Um 28.000 krabbameinstilfelli greinast á ári í Bandaríkjunum sem rekja má beint til munntóbaksnotkunar

Fyrir tveimur árum, í maí 1998, var haldin hátíðarsamkoma í ríkisþinghúsinu í St. Paul í Minnesota til heiðurs gömlum hafnaboltakappa, Bill Tuttle. Sá skuggi hvíldi yfir samkomunni að heiðursgesturinn gekk ekki heill til skógar. Hann var búinn að missa stóran hluta af kjálka og höku af völdum munnkrabbameins. Læknar hans sögðu orsökina vera áratuga munntóbaksneyslu. Meðal þeirra sem tóku til máls á samkomunni var Joe Garagiola sem á árum áður lýsti leikjum í úrvalsdeildinni. ,,Reyklaust er ekki skaðlaust," sagði hann hrærður og hvatti eindregið til hárra skatta á reyklaust tóbak. Tveimur mánuðum síðar var Tuttle látinn, 69 ára að aldri.

Vandamál Bills Tuttle var ekki einstakt meðal leikmanna í hafnabolta. Þvert á móti hefur munntóbaksneysla verið eins og inngróinn þáttur í bandarískum hafnabolta og verið margfalt algengari meðal hafnaboltamanna en almennt í þjóðfélaginu. Þetta hefur verið vaxandi áhyggjuefni og undanfarin ár hefur ýmislegt verið gert til að spyrna við fótum. Fræðsluherferð sem nær til alls landsins og kennd er við Garagiola hefur borið þann árangur að munntóbaksnotendum hefur fækkað úr 40% í 35% í úrvalsdeild hafnaboltans. Árið 1994 var sett bann við munntóbaksneyslu í neðri deildum og þar er hún komin niður í 29%. Meðal þeirra sem iðka hafnabolta í bandarískum framhaldsskólum er ástandið uggvænlegt. Þeir herma gjarnan eftir fyrirmyndunum í deildakeppninni og er talið að rúmlega helmingurinn noti munntóbak.

Almennt fer munntóbaksneysla í vöxt í Bandaríkjunum, einkum meðal ungra karlmanna. Vísindamaður við rannsóknastofnunina í Oregon heldur því fram að þessi neysla hefjist að meðaltali við 12 ára aldur, tveimur árum yngra en menn byrji að meðaltali að reykja sígarettur. Einnig ber meira á því en áður að fullorðið fólk af ýmsum stéttum fari að nota munntóbak, sérstaklega karlmenn.

Það eru ekki síst tannlæknar sem óttast þessa þróun, enda verða þeir öðrum fremur varir við afleiðingar munntóbaksnotkunar. Meðal algengra einkenna eru tóbakslitaðar tennur, tannholdsrýrnun, andremma og varanleg fleiður eða eymsli.. Af langvarandi neyslu geta hlotist áberandi, afmarkaðar skemmdir í slímhúð í munni sem sumar geta leitt til krabbameins en ganga þó oft til baka á nokkrum vikum eftir að menn hætta að nota tóbak.

Bandaríska tannlæknasambandið hefur hvatt tannlækna og aðra lækna til að ráðleggja þeim skjólstæðingum sínum sem nota reyklaust tóbak að hætta því alveg. Sé hægt að sýna mönnum skemmdir í munni á þeim sjálfum auðveldar það allar fortölur. Ekki tekst þó öllum að hætta sem það reyna, langt í frá. Árangur virðist vera nokkurn veginn sá sami og hjá þeim sem reyna að hætta að reykja, enda virðist reyklaust tóbak ekki vera síður ávanabindandi og ekki auðveldara að hætta við það en hætta að reykja.

Alvarlegasta hættan sem fylgir munntóbaksneyslu er sú að hún leiði til krabbameins í munni, og e.t.v. annars konar krabbameina.. Í munntóbaki eru krabbameinsvaldar, m.a. nítrósamín , fjölhringlaga arómatísk kolvetnissambönd og hið geislavirka pólóníum 210, en nokkuð misjafnt eftir tegundum. Í Bandaríkjunum koma upp sem næst 28.000 ný tilfelli munnkrabbameins á ári og talið er að stór hluti þeirra tengist munntóbaki. Það að kyngja munntóbakslegi er einnig talið auka hættu á magasári og skemmdum í vélinda.

Flestir bandarískir sérfræðingar munu vera á einu máli um að áróður gegn reykingum geti orðið til þess að sumir reykingamenn fari að nota reyklaust tóbak í stað þess að reykja. Þess vegna þurfi að leggja áherslu á að sýna mönnum fram á að reyklaust tóbak sé engan veginn skaðlaus kostur í stað reykinga.

Heimild: Chewing tobacco takes toll on health. CNN.com.health, 18 febrúar 2000.