Fyrir nokkrum mánuðum hefði ég þorað að veðja milljón að grein með þessum titli myndi aldrei birtast eftir mig, en svona breytast hlutirnir hratt. Því þegar ég vaknaði á nýju ári var ég nefnilega hætt að reykja, ákvörðun sem ég tók um miðjan nóvember og byrjaði að undirbúa um svipað leiti. Mér hefur gengið ótrúlega vel að hætta, eiginlega of vel enda hef ég að mínu mati gert þetta rétt. Aðferðin sem hentaði mér er svipuð og Allen Carr lýsir í bókinni sinni Easy way to stop smoking eða Létta leiðin til að hætta reykingum, bók sem ég er búin að lesa nokkrum sinnum og hefur aðstoðað mig talsvert.

Í bókinni er að vísu talað um að fólk eigi alls ekki að notfæra sér þessi hjálpatól sem eru á markaðnum, tyggjó, plástra og svoleiðis. Og ég er sammála því að þú hættir ekki að reykja með því að næra líkamann áfram á níkótíni, þú platar hann bara í smá stund og því tel ég að það dót sé rusl sem eigi alls ekki að nota. En ég svindlaði nú samt smá og fékk lyfið Zyban hjá lækni en það er níkótínlaust lyf sem hefur hjálpað mér mikið í að “plata” líkamann á meðan að hann er að hreinsa sig og svo krossa ég bara puttana og vona að þegar ég hætti að tala lyfið að ég verði laus við alla löngun.

Ég mæli eindregið með því að ef fólk er að spá í að hætta að reykja (ég trúi ekki öðru en einhverjir spái í því núna þegar pakkinn kostar rúmlega 500 kall) að það kaupi sér þessa bók, hún kostar 1700 kall út í næstu bókabúð og þegar ég verslaði mína hugsaði ég “1700 kall? Ég gæti sparað mér tæplega 200.000 á ári eða tapað 1700 kallinum” og tók áhættuna. Þetta er í raun eins og að spila í lottó nema líkurnar á vinning eru bara svo miklu meiri. Eins er námskeið í gangi sem kennir þessar kenningar Allens, en ég taldi ekki þörf á að fara á það þó að það hljómi voðalega vel að maður fái endurgreitt ef það virkar ekki ;)

Kv. EstHer “sem sagðist hætta daginn sem hún dræpist”

Upplýsingar um lyfið Zyban.

Létta leiðin til að hætta að reykingum.
Kv. EstHer