Jæja en einu sinni rætt um reykingar sem virðist vera óvinur heilsunnar nr.1.
Í þau skipti sem ég hef hætt reykingum þá hef ég tekið eftir því hvað mér líður hrikalega vel einungis tveim dögum seinna.
Maður fær fljótt lyktarskinið í fullan gang, bragð af mat verður mun betri og almennt líður manni betur.
Maður kemst í miklu betra skap og maður verður reyndar hálfofvirkur í nokkra daga en það er bara fínt.
Og síðan er æðislegt að vakna á morgnana.
Þannig að þegar ég reyni að hætta þá horfi ég spenntur á næstu daga ekki með kvíða.
Maður fer líka að lykta mun betur og loksins einhver tilgangur í rakspíranum (eða ilmvatninu).
Og maður stendur sig mun betur í vinnunni sinni. Og öll leti hverfur á einu bretti.

Ég myndi segja að besti tíminn til að hætta að reykja sé núna, þá á ég við bæði vegna þess að maður á aldrei að segja við sjálfan sig að maður hættir á morgun eða eftir helgina (maður einfaldlega gleymir því að hætta að reykja) og líka vegna þess að sumarið er nýgengið í garð og þá er langbesti tíminn til að hætta. Góð lykt í loftinu og auðveldari að einbeita sér að hollustu og útiveru.
Aftur á móti kemur mikið djamm upp um sumarið og skal varast að hætta rétt fyrir stórar hátíðir sem innihalda mikið djamm.

Þegar ég hef hætt að reykja, þá er ég oft búinn að vera í rosalegum umræðum um kosti og galla þess að hætta að reykja í kollinum.
Og oft þegar ég hef tekið ákvörðun um að hætta að reykja þá man ég ekki seinna um daginn (þegar kemur að næstu sígarettu) hvort ég hafi ákveðið (hljómar heimskulega) og enda oftast á því að fá mér sígarettu.
Ef þú ákveður að hætta að reykja þá skaltu einbeita þér að því og engu öðru. Jafnvel að hringja þig inn veikan/veika í vinnuna í nokkra daga, það margborgar sig. Það er fátt jafnmikilvægt og að hætta þessu, hversu gott sem það er að fá sér sígarettu (sem er æðislegt, ég veit).
Og passa sig að þegar maður fær sér kvöldmat, þá má ekki borða svo mikið að maður verður pakksaddur (það er einn besti tíminn til að fá sér sígarettu).

Og stelpur ekki hætta að reykja á meðan þið eruð á blæðingum (nógu andskoti erfitt fyrir) og strákar ekki hætta þegar þið hafið ekki fengið það í langan tíma (stelpur líka). Maður má bara vera pirraður yfir einum hlut í einu.
Vona þetta hafi hjálpað eitthvað (fyrir reyk og reyklausa).
Og “reyklausir” sýnið reykingarfólki smá tilitsemi, það er enginn dans á rósum að vera fastur í þessu, þið hefðuð auðveldlega getað verið í sömu sporum :)