Um klukkan 22 í kvöld varð mér litið á finkubúrið sem er inni í stofu hjá okkur og brá við þegar ég sá að aðeins tvær finkurnar voru á vanalega svefnstaðnum. Stend upp til að gá að hinum þremur og finn þær á búrbotninum. Einn karl og ein kerling voru steindauð og sýndu engin viðbrögð við áreiti, en þriðja kerlingin tók kipp þegar ég lyfti henni upp.

Við höfðum (og höfum) ekki hugmynd um hvað skeði, en ýmsar kenningar hafa komið upp sem ég mun geta á eftir, fyrst ætla ég að tæpa á því hvað við gerðum eftir að hafa fundið fuglana.

Við byrjuðum á því að skella dauðu fuglunum í kassa og setja út á svalir (koma þeim burt frá þeim lifandi sem fyrst). Síðan aðskildum við þessi tvö sem eftir voru í sitthvort búrið ef vera skyldi að þetta væri einhver sýking sem myndi auðveldlega fara á milli þeirra. Tókum öll matar -og drykkjarílát og þvoðum úr sjóðandi heitu vatni (áttum ekkert klór til að klórblanda, svo þetta varð að duga). Á meðan reyndi ég að koma lífi í kerlinguna sem enn lifir (þegar þessi orð eru rituð).

Kerlingin var gersamlega máttlaus, lá bara í lófa mér og sýndi engin viðbrögð, en dró þó andann og opnaði stundum augun. Ég hringdi í Tjörva hjá F&F til að spyrja ráða og hvort honum dytti í hug hvað gæti hafa gerst og hann benti mér á að halda fuglinum heitum og reyna að gefa honum vatn og sjóða graut. Tjörva grunaði að fuglarnir gætu hafa fengið skitu en við erum eiginlega búin að útiloka þann möguleika.

Við áttum hvorki grautarefni né litla sprautu til að gefa fuglinum vatn, en suðum þess í stað hafragraut sem við gáfum honum volgan í gegnum capri sonnerör. Það sama gerði ég með vatnið. Hann opnaði gogginn ekkert fyrst, lá bara hreyfingarlaus og andaði slitrótt, en síðan eftir að ég gaf honum væna gusu af vatni rankaði hann við sér spyrnti ofurlítið og vætti gogginn. Ég er ekkert viss um að hann hafi kingt vatni, og veit ekki enn hvort að meira en örfáir dropar hafi komist til skila í kvöld/nótt.

Svona er þetta búið að ganga í kvöld. Ég er búinn að halda á finkunni í lokuðum lófa beggja handa til að halda á honum hita og þess á milli gef ég henni vatn og graut í gegnum rör. Hún er gersamlega máttlaus, hristir stundum hausinn ef hún hefur legið lengi í vatninu eða grautnum, en fyrir utan það er hún alveg búin áððí. við þurrkum hana reglulega með hárþurrku, en hún er samt orðin skítug á höfði.
Núna, eftir að hafa verið að þessu í 6 tíma verð ég að sofa og setti ég því fuglinn í bómullarbol inn í annað búr, og setti við heitan opn með vatn innan seilingar. Ég ætla reyna að vakna reglulega til að gefa henni að drekka, en sannast sagna efast ég um að hún endist út nóttina.

En nú að því hvað ég held að hafi getað gerst.

a) Matareitrun. Við létum eggjafóður með matnum þeirra í gær til tilbreytingar. Ég veit ekki hvort eggjafóðrið geti skemmst, það er orðið rúmlega 3-4 mánaða gamalt. Það hefur aldrei komið raki að því og er alltaf geymt í sæmilega loftþéttum stampi.

b) Skitan. Við erum samt eiginlega búin að útiloka þetta eftir að hafa skoðað dauðu finkurnar. Það eru engin merki um skít neinstaðar á þeim. Það eru reyndar engin merki um neitt.
Það var skítur hangandi í rassfjöðrunum á þessari eftirlifandi þegar ég fann hana, en hún hefur ekki skitið nema einu sinni á þessum 6 tímum.

c) Teflon. Ég hallast að þessu þó ég sé á báðum áttum. Við fengum eldfasta títaníumpönnu í lok apríl og höfum notað hana nokkrum sinnum. Hún á að vera teflonlaus og er úr einhverri málmblöndu sem á að vera alveg seif, en nú er ég ekki svo viss.

Annars erum við tótallí lost um hvað getur hafa valdið þessu.

Þess má geta að finkurnar tvær sem enn stóðu upprunalega eru stórhressar, sungu til hvors annars þvert yfir stofuna þegar þær voru aðskildar og hoppa um og fljúga eins og ekkert sé. Þær eru núna saman í búri þar sem ég þurfti að setja þá veiku í aukabúrið.

En núna þarf ég svefn, ég læt vita um líðan þeirrar veiku þegar eitthvað telst til tíðinda.

ps. Pípinn ástargaukur (sem er geymdur í öðru herbergi) er eins hress og ástargaukar gerast bestir. Hann verður samt geymdur í sóttkví inn í svefnherbergi í minnsta kosti sólarhring…