Frjókornaofnæmi Jæja eitt af þeim ofnæmum sem ég er með ef ekki það eina sem ég allavega veit um er frjókornaofnæmið.
Þið vitið þetta hvíta sem flýgur út um allt á sumrin.. já! það er einmitt frjókorn og það er það sem ég og mjög margir aðrir eru með.
Ég er í vinnuþrælkun borgarinnar og er mjög erfitt að vera með þetta ofnæmi þar þó ég taki 1. Dropana í augun 2. Pillurnar í munninn og 3. nef viðbjóðinn upp í nefið og eins og þið getið ýmindað ykkur er það eina sem er “hægt” innan gæsalappa að taka inn án þess að kúgast og líða ílla pillurnar.
Ég ætla að láta hér stuttan texta af doktor.is um þetta og vona ég að þetta hjálpi ykkur eitthvað.

—————————————— ————————Frjóofnæmi er mjög algengt vandamál. Talið er að erlendis hafi u.þ.b. 10% fullorðinna frjóofnæmi, en hér á landi er tíðnin um helmingi minni. Frjóofnæmi er algengara hjá börnum, en sjaldgæft fyrir 3ja ára aldur. Tíðnin vex fram á unglingsárin en minnkar eftir það. Sjaldgæft er að einstaklingar fái einkenni frjóofnæmis í fyrsta sinn eftir fertugt.


Vanlíðan í góðviðri

Hér á landi er ofnæmi fyrir grasfrjókornum lang algengast. Annað frjóofnæmi eins og fyrir birki og súru, er mun sjaldgæfara. Á ensku er orðið “hay fever” oft notað yfir þetta ástand, oft ranglega þýtt sem “heymæði”. Til er sjúkdómur sem nefnist heymæði, en hann orsakast ekki af frjóofnæmi.

Frjókornatími

Frjókornatíminn hér á landi er mjög breytilegur frá ári til árs þar sem grös frjóvgast misfljótt. Einkenni birkiofnæmis koma fram í maí-júní. Grasfrjó byrja að berast út í loftið um miðjan júní, en einkenni geta þó komið fyrr, þá í tengslum við grasvinnu, t.d. við slátt. Grasfrjó ná hámarks þéttni í lofti í seinni hluta júlí og í fyrri hluta ágúst mánaðar. Á góðum, heitum og þurrum sumrum er mun meira af frjókornum í lofti en á rigningarsumrum.

Einkenni eru mismikil frá ári til árs og eru háð frjómagni í lofti. Umhverfið hefur mikið að segja og líkur á að fá frjóofnæmi fer eftir búsetu. Frjóofnæmi er t.d. ákaflega algengt þar sem mikið graslendi er eða veðursæld, s.s. í Eyjafjarðarsveit, í nágrenni Egilsstaða og við Selfoss. Frjóofnæmi er sjaldgæft í fjörðum þar sem lítið er um undirlendi og tún, t.d. í sjávarþorpum. Hér á landi eins og annars staðar er ofnæmi fyrir dýrum og rykmaurum einnig algengt, en þá eru ofnæmiseinkennin ekki jafn árstíðabundin.


Hvað er frjóofnæmi?

Ofnæmi þýðir að ónæmiskerfi líkamans fer að mynda ofgnótt af sértækum ofnæmismótefnum (IgE) gegn próteinögnum. Til þess að næming eigi sér stað þurfa þessar próteinagnir að berast margsinnis í öndunarveginn. Dæmi um próteinagnir eru frjókorn grasa. Erfðir og uppbygging ónæmiskerfisins valda því að líkaminn myndar ofnæmismótefni gegn þessum ögnum og við endurtekið áreiti getur magn þessarra mótefna orðið mjög mikið.



Ofnæmismótefnin sitja á frumum (mastfrumum) sem eru fullar af boðefnum og eru í miklu magni undir slímhúðum og húð. Þegar frjókornin setjast á mótefnin losna boðefni í slímhúðum augna, nefs og lungna úr þessum frumum og valda breytingum sem einkenna ofnæmi. Yfirleitt þarf einstaklingur að vera útsettur fyrir frjókornum í a.m.k. 2-3 árstíðir áður en líkaminn myndar ofnæmismótefni í nægu magni til að gefa ofnæmiseinkenni. Börn yngri en 3ja ára greinast því mjög sjaldan með frjóofnæmi

