Kanarnir með sín offituvandamál eru alltaf að leyta að “the magic bullet” eða töfralausn til að leysa sín vandamál, og nú eru það mataræði þjóðanna við Miðjarðarhaf undir smásjánni. Þar sem við Íslendingar erum að fylgja í kjölfar BNA manna í offituvandamálunum ættum við að skoða þetta líka.

Það vekur athygli að þó að Spánverjar og Grikkir reyki mikið þá eru dauðsföll vegna hjartasjúkdóma mun færri en í BNA og N-Evrópu og offituvandamál mun minni. Þetta er rakið til hefðbundins mataræðis, en sem betur fer virðast þessar þjóðir ekki eins viljugar að taka upp ruslfæði “a la America” eins og við og aðrar N-Evrópuþjóðir.

Uppistaðan í matnum er mikið af grænmeti, ávöxtum, hnetum og töluvert af ýmsum fiskum og skeldýrum (omega 3 fita), en lítið af rauðu kjöti og mjólkurvörum. Svo er olífuolían talin mikilvæg sem holl fita og líka neysla léttvíns með mat. Takið eftir að kolvetnisríkar kartöflur koma lítið við sögu, en margur landinn virðist verða að fá þær í hvert mál til að lifa af.

Ég var á Krít um daginn þar sem ég kynntist Grísku útgáfunni af þessu og líkaði mjög vel, ekki sýst ódýrt og gott hvítvín. En það sem kemur kannski mest á óvart er hversu einföld matargerðin er, t.d. er grískt salad einfaldara en flest salöt sem ég hef séð borin fram á Íslandi og kemur bara með olífuolíu og ediki fyrir þá sem það vilja. Einfaldleikinn er örugglega hluti af hollustunni og tengist það öðrum “kúr” sem er verið að tala um, þ.e. steinaldar kúrinn, sem mest hrátt og lítið sem ekkert unnið og auðvitað ekkert úr korni.

Góðu fréttirnar fyrir okkur Íslendinga er að flest í þennan mat er frekar ódýrt, allavega í sumar, enda er kannski erfiðarar að halda sig við þetta á veturna. T.d. er túnfiskur, að vísu í dós, ódýr, helst að vínið sé í dýrari kantinum, enda kannski best fyrir Íslendinga að fara varlega í þann hluta kúrsins.