Tveir bandarískir vísindamenn hafa nýlokið rannsókn þar sem þeir telja sig hafa sannað það að fólk geti haft áhrif á minni sitt.

Í rannsókninni fengu vísindamennirnir sjálfboðaliða til að ákveða að reyna að gleyma tilteknum orðum. Seinna meir voru sjálfboðaliðarnir spurðir um orðin og áttu þeir þá erfitt með að muna þau, jafnvel þótt peningar væru í boði. Dr. Michael Andersson, annar vísindamannanna, telur að minningarnar séu ekki þurrkaðar út heldur aðeins bældar niður. Þær séu enn til staðar en fólki reynist bara erfitt að nálgast þær.

Það er von vísindamannanna tveggja að með þessari uppgötvun þeirra opnist nýir möguleikar í rannsóknum á minnisleysi hvers konar.