Rannsókn sem sænskir vísindamenn gerðu á rúmlega þrjú þúsund tólf ára börnum leiddi í ljós að sjálfsörugg börn hirða tennur sínar betur en þau sem ekki eru jafnánægð og örugg með sig.

Börn sem eru full sjálfstrausts og eru ánægð með sjálf sig geta átt von á því að fá góðar tennur þegar þau vaxa úr grasi. Rannsókn sem sænskir vísindamenn gerðu á rúmlega þrjú þúsund tólf ára börnum leiddi í ljós að sjálfsörugg börn hirða tennur sínar betur en þau sem ekki eru jafnánægð og örugg með sig.

Í sænska blaðinu Dagens Nyheter kemur fram að nærri níu af hverjum tíu börnum hafi mjög góðar tennur með fáum skemmdum en samtímis sé til hópur barna með miklar tannskemmdir.

Vísindamenn við háskólann í Umeå hafa í mörg ár leitað að öðrum skýringum en of miklu sælgætisáti barnanna. Nú telja þeir sig hafa fundið bæði sálræna og erfðafræðilega skýringu á þessu.

Tólf ára krakkarnir sem tóku þátt í rannsókninni voru meðal annars látnir svara spurningum um hvernig þeim líkaði útlit sitt og hvað þeir héldu að kennurunum fyndist um frammistöðu þeirra. “Þegar við litum á ýmsa þætti sem höfðu áhrif á tannheilsu þeirra komumst við að raun um að sjálfstraust hefur áhrif á það hvernig börnin hirða tennurnar og á sælgætisát þeirra og gosdrykkjaþamb,” segir vísindakonan Carina Källestål. Hún kynnti niðurstöður sínar á vísindaþingi í Stokkhólmi í síðasta mánuði. Hún hyggur á frekari rannsóknir þegar börnin verða eldri til að kanna hvort þá verði enn samband milli sjálfstrausts og góðrar tannheilsu. Sænski prófessorinn Nicklas Strömberg og samstarfsmenn hans hafa rannsakað munnvatn fjölda manns. Þeir komust að því að í munnvatni sumra er mikið af bakteríum sem vernda tennurnar og þeir hafa þar af leiðandi góðar tennur. Aðrir hafa aftur á móti fullt af tannskemmdarbakteríum í munnvatni sínu og því fleiri holur í tönnum. Mismunandi lífsstíl er ekki aðeins um að kenna heldur eiga erfðaþættir þar einnig hlut að máli, segir prófessorinn.