Eins og flestir hafa tekið eftir framkvæmdi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra húsleit hjá 12 aðilum í gær og gerðu tölvur og gögn upptæk.

Ég hef orðið var við mikið af sögusögnum og hreinni og klárri vitleysu um þetta mál bæði hér á Huga og svo á öðrum stöðum. Reynum nú að halda okkur við málefnalegar staðreyndir.


Þessi tilkynning
frá lögreglunni er mjög skýr og segir í raun allt sem segja þarf.

Upphafsaðilar að málinu eru SMÁÍS (Samtök Myndrétthafa á Íslandi) og til þeirra teljast nánast allir fjölmiðlar og dreifingaraðilar á höfundarréttarvörðu efni á landinu.

Margir virðast vera ótrúlega bitrir yfir því að fyrirtæki séu að vernda rétt sinn. Lögin eru skýr og það er ekki hægt að deila um það. Öll þessi dreifing tónlistar, kvikmynda, sjónvarpsþátta og forrita er ólögleg. Fólk sem notaði DC++ (og aðrar leiðir) til þess að verða sér út um þetta efni var að brjóta lög. Það er bara heimska að fara að nöldra yfir því að þetta hafi gerst.

Skv. tölum þá eru um 3.000 notendur á hverjum tíma að nýta sér slíkar þjónustu hjá stærstu aðilunum og lögbrot á slíkum skala geta ekki gengið óáreitt. Í raun er undarlegt hversu lengi þetta gekk.

Þótt enn sem komið er hafa stóru “höbbarnir” ekki enn verið teknir fyrir þá er boltinn farinn af stað og fróðlegt að sjá hvað gerist á næstunni.

Verðlag, tímasetningar og annað slíkt í kringum þessa hluti eru efni í allt aðra umræðu og sama hvað fólki finnst um þau mál þá breytir það ekki lögum og lögbrotum.

Ég bið fólk um að halda slúðrinu í skefjum (þótt það geti verið fyndið að hlusta á það) og halda sig við staðreyndir og átta sig á því að þetta er alvarlegt mál.

Lærið af þessu. Virðið lögin.
JReykdal