Nú er ég farin í megrun". Þessi setning heyrist ósjaldan en oft reynist erfitt að fylgja fullyrðingunni eftir og ná árangri. Offita er algengt vandamál og getur haft mjög alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar. Í þeim tilvikum þar sem einstaklingur er of feitur, getur hvert kíló sem fær að fjúka haft mikil og góð áhrif á heilbrigi og líðan viðkomandi. Á sama tíma er ólíklegt að manneskja í kjörþyngd (t.d. þyngdarstuðull 23) sem vill missa nokkur kíló til að komast í jólakjólinn eða líta betur út í sundbolnum, komi til með að verða neitt hraustari eftir megrunina, en yrði jafnvel ver á sig komin heilsufarslega.

Megrun krefst mikils undirbúnings og mjög einstaklingsbundið er hvaða aðferð hentar best. Það fer meðal annars eftir því hver líkamsþyngd viðkomandi er í upphafi megrunar, heilsufarsástandi og hversu mikið þyngdartapið á að verða. Það dugar lítið að segja mjög feitum einstaklingi eingöngu að hreyfa sig meira, þar sem viðkomandi hefur eflaust lítið þol og kæmi ekki til með að fá nægjanlega mikið út úr erfiðinu. Aftur á móti getur hreyfing verið lykilaðferð megrunar meðal fólks sem aðeins þarf að léttast innan við 10 kg.

Mataræði er mjög mikilvægur þáttur í megrun og ætti þá meðal annars að hafa eftirfarandi atriði í huga:

Fita gefur meiri orku per gramm heldur en kolvetni og prótein og er þar að auki minna mettandi - forðist því fæðutegundir sem innihalda mikla fitu.
Ef hitaeiningafjöldi er skorinn niður er mikilvægara en ella að fæðið sé ríkt af næringarefnum.
Gróft korn, grænmeti og ávextir gefa litla orku en eru rík af vítamínum, steinefnum og trefjum - takmarkið ekki neyslu á þessum fæðutegundum.
Hvítur sykur og alkóhól eru dæmi um fæðutegundir sem aðeins gefa orku en engin bætiefni - reynið að sneiða sem mest fram hjá sætindum og alkóhóli.
Vatn getur fyllt magan milli máltíða - vatn er besti svaladrykkurinn.
(Sjá einnig Góður lífsmáti)
Til að léttast þarf orkunotkun að vera meiri en orkuinntaka. Til að losna við 0,5 kg af fitu þarf orkunotkun að vera um 4000 kcal meiri en orkuinntaka. Hæfilegt þyngdartap er 0,5-1 kg á viku sem jafngildir því að dagleg orkunotkun sé 500-1000 kcal meiri en orkuinntaka. Algengur hitaeiningafjöldi í megrunarfæði er því á bilinu 1200-1500 kcal á dag og jafnvel allt að 2500 kcal ef um er að ræða einstakling með mikla orkuþörf (t.d. stóra karlmenn). Mikilvægt er að miða hitaeiningafjölda við að þyngdartap verði ekki meira en 1 kg á viku. Ástæðurnar eru nokkrar:

Ef megrunin er of hröð verður hlutfallslega meira tap á fitufríum massa, en í hann viljum við að sjálfsögðu halda - það er fitan sem á að fjúka.
Ef orkuinntaka er takmörkuð mjög mikið, þá gæti verið erfitt að uppfylla þarfir líkamans fyrir lífsnauðsynleg næringarefni.
Ef farið er of geyst í hitaeininganiðurskurð eru meiri líkur á að viðkomandi verði svangur, pirraður og gefist að lokum upp.
Það ber því að varast óraunhæf markmið og skyndilausnir. Megrunarkúrar þar sem þyngdartapi sem nemur mörgum kílóum á viku er lofað eru varhugaverðir. Notum skynsamlegar aðferðir - þolinmæði er það sem dugar ef varanlegur árangur á að nást. Árangurinn skilar sér síðan loks í bættri heilsu og betri líðan.