Vildi aðeins varpa hérna smásögu og hugleiðingu á síðuna.


Ég lenti í þeirri skemmtilegu lífsreynslu núna fyrir stuttu að verða fyrir líkamsárás.

Ég var lítið í glasi (5-6 bjórar), stóð efst í stiganum á Pravda og við félagarnir vorum búnir að minnast á að koma okkur niður á neðri hæðina og jafnvel út.
Þetta var búið að vera frekar rólegt kvöld og lítið skeð, þó að staðurinn væri pakkaður.

Alltíeinu er gripið í mig og heill hópur af svartklæddum mönnum hópast kringum mig og vin minn, ég sé hann fara niður og mér er skellt niður í gólfið. Það er gripið undir hendur mínar og fætur og byrjað að halda á mér niður stigan.

Ég skil ekki neitt í neinu og kalla nokkrum sinnum meðan ég reyni þarna að sprikla úr haldi þessara drengja “hvað í fjáranum eruði að gera ?”

Það sem skeður eftir þetta er nokkuð í þoku, ég sá lítið af félaga mínum þarna sem var ráðist á líka en sá þann félaga minn sem stóð þarna í kring og elti okkur eins og best hann gat bregða við nokkrum sinnum.

Eftir því sem ég man best er gripið í mig og ýtt utan í vegg, gripið í mig aftur og snúin niður efst í stiganum á Pravda.
Þar er snúið upp á vinstri hendina á mér þangað til ég ligg þarna öskrandi í einhvern tíma.
Á endanum er ég togaður upp og byrjað að stefna mér í átt að dyrunum.

Þarna loksins fatta ég að þetta eru dyraverðir sem eru að fleygja mér út.
Svört peysa með pinku litlu merki framan á einkenndi víst þennan hóp, en ekki orð var sagt við mig allan þennan tíma þrátt fyrir “köll” mín.

Leið og ég fattaði að það væri verið að stefna mér út hætti ég að berjast um, upphaflega hélt ég að það væri einfaldlega verið að ráðast á okkur.

Þegar út er komið er mér ekki sleppt eins og ég bjóst við, ég er snúinn niður, sest á bakið á mér og tekið kyrkingar taki um hálsinn á mér.
Þarna reiðist ég allnokkuð og verð í raun pinku hræddur þar sem takið var ekki laust, átti erfitt með andardrátt.
Ég brýst eitthvað um á götunni án þess að geta mikið hreyft mig og þá herðir maðurinn takið.

Þegar þarna er komið er vinur minn í símanum við kærustuna sína að lýsa öllu sem skeði þar sem hún er ekki í glasi, hann gat hugsað það skýrt að það gæti skipt máli og held ég að hún hafi skrifað eitthvað hjá sér.
Einnig labba þarna aðrir vinir mínir að þessu fyrir utan Pravda.

Eftir að takið á hálsinum á mér var hert aftur á móti, þá man ég ekki neitt fyrr en löggan kom á staðinn.
Ég lá þarna á götunni með lokuð augun og kepptist við að anda, held ég hafi aldrei komist jafn nálægt því að missa meðvitund.
Félagar mínir voru á meðan að hnakkrífast í dyraverðinum að losa takið þar sem ég var ekkert að brjótast um og hann væri augljóslega bara að pína mig.

Lögreglan mætir á staðinn og hef ég aldrei á ævinni verið jafn ánægður að sjá lögreglumann.
Ég er handjárnaður og fleygt inn í lögreglubíl og keyrður heim.
Handjárnin voru þó fljótt tekinn af mér þegar ég kom inn í bílinn, þar sem það var greinilega ekkert vesen á mér.

Ég hef aldrei á ævinni verið tekinn af lögreglunni fyrir neitt annað en hraðasekt og aðeins einu sinni hent útaf stað og þá var ég að stoppa slagsmál.


Ætla að fylla aðeins inn í söguna núna.


1. Við vorum aldrei beðnir um að fara af staðnum, eða sagt við okkur að við hefðum gert nokkurn skapaðan hlut af okkur.

2. Þegar félagi minn sem slapp við þetta spurði hvað við hefðum gert þá var honum sagt að “ég” hefði reynt að kýla dyravörð.
(dettur helst í hug að þeir hafi farið mannavilt)

3. Enginn okkar kannast við að hafa gert nokkurn skapaðan hlut og við vorum saman allan tíman.

4. Dyraverðir hafa engan rétt til að teppa för manna frá staðnum og hafa aðeins “lögregluvöld” (eða svo sagði lögregla við mig) inn á staðnum.

5. Ég fór daginn eftir og fékk áverka vottorð, var með um 10 marbletti á mér og vinstri hendinn sem snúið var upp á er fyrst núna byrjuð að jafna sig eftir 4-5 vikur.

6. Núna bara um daginn labbaði kærasta mín ásamt vinkonum fram á gaur fyrir utan Pravda með 4 dyraverði ofan á sér öskrandi “ég gerði ekkert af mér” þó ég viti svo sem ekkert um þá sögu.

7. Hef talað við nokkra félaga mínum um þetta og hef heyrt tvær þrjár sögur um aðra eins hegðun hjá dyravörðunum á Pravda þó að engin hafi verið eins gróf.

8. Ég hef lent í einhverjum stympingum og jafnvel höggum inn á skemmtistöðum og fyrir utan en ég hef aldrei verið jafn illa út leikinn í neinum slagsmálum sem ég hef lent í.

9. Félagi minn sem var tekinn þarna líka endaði með færri marbletti en ég, en rifna skyrtu og rispað úr.
Sama tak var tekið á honum þarna fyrir utan, þó ég hafi aldrei séð hann (gat ekkert snúið höfðinu) og lá hann víst það með blóðnasir og tak utan um hálsin.





Ég er búinn að fara niðrá stöð og gefa skýrslu.
Ég vildi bíða og sjá hvernig færi með hendina þar sem ég hefði talið að lögreglan mundi fara harðar í málið ef um varanlegan skaða væri að ræða.
Hendin á mér virðist vera að jafna sig en ég hef verið að hugsa mér að kæra samt, ekki vegna peninga eða neitt slíkt, heldur bara upp á prinsippið.

Hef líka alveg haldið mig frá Pravda síðan og ætla mér ekki að eyða mínum tíma þar í framtíðinni.




Einhverjir sem hafa álíka sögur um þennan stað eða aðra og hafa jafnvel upplýsingar hvernig málið fór ef fólk kærði.
Mér er sagt að það sé erfitt að kæra svona mál þar sem maður er í glasi og dyraverðir ekki, en mér finnst þetta bara alveg ótrúlegt og engin ástæða að láta fólk komast upp með líkamsárás þegar þeir eiga að vera að “verja” fólk inn á staðnum.
Ebeneser