Inngangur

Are Waerland var einn af frumkvöðlum náttúrulækningastefnunnar á Norðurlöndum og hafði mikil áhrif á dr. Jónas Kristjánsson, stofnanda NLFÍ. Waerland lifði nánast eftir eftirfarandi orðum Hippókreatesar, frumherja læknavísindanna: “fæðan skal vera vera yðar lyf.” Hann var sannfærður um að það væri hægt að koma í veg fyrir sjúkdóma og halda góðri heilsu til hárrar elli með mataræði sem náttúran ætlaði okkur. Jurtafæða er kjarninn í þeirri stefnu. Slíkt mataræði er kallað heilsufæði sem sýnir að gömul viðhorf eru að breytast til batnaðar. Þó er almennt haldið að jurtafæði sé einkum fyrir feitt fólk og heilsutæpt. Hin mikla eftirspurn eftir dvöl á Heilsuhæli NFLÍ í Hveragerði og á Reykjalundi gefur til kynna að mataræði Íslendinga sé í ýmsu áfátt.


Líffræðilega er maðurinn jurtaæta

Uppruni, þróun og starfshættir mannsins benda til að hann hafi þróast af lífi í trjám í milljónir ára. Blöð, blómhnappar, ávextir og rótarávextir hafa þá verið aðalfæða hans. Mannapar og górillur staðfesta það með lifnaðarháttum sínum. Þessi dýr lifa að mestu leyti á hreinu jurtafæði. Meltingarfæri þeirra samsvara nokkurn veginn meltingarfærum mannsins.

Erfiðar aðstæður frummannsins á ísöld beindi mataræði hans að kjötáti. En þar misbauð hann eigin eðli og líffræðilegri byggingu og ýmsir skammtíma og langtíma sjúkdómar gátu hafið innreið sína. Á heimsstyrjaldarárunum batnaði heilsa Dana og Norðmann stórlega vegna skorts á kjötvörum og bágs efnahags segir allt sem þarf.
Fæða sérhvers dýrs er í samræmi við lífeðlislega gerð þess. Líkamsstarfsemi mannsins og meltingarkerfi er allt öðru vísi en rándýranna. Ef við værum kjötætur hefði náttúran séð okkur fyrir sams konar tönnum og kjálkum og rándýr hafa. Jaxlar jurtaæta eru sérstaklega hentugir til að nýta beðmi (selluósa) og jurtatrefjar. Eins og jurtaæturnar höfum við kjálka sem hreyfast til hliðar ásamt flötum jöxlum. Það sannar að við erum fædd til að taka fæðu okkur úr jurtaríkinu.
Rándýr hafa stutta smáþarma til að losa líkamann sem fyrst við hvítuna sem rotnar fljótt. Aftur á móti eru þarmar jurtaæta og manna margfalt lengri. Það tekur mannslíkamann fimm daga að losa sig við leifar kjöts úr líkamanum en græmmeti aðeins einn og hálfan dag.

Rándýr hafa frá náttúrunnar hendi fengið sérlega öflug afeitrunarlíffæri. Eitrið sem þessi dýr svelgja í sig væri nóg til að drepa hundruð manna. Þessi líffæri vantar í líkama okkar eins og hjá öllum jurtaætum.


Siðfræði og smekkvísi jurtafæðis

Hrátt kjöt er heldur ógeðfellt á að líta og ókræsilegt til matar. Til að þóknast smekkvísi og bragðskyni verða menn að gylla fyrir sér. kjötið með ýmsum litar-og bragðefnum og sjóða það eða steikja, krydda og salta eftir kúnstarinnar reglum. Þessar matreiðsluaðferðir geta verið meira eða minna heilsuspillandi. Villt rándýr fást ekki til að láta ofan í sig saltað eða brasað kjöt. Í þessum efnum sem öðrum misbýður maðurinn eðli sínu. Aftur á móti fáum við meira en nóg af eðlilegu salti úr náttúrufæðunni. Grænmeti er auðvelt í geymslu, hreinlegt, fagurt, lyktargott og auðvelt að hreinsa eftir máltíðar.


