Ég er mjög stressuð/kvíðin manneskja. Ég hef alltaf áhyggjur af allt og öllu og það hefur alltaf háð mér í lífi mínu. Ég er 20 ára stelpa og hef aldrei farið í snúsnú (og örugglega sú eina á landinu sem hefur ekki gert það) því ég var svo hrædd um að krakkarnir myndu hlæja að mér ef ég gerði eitthvað vitlaust. Sömu sögu get ég sagt um t.d skíði og skauta. Ég hékk bara út í horni eða var sem staur í snúsnú og sat inni í skála í Bláfjöllum meðan hinir voru á skíðum. Var sem sagt svokallaður “félagsskítur” í barnaskóla.

Ég er líka frekar félagsfælin. Ef ég er með bólur þá fer ég helst ekki út fyrir hús, ef ég er ekki með bólur þá finnst mér þó aðeins skárra að fara út (er frekar slæm af bólum). Ég verð alltaf stressuð þegar ég er að fara að gera eitthvað og er meira og minna alltaf slæm í maga og á það til að æla.

Ég þarf að safna í mig kjarki til að gera hitt og þetta, jafnvel bara ef ég þarf að hringja eitthvað, sama þó það sé í vini og ættingja eða bara til að panta tíma hjá lækni eða eitthvað. Ég forðast að fara eitthvað þar sem ég kemst ekki heim strax. Svo ég fer helst ekki út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Mér líður illa á stöðum þar sem er mikið af fólki, sérstaklega í Kringlunni og Smáralind. Reyni alltaf að fara snemma þegar enginn er og forðast útsölur og jólatraffíkina. Fer líka ekki í bíó nema á tímum þar sem enginn er. Sem sagt helst í miðri viku og þegar búið er að sýna myndirnar lengi.

Ég drekk ekki því ég einfaldlega þori það ekki, finnst skelfilegt að hafa ekki fulla stjórn á mér og líka því ég verð alltaf að vera á bíl svo ég geti komist í burtu þegar ég vil. Þó ég skemmti mér ágætlega einhverstaðar þá hef ég samt þessa þörf að komast í burtu og fara heim. Einnig eru foreldrar mínir alkar og ég ólst upp við slagsmál, drykkju og læti og það er ekki eitthvað sem ég vil lenda í sjálf.

Ég er rosalega stressuð í skólanum og sérstaklega fyrir próf. Núna nýverið voru próf í skólanum mínum sem ég tók ekki því ég gat það bara ekki. Byrjaði að læra fyrir þau en svo bara 2 dögum fyrir þau þá fékk ég rosalegt kvíðakast og gat ekki lært og sat bara á klósettinu og ældi til skiptis. Samt er ég ekkert að standa mig illa í skóla, en finnst bara að ef ég kunni ekki námsefnið 100% og fái 10 á öllum prófum að þá sé ég ekki að standa mig.

Ég er misslæm af þessu en núna síðan ég byrjaði í Háskóla þá hefur líf mitt verið ein kvöl. Ég get ekki einbeitt mér að neinu, er þunglynd, óþolinmóð, með áhyggjur af öllu og mikla allt fyrir mér. Og núna þegar ég er sem verst þá sef ég varla á næturnar og er alltaf þreytt. Er oft með þvílíkan hjartslátt og heitt og kalt til skiptis. Langar bara til að skríða upp í rúm og vera þar sem eftir er. Fá mér eitthvað aulastarf sem krefst ekkert af mér og helst þar sem ég get bara falið mig.

Ég á einnig við bakveikindi að stríða, eftir slys og er alltaf stressuð með að gera eitthvað, verð stressuð bara yfir að fara í bíó eða stuttan bíltúr eða eitthvað álíka því ég veit að líkurnar á að ég verði að drepast í bakinu eru miklar.

Ég hef stundum hugsað um að leita til læknis, geðlæknis eða sálfræðings en mér finnst læknar aldrei trúa manni. Og líka hvernig veit maður hvernig maður á að velja sálfræðing eða geðlækni og hver er munurinn og eru þeir ekki líka rosalega dýrir ?

Ég er búin að vera í sambandi með strák í tæplega tvö ár og erum búin að búa saman í eitt. Ég er rosalega hamingjusöm með honum og hef t.d hætt að vera rosalega langt niðri og með sjálfsmorðshugsanir síðan við byrjuðum saman (sem ég var með í mörg ár áður en ég kynntist honum). En kvíðinn er alltaf til staðar og ég virðist bara ekki losna við hann.

Hvað get ég gert ??