Hvað er þreyta og hvers vegna verðum við þreytt?

Það er afskaplega erfitt að skilgreina hugtakið þreytu vegna þess að hver hefur sinn skilning á því hvað það er að vera þreyttur. Allir verða þreyttir af og til, og algengasta ástæðan er að sjálfsögðu svefnleysi.
Ýmsir sjúkdómar geta valdið þreytu. Þá gerir hún skyndilega eða smám saman vart við sig, svefnþörf eykst, og maður er slappur þegar maður er vakandi.

Hvað þarf að sofa mikið?

Svefnþörfin er afar einstaklingsbundi og minnkar venjulega með aldrinum. Ung börn þurfa yfirleitt mikinn svefn. Fyrstu árin getur svefnþörf þeirra verið allt að 14 - 16 klukkustundir. Svefnþörf barnanna minnkar síðan jafnt og þétt, en flest skólabörn þurfa að minnsta kosti 10 - 12 klukkustunda svefn til að vera hress á daginn. Það er bjarnargreiði að leyfa þeim að vaka langt fram á kvöld, ef þau þurfa að fara snemma á fætur daginn eftir. Góður, langur og órofinn nætursvefn virðist bæði stuðla að betri einbeitingu og hjálpa börnunum að byggja upp ónæmiskerfið til varnar ýmsum sjúkdómum.

Meðan börn eru að vaxa hafa flest þeirra þörf fyrir að minnsta kosti 6 - 8 klukkustunda svefn, en það er einstaklingsbundið. Eldra fólk getur oft komist af með minni svefn.

Hvaða sjúkdómar valda þreytu?

Hér er listi yfir algengustu og mikilvægustu sjúkdóma sem valda þreytu.
Blóðleysi er algeng ástæða þreytu. Blóðleysi vegna járnskorts er þekktast meðal kvenna, sem hafa á klæðum, þar eð járn tapast með tíðablóðinu í hverjum mánuði. Því þarf að bæta sér það upp með járni úr fæðunni. Aðrar ástæður fyrir járnskorti eru þungun, járnsnauð fæða, snörp vaxtarskeið barna, ýmsir þarmasjúkdómar sem valda því að upptaka næringarefna úr fæðunni er léleg, t.d. glúten-óþol, eða Crohns sjúkdómur.

Járnskortur án skýringar þarf skilyrðislaust læknisrannsóknar við, þar eð ástæðan getur verið að lítil sár séu í þörmunum vegna hnúta eða krabbameins. Blóðleysi getur einnig orsakast vegna skorts á fólínsýru eða B12 vítamíni.

Sýkingar geta valdið þreytu, t.d. kossageit (mononukleose), borreliose, alnæmi o. fl.

Þunglyndi getur komið fram sem þreyta. Gefið því gaum ef þreytan leggst yfir á veturna, en það getur bent til skammdegisþunglyndis sem nú er hægt að meðhöndla með góðum árangri.

Krabbamein. Krabbamein veldur þreytu að meira eða minna leyti. Því er áríðandi að leita læknis vegna viðvarandi, sem engin þekkt skýring er á, í vissan tíma.

Efnaskiptin. Ef efnaskiptin eru of hæg kemur það fram sem mikil þreyta og svefnþörf. Ef grunur leikur á því að efnaskiptin séu of hæg, er mikilvægt að láta lækni rannsaka það því að í dag eru til góð, árangursrík og ódýr lyf við sjúkdómnum. Of hröð efnaskipti geta, þótt ótrúlegt megi virðast, líka komið fram sem þreyta. Það lýsir sér með svefnleysi, hröðum púlsi, þreytu og kraftleysi. Við þessu er einnig til ágæt meðferð.
Sykursýki getur oft birst sem þreyta. Nauðsynlegt er að greina sykursýki og meðhöndla rétt til að halda sjúkdómnum í skefjum. Sjúkdómsgreiningin fæst oftast með einfaldri blóðprufu og í dag er, í mun meiri mæli en áður, hægt að aðlaga meðferðina að þörfum einstaklings, þannig að líf hans raskist sem minnst.
Aðrar ástæður. Ýmsar aðrar, misjafnlega algengar, ástæður geta legið að baki þreytu, meðal annars síþreyta sem er ástand sem lýsir sér í óútskýrðri þrúgandi þreytu. Ekki er til nein aðferð til að slá því föstu hvort maður þjáist af síþreytu, og þar af leiðandi er umdeilt hvort um sé að ræða sérstakan sjúkdóm.
Hvað á að gera, ef þreyta stendur manni fyrir þrifum?

Hugsanlegt er að þreytan stafar af svefnleysi. Ef það getur ekki verið og fundist hefur fyrir þreytu í meira en 3-4 vikur gæti verið vert að íhuga hvort skýringuna sé að finna hér að ofan. Ef þreytan er viðvarandi, á að hafa samband við lækni, panta tíma og hugsanlega rannsókn, sérstaklega ef vart verður við önnur einkenni á borð við nætursvita, fölar slímhúðir, blóðugar hægðir, stækkaða eitla, áberandi þorsta eða önnur nýleg einkenni.