Dútl í ræktinni Jæja, er ég þá sestur niður fyrir framan tölvuna og ætla að reyna að koma frá mér smá greinarbút.

Var eins og svo oft áður í ræktinni og eins og svo oft áður tók það á þolinmæðina að bíða eftir “dútlurunum” eins og ég kýs að kalla þá, en það eru einstaklingar sem mæta í ræktina til að dútla sér.

Dútlarar eru alveg sér þjóðflokkur út af fyrir sig og sameinast þeir daglega í líkamsræktarstöðvum landsins og stunda sitt dútl af þvílíkri eljusemi að annað eins þekkist varla þó víðar væri leitað. Það mega þeir þó eiga, þeir eru nokkuð duglegir við að mæta í ræktina og eyða að meðaltali fleiri klukkustundum þar en meðalmaðurinn. Þeim virðist líða vel í þeirri vankunnáttu sinni að halda að það séu klukkustundirnar í ræktinni sem telji en ekki kílóin sem þeir lyfti.

Mjög sjaldgæft er að sjá dútlara taka á því, þeim virðist vera illa við sársauka og reyna að forðast hann eftir fremsta megni. Ef dútlari virðist vera farinn að taka á því og stefnir jafnvel í einhvern árangur hópast hinir dútlararnir til hans og spjalla hann í kaf, því halda þeir svona sameiginlegum dútlanda til að örugglega enginn nái árangri. Þeim er einnig illa við svita því það lítur ekki nógu vel út þegar haldið er á próteinbarinn þar sem þeir eyða klukkutímum í að sötra próteindrykk því það þarf jú að næra vöðvana sem fóru aðallega í að rölta um svæðið frekar en að lyfta lóðum.

Dútlarar æfa bara tvo vöðvahópa - brjóstkassa og tvíhöfða. Annað telja þeir óþarfa því bæði er það aukaálag á líkamann og einnig telja þeir að til að vera flottir í sundi séu þessir tveir vöðvahópar það eina sem þarf. Dútlarar eru gjarnan í hlírabol og er það væntanleg til að verjast þeim gríðarlega hita sem ríkir á Íslandi.

Stundum reyna dútlarar að nálgast aðrar tegundir sem stunda líkamsræktarstöðvar. Yfirleitt er það til að fá einhver ráð sem tengjast auknum vöðvamassa og koma þeir undantekningarlaust þegar maður er í miðri æfingu þar sem maður reynir að nýta alla þá einbeitingu sem maður hefur til að kreista út alla þá orku sem fyrirfinnst í vöðvunum. Þeir trufla alla slíka einbeitingu og verða afar hissa ef maður getur ekki svarað strax og spurt er. Þeim er yfirleitt illa við ráðin sem þeim eru gefin og hafa litla trú á því að þau hafi nokkuð að segja, eru jafnvel tilbúnir að ráðleggja manni eitthvað þveröfugt því þeir eru búnir að vera svo lengi í þessu og hafa mikla reynslu. Ekki virðist það trufla þá að maður lyfti helmingi meiri þyngdum þegar þeir hefja ráðleggingarnar og virðist það bara hafa verið tilviljun að maður náði einhverjum árangri með sínum “röngu” aðferðum.

Þeim er illa við skipulag á lyftingunum sínum og finnst betra að æfa bara það sem hentar hverju sinni, enda bara um tvo vöðvahópa að ræða. Þeir eru afar hrifnir af tækjum sem hægt er að sitja í og eyða oft gríðarlegum tíma þar meðan þeir spjalla við aðra dútlara. Ekki að lyfta þó, heldur bara sitja. Ef þeir leggja auk þess á sig að lyfta meðan þeir sitja og spjalla má það þó ekki verða erfiðara en svo að þeir geti haldið góðum samræðum á meðan, ef þeir fara að þreytast hætta þeir tafarlaust að lyfta og fá sér kolvetnisdrykk til að halda orkunni.

Dútlarar koma af öllum stærðum og gerðum en allir eiga þeir það sameiginlegt að líta svo á að ef þeir eigi kort í líkamsræktarstöð og ef þeir mæti þangað reglulega þá nái þeir árangri. Það er einfaldlega ekki svo! Mér finnst satt að segja ótrúlegt hvað margir virðast hafa þetta viðhorf og leggja ekki alla sína orku í að ná árangri þegar þeir eru á annað borð mættir í ræktina. Þetta er einfaldlega þannig að þú færð nákvæmlega það til baka sem þú leggur í þetta!

Dútlarar munu aldrei ná árangri - ef ofangrein skilyrði eiga við þig að einhverju leyti skaltu setjast niður og hugsa hvað það er sem þú vilt virkilega ná út úr því að mæta í líkamsrækt. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þig langi að ná árangri og skapa líkama sem veitir þér vellíðan og sjálfstraust skaltu hefja uppreisn gegn dútlinu. Til að byrja með munu aðrir dútlarar reyna að draga úr þér en þegar þeir sjá að þú ert hætt/ur í dútlinu hætta þeir fljótlega - þetta eru ekki stórar sálir.

Með bestu kveðju - thisman ;)