enginn að koma úr hinni áttinni) en síðan lét mér það nægja að öskra eins og vitskerrt (með munninn hálflokaðan svo hún næði örugglega ekki að stökkva uppí mig) þar til kærastinn minn (sem betur fer var staddur í bílnum) náði taki á skrímslinu og útrýmdi henni.

Þetta hefði getað farið verr en hins vegar er þetta bara eitt skipti af óteljandi þar sem þessi hræðsla mín hefur á einhvern hátt heft mínar venjulegu athafnir. Ég get ekki notað bakdyrnar heima hjá mér (enn ein Esmeraldan hefur aðsetur sitt beint fyrir ofan dyrnar)og alls ekki farið út með ruslið þar sem ruslatunnurnar eru ein stór áttfætluparadís.

Ég hef stundum reynt að taka mig taki og spyrja sjálfa mig hvað það sé eiginlega sem ég sé hrædd við. Að hún stökkvi á mig og geri hvað? Þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég er einfaldlega hrædd við að hún snerti mig. Velviljað fólk hefur oft reynt að benda mér á hin ýmsu augljósu atriði s.s. “Þú ert margfalt stærri en hún þannig að hún er miklu hræddari við þig en þú við hana”, “Hún gerir þér ekki neitt” og “Þú verður bara hræddari ef þú hugsar meira um þetta”. Langar mig þá oft til að benda viðkomandi á að sem mátulega hugsandi manneskja hafi ég nú gert mér grein fyrir þessu, er samt sem áður hrædd og þess vegna sé þetta vandamál. Þessar ráðleggingar hjálpa álíka mikið og að segja manneskju með innilokunarkennd að það sé allt í lagi að lokast í lyftu, veggirnir séu alveg sauðmeinlausir. Nóg um það.

Kannast einhver hérna við þetta vandamál og hefur jafnvel einhver góð ráð handa mér?

Með kveðju,
Lilu.
There is no sin but stupidity. (Oscar Wilde)