Vegna þess að mig langar rosalega til að koma þessu til skila, þá ætla ég að sýna hérna fyrsta bloggið á síðunni minni (Calöru):
________________________________________________

Djöfulsins anskotans ríkisstjórn. Ég nánast skammast mín fyrir að vera Íslendingur þessa stundina. Nýju útlendingalögin tóku nýlega gildi og hafa þau núna orðið til þess að 23 ára Úkraínubúi var sendur úr landi, en þessi maður átti íslenska eiginkonu og bæði mamma hans og stjúp-pabbi búa hér á landi. Hann hafði upprunalega haft dvalarleyfi hér sem námsmaður og vann með námi en þegar að því lauk giftist hann unnustu sinni til að halda dvalarleyfinu en nýju lögin valda því að slíkt virkar ekki nema að útlendingurinn sé 24 ára eða eldri.

Nú þegar lögin hafa tekið gildi var hann kallaður í fyrsta sinn á ævinni niður á lögreglustöð og settur í fangelsi yfir nóttina. Daginn eftir var hann sendur með úrskurð þess efnis að hann mætti ekki sækja um dvalarleyfi næstu þrjú árin og að hann hefði ekki aðgang að Schengen svæðinu í sama tíma.

Núna er svo verið að veita Bobby Fischer dvalarleyfi, og þó ég hafi alls ekkert á móti honum eða því að hann komi til landsins finnst mér heimskulegt af yfirvöldum að gera þetta tvennt á sama tíma því að það málar upp einkar slæma mynd af utanríkisstefnu okkar. Það ætti að kæra þetta fyrir mannréttindadómstóli Evrópu.
Af mér hrynja viskuperlurnar…