Algengt er að einhver náttúruefni eða samsetningar þeirra séu notuð til að hjálpa fólki að grennast. Eðlilega vill fólk léttast sem mest á sem stystum tíma, og finnst því sjálfsagt að nota þau ráð sem í boði eru. Í gegnum tíðina hafa mjög mörg efni komið á markaðinn, en flest þeirra hafa ekki enst lengi. Það gildir almennt um þessi efni að áhrif þeirra hafa ekki verið athuguð ein sér, heldur eru þau notuð ásamt aukinni hreyfingu og breyttu mataræði. Það getur því verið erfitt að sjá hverju árangurinn er að þakka ef enginn samanburður er við þá sem auka hreyfingu og breyta mataræði en nota ekki þessi efni. Nokkrar rannsóknir hafa þó verið gerðar til að athuga muninn á hópum sem nota fæðubótaefni eða náttúruvörur sem hluta af meðferð og þeim sem nota eingöngu breytt mataræði og aukna hreyfingu. Þannig hefur verið sýnt fram á betri árangur hjá þeim sem nota viss fæðubóta- og náttúruefni við offitu. Af þessum efnum er helst að nefna króm, L-karnitín og hýdroxýsítrónusýru. Svo virðist sem bestur árangur náist þegar þessi efni eru notuð saman og sem hluti af meðferð með breyttu mataræði og aukinni hreyfingu. Auk þessara efna getur koffein hjálpað þar sem það hraðar brennslu að einhverju leyti.

Króm eykur verkun insúlíns, en insúlín er nauðsynlegt fyrir flutning sykurs og amínósýra úr blóði í frumur. Amínósýrur eru grunneining próteina og eru notaðar í uppbyggingu og viðhald vefja. Þegar orkuneysla er minnkuð getur líkaminn byrjað að brjóta niður prótein til þess að vinna úr þeim orku, en við þetta getur vöðvamassi rýrnað og efnaskiptahraði líkamans minnkað. Til þess að koma í veg fyrir þetta er æskilegt að fæðan innihaldi mikið af próteinum, en auk þess getur hjálpað að taka inn króm aukalega.

L-Karnitín er efni sem sér um flutning fitueininga innan fruma. Karnitín flytur fitueiningar inn í ákveðinn frumulíffæri, mítókondríur, þar sem fitueiningarnar eru brotnar niður til orkumyndunar. Það hefur því mikið að segja að nægilegt karnitín sé til staðar til þess að fitunni sé örugglega brennt þegar þess er kostur.

Garcinia Cambogia plantan inniheldur hýdroxýsítrónusýru, sem virðist geta hindrað myndun fitueininga í líkamanum. Auk þessa virðist hýdroxýsítrónusýra auka myndun glýkógens í lifur, en glýkógen er notað sem forði til að halda blóðsykri stöðugum. Glýkógen er geymt í vöðvum og lifur, og er mun hreyfanlegri orkuforði en fita, þ.e. uppbygging og niðurbrot glýkógenforðans er mun hraðari en fituforðans. Glýkógenmagn í líkamanum hefur einnig áhrif á svengdartilfinningu, þannig að aukið magn glýkógens ætti að draga úr matarlyst.