Nútímasamfélag er lystarstolsvænt, það ætti ekki að fara fram hjá neinum. Allar þessar “óbeinu” útlitskröfur eru að kæfa stóran hluta ungra og ómótaðra stúlkna. Það eru barasta mjög fáar stelpur á táningsaldri sem eru sáttar við líkama sinn og það er ÁHYGGJUEFNI. Allir þessir tískuþættir og auglýsingar eru beinlínis niðurrifsstarfsemi á sjálfstrausti þeirra.

Ég sjálf lenti í þessu en ég varð heppin að geta unnið úr þessu sjálf með hjálp móður minnar. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna ég skammaðist mín svo mikið fyrir sjálfa mig að ég vildi helst gera mig nánast ósýnilega með svelti. Ég var ágætlega vaxin og hafði marga hæfileika. EN ég hafði frá unga aldri haft mikinn áhuga á fallegum fötum og mig langaði helst til þess að verða tískuhönnuður. Þess vegna horfði ég mikið á tískuþætti í sjónvarpinu (ég var um 8 ára þegar ég byrjaði). Börn á þessum aldri eru yfirleitt ekkert að spá í vaxtarlagi sínu en allt þetta áreiti síast inn í hausinn á þeim sem er mjög óhollt fyrir sjálfsmynd þeirra.

Ég viðurkenndi ekki vanda minn. Mér fannst ekkert vera að mér, ég borðaði þrjár máltíðir á dag. En það sem ég kallaði máltíð var t.d. ein skeið af kellogs special á morgnana. Mér finnst þetta svo ógeðslega sick núna. Ég man líka eftir því að ég var að horfa á tískuþátt og á eftir fór ég inn á bað og leit í spegilinn til að fullvissa mig um að það sæist í álíka mörg rifbein hjá mér og hjá fyrirsætunni í gullkjólnum.

Þessi sjúkdómur er samt verstur sálarlega séð. Allt sjálfshatrið lætur sálinni blæða út. Ósjálfrátt fer maður að hlaða upp tilfinningalegan varnarmúr. Ég er enn að vinna í því að brjóta hann niður þó rúm 2 ár séu liðin frá þessum tíma.

Ég er mjög reið tískubransanum því hann á stóran hluta í vandræðum mínum. Ég má til með að nefna eitt dæmi um það. Þegar ég var 15 ára og á “hátindi” anorexíunnar þá ákvað ég að fara á “sjálfstyrkingar”- og framkomunámskeið hjá einhverjum módelskóla. Þar var mér og nokkrum álíka horuðum stelpum boðið í einhverja módelkeppni í New York. Engin af okkur var eðlilega vaxin, hver okkar hefði getað troðið heilli vatnsmelónu milli læranna á okkur með lappirnar saman. Hvers konar skilaboð eru þetta til unglingsstúlkna???

Mér finnst að það vanti forvarnir gegn átröskunum hjá ungu fólki. Það er svo mikilvægt að byggja upp jákvæða sjálfsmynd hjá börnum og unglingum. Með því er líka hægt að fyrirbyggja svo margt annað, t.d. reykingar og vímuefnaneyslu.

Ég ætla allavega að gera mitt besta til þess að yngri systur mínar þurfi ekki að ganga í gegnum það sama og ég. Skilaboðin til þeirra eru að þessi staðlaða fegurðarímynd gerir engan hamingjusaman. Fegurðin býr í sérstöðu einstaklingsins.