Einkenni

Nef og augu

Einkenni frjóofnæmis geta verið lík því sem gerist við venjulegt kvef, enda oft kallað frjókvef eða ofnæmiskvef. Sjúklingur fær áberandi nef- og augneinkenni. Augun roðna og bólgna stundum svo mikið að það er eins og slímhimnan verði að hlaupi. Þá er oft mikill kláði í augum, nefi og gómi, ásamt nefrennsli, hnerra og nefstíflu. Sjúklingar með ofnæmi nudda gjarnan nefið upp á við, svokölluð “ofnæmiskveðja”. Við það myndast oft skora þvert yfir nefbakið, “ofnæmisskora”. (Sjá myndir). Einkenni frá kinnholum, ennisholum og miðeyrum geta verið afleiðingar af langvarandi bólgum í nefholi.



Lungu

Frjóofnæmi getur valdið astmaeinkennum með hósta, jafnvel hvæsandi/surgandi útöndun og andþyngslum. Algengt er að sjúklingar með frjóofnæmi fái svokallaðan áreynsluastma, þ.e. astmi vegna áreynslu og þá sérstaklega við hlaup. Slíkra einkenna verður oft eingöngu vart á sumrin þegar frjókornin eru í loftinu.


Greining

Greining á ofnæmisvaldi er forsenda þess að hægt sé að ráðleggja rétta meðferð. Góð saga og líkamsskoðun gefa í flestum tilfellum greiningu frjóofnæmis, en einnig er hægt að gera húð- eða blóðpróf til staðfestingar.


Meðferð

Besta meðferðin er að forðast ofnæmisvakann. Í frjóofnæmi er það ekki valkostur, þar sem gras er yfirleitt í kringum híbýli manna. Grasmagn er mismikið og fara einkenni að einhverju leyti eftir búsetu. Barn sem er að leik í hávöxnu grasi fær frjókornin nánast beit upp í vitin og fær þá háan skammt af frjókornum á stuttum tíma. Úr nýslegnu grasi losna einnig mikið af frjókornum sem valda oft slæmum einkennum. Sjálfsagt er að forðast slíkar aðstæður eftir því sem kostur er á.


Lyfjameðferð

Þróun lyfjameðferðar við ofnæmi hefur fleytt fram á undanförnum árum og í flestum tilfellum er hægt að tryggja þokkalega líðan ef lyfin eru rétt notuð.


Lyf við frjókvefi

Einkenni frá augum og nefi eru meðhöndluð bæði með staðbundnum lyfjum og með lyfjum til inntöku.

Ofnæmislyf (antihistamín) til inntöku

Þessi lyf nefnast á erlendum málum “anti-histamin” og eru bæði til í vökva- og töfluformi. Þau draga úr kláða og hnerra og þurrka að einhverju leyti slímhúðirnar. Oft er hægt að taka þessi lyf eftir þörfum, en þegar einkenni eru mikil er nauðsynlegt að taka þau reglubundið. Ofnæmislyf geta valdið hjáverkunum, s.s. syfju, höfuðverk, óróa o.fl. Syfja, sem er algeng hjáverkun eftir skammvirk ofnæmislyf hjá fullorðnum, er mun sjaldgæfari hjá börnum. Nú eru til langvirk ofnæmislyf sem má taka einu sinni á dag og valda minni syfju.

Staðbundin lyf í nefhol Nefstíflur og nefrennsli þarf oft að meðhöndla með staðbundnum lyfjum sem draga úr bjúg og bólgu í slímhúðinni. Algengast er að nota bólgueyðandi nefúða, s.s. steraúða. Hann er notaður daglega til að fyrirbyggja, en verkun stera byggist upp á nokkrum dögum. (Flixonase, Beconase, Rhinocort, Nasonex, Nasocort). Einnig eru til nefúðar sem hefta histamín í nefslímhúðinni og draga þannig úr kláða (Livostin). Nefúðar sem draga saman æðarnar í slímhúðinni minnka nefstíflu á nokkrum mínútum, en geta við langvarandi notkun valdið bjúg og vítahring sem á ekkert skylt við ofnæmið. (Nezeril, Nezól, Otrivin o.fl.)
Dæmi um lyfjaúða í nef
Flixonase, Beconase, Rhinocort Livostin, Nasonex, Nasocort

————————————————— —————

Ég ætla að vona að þetta hafi hjálpað ykkur og vill ég biðja ykkur sem eruð líka með þetta ofnæmi að lýsa reynslu ykkar..

takk fyrir ?

Kv.XorioN