Um salmonellu
Algengustu sýkingar vegna salmonellubaktería eru matareitranir af völdum Salmonella typhimurium eða Salmonella enteritidis. Salmonellusmit berst oftast úr mat en getur einnig borist með vatni. Sýking er líklegri eftir því sem meira magn af bakteríum kemst í garnirnar. Magasýra veitir náttúrulega vörn gegn sýkingu, en ef magasýrumyndun er lítil eða magatæming er mjög hröð er hættara við sýkingu en annars. Þegar bakteríurnar komast í smágirni geta þær fjölgað sér og valda þá niðurgangi, hita og bólgu í slímhúð garnanna.

Einkenni salmonellusmits
Einkennin geta verið misalvarleg og í sumum tilfellum getur salmonellusmit verið einkennalaust. Algengt er að veikindi byrji með ógleði, uppköstum og niðurgangi um 6-48 klst. eftir smit. Í kjölfarið geta komið vöðvaverkir, höfuðverkur og hiti. Niðurgangnum geta fylgt magakrampar. Niðurgangur nær fljótlega hámarki og getur varað allt frá nokkrum klukkutímum til nokkurra daga.
Sýkingar eru algengari, alvarlegri og vara í lengri tíma hjá börnum, öldruðum og þeim sem eru veikir fyrir en hjá heilbrigðu fullorðnu fólki.
Orsök einkennanna er ekki að fullu þekkt, en salmonellubakteríur framleiða eitur sem gætu skýrt niðurgang og bólgur.

Meðferð
Það er sjaldnast þörf á sýklalyfjameðferð gegn salmonellusmiti. Ef einkenni eru ekki mjög alvarleg dugar oftast að drekka mikinn vökva til að vega upp vökvatap vegna niðurgangsins, þangað til einkennin ganga yfir. Í þessum tilfellum geta sýklalyf gert meira ógagn en gagn. Í mjög alvarlegum tilfellum, þegar einkenni eru mjög langvarandi eða merki eru um að sýkingin hafi borist víðar í líkamanum en í meltingarveginn er þörf á meðferð. Meðferðin er aðeins hafin þegar sýkingin er það alvarleg að sjúkingur hefur verið lagður inn á sjúkrahús. Sýklalyf eru þá valin samkvæmt næmisprófi, þ.e rannsókn er gerð á saursýni til að finna hvaða sýklalyf á best við.

Eftir að einkenni salmonellusmits ganga yfir getur bakterían fundist í hægðum í nokkrar vikur. Viðkomandi getur þannig borið smit þó hann finni ekki fyrir neinum einkennum nokkurn tíma eftir sýkinguna, en í langflestum tilfellum er tímabilið ekki lengra en einn mánuður. Vegna þessa er mikilvægt að gæta fyllsta hreinlætis þó að einkenni séu ekki lengur til staðar. Þeir sem vinna við matvælaframleiðslu mega ekki hefja störf aftur eftir smit fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að þeir séu ekki smitberar.

Eftir salmonellusýkingu virðist líkaminn mynda mótstöðu gegn frekari salmonellusýkingum að einhverju leyti.