Vefjagigt - framhald Hvað eru margir með sjúkdóminn?

Í grein um vefjagigt eftir Júlíus Valsson gigtarlækni kemur fram að ef niðurstöður úr sænskri faraldsfræðirannsókn á vefjagigt eru heimfærðar upp á Ísland, má gera ráð fyrir því að að minnsta kosti 2.500 Íslendingar þjáist af vefjagigt. Hins vegar telur hann þetta varlega áætlað þar sem vefjagigt er vangreindur sjúkdómur og gera megi ráð fyrir að tíðni sjúkdómsins sé í raun hærri.

Magnesíum hefur góð áhrif á vefjagigt:

Magnesíum er nauðsynlegur hvati í starfsemi ensíma, sérstaklega þeirra sem hafa með orkuframleiðslu að gera. Það hjálpar við uppsog kalks og kalíums. Magnesíum hefur stundum verið kallað “andstreitusteinefnið”, þar sem það er svo nauðsynlegt fyrir alla taugastarfsemi. Skortur á magnesíum hefur áhrif á taugaboð og vöðvasamdrátt. Það stuðlar að vexti beina og eðlilegri starfsemi tauga og vöðva, þar með talið hjartans. Þannig stuðlar það að reglulegum hjartslætti. Magnesíum styrkir glerung tanna, heldur efnaskiptum stöðugum og líkamshita eðlilegum. Talið er að magnesíum hafi góð áhrif á vefjagigt.

Magnesíum er helst að finna í tofu, grænmeti, fræjum, hnetum, heilkorni, þara, sojabaunum, hýðishrísgrjónum og grænu laufguðu blaðgrænmeti. Einnig í fersku kryddi svo sem papriku, steinselju og piparmyntu. Þvagræsilyf, getnaðarvarnarlyf og áfengi eru gagnvirk magnesíumi.

Einkenni magnesíumskorts lýsa sér í minna mótstöðuafli gegn sjúkdómum, háþrýstingi, nýrnasteinum, fyrirtíðarspennu, þreytu, svefnleysi, pirringi, meltingartruflunum og beinþynningu. Þá geta skotið upp kollinum vandamál tengd taugum og vöðvum, einnig lystarleysi, hraður hjartsláttur, flogaköst og krampar.

Vefjagigt og þjálfun:

Í rannsóknum þar sem bornar hafa verið saman mismunandi þjálfunaraðferðir fyrir fólk með vefjagigt virðist þolþjálfun vera árangursríkasta aðferðin. Liðkandi æfingar, teygjuæfingar og slökun gefa ekki eins góða raun einar sér. Ef þolþjálfun er notuð ásamt þessum æfingaformum eykst hinsvegar árangurinn.

Með þolþjálfun eru starfsemi hjarta og lungna bætt og þar með líkamlegt úthald. Einnig eykst framleiðsla eigin verkjastillandi efna líkamans. Til þess þurfum við að ná upp hjartslættinum, hitna og mæðast. Æskilegt er að þjálfa 3-5 sinnum í viku í 20 mínútur í senn. Dæmi um þolþjálfun er ganga, sund, hjólreiðar, dans og leikfimi sem krefst hreyfingar.

Vegna þess hve sársaukafullt það getur verið fyrir vefjagigtarfólk að hreyfa sig, er oft erfitt að hefja æfingar. En það er þess virði! Og 3 x 20 mín á viku er ekki mikið ef maður hugsar út í það…..

Mikilvægt er að fara rólega af stað og hafa í huga að þyngd æfinganna verði ekki of mikil. Eðlilegt er að finna fyrir einhverjum óþægindum eftir æfingar, sérstaklega eftir fyrstu skiptin. Ef verkir verða mjög miklir er hins vegar ráðlagt að minnka álagið og auka það síðan hægt og rólega, stig af stigi. Reynslan sýnir, að þeir vefjagigtarsjúklingar sem komast yfir erfiðasta hjallan, líður mun betur en áður…

Góða heilsu!:-)
Með kveðju,