Vegna greinarinnar “Þunglindi er erfitt, losnaðu við það” langar mig til að reyna að útskýra hvernig þunglyndi hefur líst sér hjá mér og vinkonu minni. Önnur dæmi þekki ég ekki jafnvel þó ég viti til þess að nokkrir félaga minna séu þunglyndir. Til að segja það hreint út þá ætla ég ekki að alhæfa neitt því sjúkdómurinn lýsir sér örugglega ekki alltaf eins.

Það má segja að þessi sjúkdómur hafi tekið bólfestu í mér á unglingsaldri. Lýsandi sér í sjálfsmorðshugsunum. Ég reyndi að fremja sjálfsmorð 2001 og um ári seinna reyndi vinkona mín það sama. Þannig að við erum í svipuðum sporum nema hvað að henni tókst að redda sér mun betri lyfjum þannig að hún var í mun meiri lífshættu en ég.
Þegar maður dettur niður þá gerist það stundum svo hratt að maður tekur varla eftir því. Lág einkunn í verkefni, fólk horfandi á mann eða misskilningur getur orðið þess valdandi að allt í einu verður allt ómögulegt. Hugsanirnar snúast um það hversu ómögulegur maður er, (og í okkar tilviki) hversu gott það yrði fyrir alla aðra ef maður myndi nú bara hverfa. Stundum þarf ekki einu sinni neitt til. Í mínu tilviki þarf bara x langan tíma ein með sjálfri mér og þá er ég dottin niður. Engin ástæða sjáanleg önnur en sú að ég er greinilega bara svo leiðinleg að það nennir enginn að hringja í mig, tala við mig eða bara vera heima.
Nú spurja líklega margir af hverju ég tek ekki bara frumkvæðið og hringi í félaga mína. Það er bara svo erfitt þegar mér er farið að líða furðulega þá veit ég alveg hvað er í vændum og vil ekki íþyngja neinum með mín vandamál. Ég vil ekki verða byrði. Síðast en ekki síst vil ég ekki að vinir mínir vorkenni mér eða haldi að ég sé að biðja um einhverja uppörvun (svipað og þegar grannar stelpur segja “ég er svoooo feit” setja upp áhyggjusvip eins og þær meini það en vilja í rauninni bara heyra fólk segja “nei, þú ert svo rooooosalega grönn!”).
Við vinkonurnar höfum reynt að vera til staðar fyrir hvora aðra, reynt að rífa hvora aðra upp þegar þunglyndið og sjálfsmorðshugleiðingarnar eru komin upp á yfirborðið. Það er mjög þægilegt að þurfa ekki að reyna að útskýra þessa yfirþyrmandi vonleysistilfinningu og uppgjöf fyrir fólki því við þekkjum þetta báðar. Vitum að það þarf ekkert að koma fyrir, vitum að það er ekkert hægt að segja.

Vinkona mín er komin á lyf núna og er að mana sig upp í að fara til geðlæknis/sálfræðings. Ég hef verið útskrifuð frá heilbrigðiskerfinu (var hjá sálfræðingi og á lyfjum).

Eitt sem aðstandendur þunglyndissjúklinga/fólks með sjálfsmorðsáráttu þurfa að skilja. Við vinkonurnar höfum talað um þetta og erum alveg sammála um þetta. Þegar ég (og hún) er komin langt niður þá hugsa ég svo skírt! Hvað sem hver segir þá eru hugsanir mínar þær einu réttu. Þannig að þegar fólk reynir að segja mér að eitthvað sé öðruvísi en ég hugsa að það sé þá verð ég reið fólkinu fyrir að skilja ekki heiminn.
Þetta er voðalega furðulegt og ég get varla útskýrt þetta öðruvísi en að þegar ég er niðri þá hef ég alltaf rétt fyrir mér.
Þegar mér líður betur þá sé ég að þessar hugsanir eru bara rugl og vitleysa en einhverra hluta vegna þá finnst mér að í hvert skipti sem ég dett niður þá hafi ég rétt fyrir mér.

Fyrirgefið ef þetta er ruglingslegt, hugsanirnar eru svolítið á reiki. Líðanin rokkandi upp og niður. Mér fannst ég bara verða að skrifa þetta því ég hef heyrt það sagt að þunglyndissjúklingar séu bara aumingjar og kannski þeir/við séum það að einhverju leiti en hversu lengi mundi heilbrigð manneskja meika það að brjóta sjálfan sig niður dag eftir dag eftir dag.

Þegar mér líður vel þá lít ég á þá sem hafa jafnað sig af þunglyndissjúkdómnum sem hetjur því þeir lifðu af. Baráttan er löng og ströng.