Eðlilega fær maður fyrir hjartað þegar maður heyrir af mönnum sem misnota stöðuna sína í Írak og koma fram við fanga á ómannúðlegan hátt. Sjálfsagt er að fordæma slíka hegðun og rétta yfir þeim grunuðu.

En nú er búið að leka í fjölmiðla myndband þar sem Breskir hermenn berja Íraska unglinga. En málið er að myndbandið er talið vera 2 ára gamalt en er nú fyrst að leka í fjölmiðla, á sama tíma og spenna er í andrúmsloftinu í miðausturlöndum vegna skopmyndanna frá Danmörku. Er þetta algjör tilviljun? Ég á erfitt með að trúa því.

Vona að þetta verði ekki olía á eldinn, en grunar að svo fari.

Myndir sem sagðar eru sýna breska hermenn berja íraska unglinga hafa verið birtar í Miðausturlöndum og Bretlandi í dag. Fólk í Suður-Írak, þar sem atburðirnir munu hafa átt sér stað 2004, hefur brugðist ókvæða við og segir að um mannréttindabrot hafi verið að ræða.

Breska herlögreglan hóf rannsókn á myndbandinu, sem breska blaðið News of the World komst yfir. Ekki hefur verið látið uppi hver hafi komið myndunum til blaðsins. „Þetta er óræk sönnun þess að breska herliðið í Basra hefur brotið mannréttindi,“ sagði Akil al-Bahadily, talsmaður róttæka sjítaklerksins Muqdata al-Sadr í Basra, þar sem flestir bresku hermennirnir í Írak eru staðsettir.

„Við þökkum guði fyrir að þetta eru myndir frá þeim sjálfum. Að margra mati er þetta ekki slæm framkoma miðað við það sem fer fram á bak við luktar dyr. Það er enn verra,“ sagði Muhannad al-Moussaoui, íbúi í Basra.

Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, sagði að ef myndirnar væru ósviknar væri um að ræða óviðunandi framgöngu, og að þeir sem beri ábyrgð á henni yrðu sóttir til saka.