Í þessu greinarkorni ætla ég að fjalla lítillega um sætuefnið xylitól en einkum þó um sérstöðu þess í viðhaldi góðrar tannheilsu.

Það var árið 1891, að vel þekktur þýskur efnafræðingur, Emil Fischer að nafni, uppgötvaði 5 kolefna sykuralkóhól (pentitól) sem fékk nafnið Xylitól. Það var ekki fyrr en hálfri öld seinna, árið 1943, að xylitól fannst í náttúrunni í birkitrjám og hlyni og mörgum tegundum ávaxta og grænmetis sem rík eru af xylan hemicellulósa. Árið 1962 kom það í ljós að líkaminn framleiðir xylitól í litlu magni, sem milliafurð í meltingu. Fullunnið er það hvítt, kristallað, lyktarlaust duft sem er svipað í útliti og sætleika og borðsykur (súkrósi) en inniheldur þriðjungi færri hitaeiningar. Það er bragðgott , hefur lítið eftirbragð, er auðleysanlegt og gefur að auki þægilega kælitilfinningu í munni.

CH2OH

|

H - C - OH

|

HO - C - H

|

H - C - OH

|

CH2OH

XYLITOL

Xylitol hefur verið notað sem sætuefni síðan á 7. áratugnum í meira en 35 löndum og finnst m.a. í tyggigúmmíi, brjóstsykri og sælgætistöflum, ýmsum lyfjum og munnhirðuvörum s.s. hálstöflum, hóstamixtúrum, vítamíntöflum, tannkremum og munnskolum.

Afkoma baktería í munnholi ( aðallega Streptococcus mutans og Lactobacillus) byggist að miklum hluta á því að geta gerjað fljótt og örugglega kolvetni (sykur) í mjólkursýru og hindrað þannig upphleðslu á milliafurðum sem dregið getur þær til dauða ef kolvetnaframboð er nógu mikið. Þetta ferli kallast glýkólýsa (sykurrof) og veldur því að sýrustig í tannsýklunni fellur. Þetta veldur úrkölkun og loks tannskemmd.

Bakteríur geta ekki gerjað sykuralkóhól (xýlitól,sorbitól og lycasin) á þennan hátt og því veldur neysla þeirra hækkun á sýrustigi í tannsýklu. Sýnt hefur verið fram á, að þótt bakteríur virðist geta aðlagast sorbitóli, þ.e. þær byrja að geta gerjað sorbitól eftir að hafa verið í snertingu við það í nokkurn tíma, á það ekki við um xýlitól. Xýlitól safnast því fyrir í bakteríunum á forminu xýlitól -5- fosfat, sem hindrar getu þeirra til að gerja súkrósa og dregur verulega úr vexti þeirra. Þetta veldur því að tannsýkla minnkar og bakteríur hrekjast út í munnvatnið , þar sem þær gera ekki skaða og er auðveldar skolað út. Sýnt hefur verið fram á að jafnframt því að bakteríum fækkar beint, eru þær sem eftir eru ekki eins skaðlegar (minnkaður eyðileggingarmáttur).

Auk þessarra beinu áhrifa á bakteríur eykur xýlitól (sérstaklega í tyggigúmmíi) munnvatnsframleiðslu mjög mikið sem veldur aukinni skolun tannanna. Einnig hafa rannsóknir sýnt að með því að bindast kalsíumi (kalki) í munnvatni stuðli xýlitól að endurkölkun á glerungi og tannbeini.

Af ofantöldu er ljóst að xýlitól er ekki aðeins hlutlaust (þ.e. ógerjanlegt af bakteríum) líkt og sumar aðrar tegundir sætuefna, heldur hefur það einnig bein áhrif til minnkunar tannskemmda, allt upp í 82% í sumum rannsóknum.


Þessi góðu áhrif xýlitóls á tennur eru þó alls ekki einu kostir efnisins, því að nýleg rannsókn sem gerð var í Oulu í Finnlandi (1997) sýndi að 100% xýlitól tyggigúmmí eða xýlitól sýróp (fyrir yngri börn) minnkaði marktækt líkurnar á bráðri eyrnabólgu hjá börnum.

Eins og áður sagði inniheldur xýlitól þriðjungi færri hitaeiningar

en súkrósi (2.4 kalóríur/gramm á móti 4.0 kal./g fyrir súkrósa), en þar sem frásog þess er hægt meltist það nokkurn veginn óháð insúlíni og er því einnig kjörið sætuefni fyrir sykursjúka.

Fleiri atriði hafa verið talin xýlitóli til tekna, og þau helstu eru:

Virkar vel gegn andremmu.
Drepur sveppi, þar á meðal Candida albicans.
Heldur skemmdum af völdum frírra radíkala eftir erfiðar líkamsæfingar í lágmarki.
Gefur orku og eykur ATP (adenosinetriphosphate).
Hjálpar til að viðhalda grönnum vöðvamassa.


Eftir þessa lofræðu er rétt að minnast á þá galla sem fylgja notkun xýlitóls, en þeir eru helst (að undanskildum hinum háa framleiðslukostnaði , því xýlitól er dýrast í framleiðslu allra sætuefna) tengdir hinu hæga frásogi þess. Ef þess er neytt í miklu mæli getur það valdið niðurgangi, lystarleysi og töfum á magatæmingu. Xýlitól hefur þó minni hægðarlosandi áhrif en t.d. sorbitól. Þetta hefur samt latt vísindamenn í að nota það í penisillínmixtúrur fyrir börn og því eru flestar slíkar mixtúrur ennþá með súkrósa.

Greinarhöfundur vonar að spurningum einhverra hafi verið svarað og mælir að lokum með að auk hefðbundinnar tannhirðu sé notað xýlitóltyggigúmmí á milli mála.