Eitruð úrgangsefni sláturdýra

Eitruð úrgangsefni sláturdýrsins valda auknu álagi á efnaskipti og meltingarstarfsemi mannslíkams. Fyrir utan þvagsýru sem á stóran þátt í gigtar- og liðasjúkdómum, á þetta einnig við um efnið santín sem er náskylt nikótíni og koffíni í kaffi. Það myndar auðveldlega efnasamband við þessi fíkniefni og örvar sókn í þau. Þar að auki hefur alidýrafóður oft verið meðhöndlað með skordýraeitri sem safnast hefur fyrir í líkama dýranna og berst að lokum ofan í manninn.


Rotnun og eiturverkun kjöts

Kjöt, fiskur og egg rotna auðveldlega í löngum þarmagöngum mannsins við 37° líkamshita. Við þau skilyrði klekkst út aragrúi rotbaktería sem verða þá gróðrarstía fyrir hvers kyns sjúkdóma, einkum sé kjötið léttsteikt eða soðið. Fjöldi rotvera sem maðurinn lætur hugsunarlaust ofan í sig er svipað magn og er í húsdýrasaur. Eiturefnin sem myndast í þörmum mannsins af völdum rotnandi kjöts, fisks og eggja eru aðalvaldurinn að hægðarteppu og þeim ódaun sem stafar af mannssaur.


Trefjaefnakjúfar sjálfrar náttúrunnar

Jurtafæði inniheldur mikið af trefjaefnum sem eru einkar góðar fyrir meltingarstarfsemina. Þau koma í veg fyrir meltingartruflanir og draga úr offitu og hættu á botnlangabólgu, iðrakrabba og hjarta- og æðasjúkdómum. Ristillinn er helsta úrgangslosunarstöð líkamans. Meltingargerlarnir sem melta trefjaefnin halda hættulegum og heilsuspillandi rotbakteríum í skefjum svo til strax frá fæðingu manna og apa.

Til að heilsuverndandi áhrif gerlanna njóti sín til fullnustu er tilskilið að barni sé ekki gefið annað en jurtafæði þegar það byrjar að taka tennur. Þá mun gerlaflóran þar að auki vera fullfær um að brjóta nær fullkomlega niður trerfjaefnin í fæðunni og fær barnið þannig öll þau næringar- og bætiefni sem eru heilsu þess og þroska svo mikilvæg. Verði börn vanin á kjötmeti og egg ýta rotbakteríurnar smám saman inu vinsamlegu gerlunum til hliðar þar til þær hafa náð yfirhöndinni. Þá byrja hægðirnar að harðna og verða lyktvondar. Ekki er óalgengt að í honum séu rotveirur sem valda sjúkdómum. Eiturútskilnaður þeirra breiðist út um allan líkamann með blóðstreyminu og eitrar öll líffæri. Þar með rýrnar mótstöðuafl þeirra gegn öðrum veirum og sýklum sem valda algengum smitsjúkdómum. Allir barnasjúkdómar eru næstum undantekningalaust tilkomnir af þessari ástæðu.


Samanburður á næringargildi kjöts og jurtafæðu

Það er ekk nóg að halda sér við næringarinnihald kjötvara af hvítuefnum, fitu, kolvetni, vítamínum og steinefnum en loka augunum fyrir öllu rotbakteríunum sem í þeim eru. Þessar fæðutegundir opna leiðina fyrir bæði bráða og langvarandi sjúkdóma. Þar má til nefna ofnæmi, kvefsjúkdóma, inflúensu, niðurgang, magaveiki, berkla, krabbamein í iðrum, gikt, gallsteina, lifrarbólgu, háls- og brjóstsjúkdóma og fleira. Þess má geta að kólesteról í kjöti, einkum mettaðri fitu, er einn af aðalvöldum kransæðastíflu og hjartasjúkdóma.

Jafnvel þó að rotmeinavaldarnir væru ekki í kjötinu væri það ekki nóg til að halda á lofti ágæti hvítuinnihalds kjötsins. Það inniheldur of mikið af hvítunni og veldur truflunum á efnaskiptum vegna eiturverkana hennar. Einkum getur þvagsýran í kjötinu valdið nýrna-, giktar- og liðasjúkdómum, Miklu betri hvítu fáum við, án skaðlegra aukaverkana, úr kartöflum, baunum, mjólk og osti og grænmeti eins og salati, grænkáli, graslauki og grænum blöðum svo sem spínati.

Fyrir utan of mikillar hvítu er kjötið einhliða næringarefni sem skortir mikilvæg vítamín og steinefni líkt og strásykur og fínmalað hveiti. Við neyslu kjötsins verður líkaminn snauðari af þessum efnum sem eru algjörlega nauðsynleg til að lífveran geti gert sér mat úr kjötinu. Því er lífeðlisfræðilega ómögulegt að nærast eingöngu á kjöti.

Jurtaætur þurfa hins vegar að hafa í huga að þær fái nóg af efnum eins og járni, sinki, kalki, B-12 vítamíni og D-vítamíni. Það er hins vegar firra að ekki sé ekki hægt að fá nóg af slíkum næringarefnum úr jurtafæði. Varast skal að börn fái of fáar hitaeiningar úr jurtafæði þar sem það getur hindrað eðlilegan þroska.

Hafa ber í huga að vegna tiltölulega fárra hitaeininga í jurtafæðu er offita lítið vandamál. Offita er áhættuvaldur margra sjúkdóma eins og hás blóðþrýstings og kransæðasjúkdóma.
Þvert ofan í álit margra reynist fólk á jurtafæði almennt vera sterkara, þrekmeira, þolnara og liðugra en flólk sem lifir mest á kjötfæði. Íþróttamenn á jurtafæði hafa til að mynda náð hlutfallslega betri árangri í íþróttum en kjötétandi félagar þeirra.

Hafa verður í huga að mataræði er aðeins einn liður í því að halda góðri heilsu. Reglubundin hreyfing og þjálfun, nægileg hvíld, hófsemi í neyslu ávanaefna og andlegt jafnvægi eru líka mikilvægir þættir.


Óhagkvæmi kjötframleiðslunnar

Það þarf 17 sinnum meira graslendi og beitiland og átta sinnum meira vatn til að framleiða eitt kíló af kjöthvítu en til að rækta eitt kíló af jurtahvítu. 90 hundraðshlutar af jurtahvítu fara í súginn við fóðrun alidýra. Ef allir menn gerðust jurtaætur gæti jörðin auðveldlega fætt mörgum sinnum fleiri jarðarbúa en nú lifa á henni og hungursneyð yrði úr sögunni. Einnig væri mun auðveldara að varðveita óspillta náttúru og vistkerfi jarðar ef minna land þyrfti að brjóta undir landbúnað. Til að mynda er ógrynni af regnskógi rutt vegna skammvinnrar nautgriparæktunar. Til að koma á hugarfarsbreytingu og snúa þessari þróun við þarf að stórauka áróðurinn fyrir neyslu náttúrulegrar fæðu. Sterk hagsmunaöfl standa á móti slíkri stefnubreytingu. Einnig þarf að lækka verð á grænmeti og styrkja garðyrkjuframleiðendur og almenning sem vill rækta sitt eigið grænmeti. Hægt er að fá upplýsingar um náttúrlegt matarræði og matreiðslu úr ýmsum bókum sem eru á markaðinum og með því að snúa sér til þeirra sem hafa kynnt og boðað náttúrufæðustefnu hér á landi.


Eftirmáli

Þegar til lengdar lætur er jurtamatur bragðbetri og auðmeltanlegri og ekki síður fjölbreyttur. Hann skilur eftir sig þægilega ánægju- og vellíðunarkennd, fínleika og léttleikatilfinningu, lífsorku og frískleika hugar og líkama. Maðurinn losnar við meltingartruflanir og ýmsa aðra fylgikvilla nútíma mataræðis. Þá skilur hann í hverju sönn heilsa, atorka og lífsgleði er fólgin. Þegar á allt er litið má fullyrða að mataræði þar sem sleppt hefur verið sem mest afurðum úr dýraríkinu stuðli að bættri heilsu og heilbrigði. Miklilvægur forvarnaþáttur er því að tileinka sér jurtamataræði sem dregur úr líkum að ýmsir sjúkdómar nái að festa rætur.


Heimildir:

Are Waerland. Lykillinn til heilsu. Hvers vegna ég borða ekki kjöt, fisk og egg, Oslo, 1959.
Barbara Parham, What´s wrong whith eating meat, 1979.

Náttúrulækningarstefnan er hluti af lífsháttum. Rætt við dr. Jónas Bjarnason forseta NFLÍ. Heilsuvernd., 3 árg., des. 1989.

Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur. Grænmetisfæði - almennar upplýsingar, www.doktor.is