ALLIR MENN EIGA RÉTT TIL LÍFS, FRELSIS OG MANNHELG Fyrir tæpum 7 var ein vinkona mín að skrifa B.A. ritgerð sína í sagnfræði. Efnið sem hún valdi sér var saga Júgóslavíu síðustu árin og reynt að leita ástæðna fyrir þeim hörmunum sem þar hafa átt sér stað. Þetta er metnaðargjörn og dugleg stúlka og hún kynnti sér málin vel.
Ég kom einu sinni heim til hennar þar sem hún sat í pappírs og bókaflóði við lestur og skrif, og þegar hún leit upp sá ég tárin renna niður kinnar hennar. Ég spurði hana hvað væri að og hún sagði að hún væri bara að lesa svo hræðilega hluti í skýrslum Sameinuðu þjóðanna um borgarastyrjöldina í Júgóslavíu. Nú hvað er það ? Spurði ég ítrekað og vildi fá að vita. Hún hikaði og sagði að það væri svo margt viðbjóðslegt sem hefði gerst þarna að hún bara gæti ekki sagt mér frá því. Eins og hvað ? hélt ég ítrekað áfram í sakleysi mínu og vildi fá að vita. Vinkona mín þagði smá stund en sagði að fjöldi barna hefði verið drepið með köldu blóði og oft á hryllilegan hátt. Hún leit svo niður á tær sér og sagði : “það voru t.d. einhverjir hermenn sem ruddust inn á heimili þar sem móðir var með ungabarn sitt og þeir rifu af henni barnið og settu það inn í örbylgjuofn og kveiktu á honum”.
———————————————- ———

Ég hef aldrei getað gleymt þessari frásögn vinkonu minnar eða hryllingins í augum hennar þegar hún neitaði að segja meira um þessi mál, þau voru hreinlega of ógeðsleg til að við 2 ungar og saklausar íslenskar stúlkur gætum rætt þau.
Þetta var bara eitt dæmi af óteljandi mörgum sem hún hafði lesið um í heimildaleit sinni og bara eitt dæmi af milljónum eða trilljónum hryllingsverka sem framin eru um allan heim í nafni einhvers málefnis eða vegna fordóma og haturs í garð þeirra sem eru öðruvísi eða ósammála okkur.

“ALLIR MENN EIGA RÉTT TIL LÍFS, FRELSIS OG MANNHELGI”
Þannig hljómar upphaf Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og af þessum grunni rís sú mannréttindabarátta, sem Amnesty International er hluti af.
Í gær 27.maí 2003 kom út ársskýrsla Amnesty International og þar segir Kate Allen, formaður samtakanna, að baráttan gegn hryðjuverkum hafi alls ekki gert heiminn öruggari.
Hún hafi þvert á móti gert hann hættulegri !
Hvernig ?
Með því að draga úr mannréttindum, grafa undan alþjóðalögum og verja ríkisstjórnir gagnrýni !
Í nafni öryggis, pólítíkar og gróða eru ríkistjórnir, herir og stórfyrirtæki um allan heim að traðka á sjálfsögðum mannréttindum.
Það sem þótti óafsakanlegt 10.september 2001, þykir nú orðið sjálfsagt og að pyntingar og fangelsun án dóms og laga sem hefði þótt lengi óásættanlegt í hinum vestræna heimi, er farið að vera ásættanlegt í sumum vestrænum löndum í dag og fólk um allan heim finnur nú til meira óöryggis en nokkru sinni fyrr frá lokum kalda stríðsins.
Ríkisstjórnir landa sem segjast vera að berjast gegn ómannúðlegum hryðjuverkum, minnka trúverðugleika sinn og málefnisins stöðugt, þegar þeir reynast vera ekkert skárri sjálfir og brjóta hvert ákvæði mannréttindarsáttmála Sameinuðu þjóðanna á fætur öðru.

Samkvæmt orðabókum er eini munurinn á hryðjuverki og stríðsglæp sá að hryðjuverk er það þegar borgaralegur aðili fremur glæpi gegn stjórnvöldum, en stríðsglæpur er þegar hermenn (stjórnvöld) fremja glæpi gegn almennum borgurum !
Þetta virðist litlu skipta nú orðið og hver stríðsglæpurinn á fætur öðrum í Afganistan og Írak er dreginn fram. Og í Tétsníu og Ísrael halda stjórnvöld áfram að drepa almenna borgara, en nú er það bara hluti af stríði þeirra gegn hryðjuverkum. Það nýjasta sem hefur komið upp á yfirborðið er svo heimildarmynd þar sem sjónarvottar segja frá fjöldamorðum BNA-hermanna á 3000 Talíbönum í Afganistan !
Og enn eru 600 Talíbanar geymdir við hræðilegan aðbúnað í fangabúðum BNA-manna á Kúbu.
Samkvæmt alþjóðalögum á að sleppa stríðsföngum eftir að stríðinu er lokið og myndi maður telja að stríðinu við Afganistan væri fyrir löngu lokið. En BNA segir þetta vera stríðsfanga í stríði þeirra gegn hryðjuverkum og að þeir verði ekki látnir lausir eða réttað yfir þeim fyrr en því stríði er lokið.
Milljónir Afgana búa við gífurlegt óöryggi um framtíð sína, landið er í rúst eftir stríðið og ekki hefur verið staðið við loforð um hjálp og uppbyggingu. Eins og svo margir aðrir óttast Amnesty International að það sama verði upp á teninginum með Írak og þannig sé aðeins verið að skapa meiri hörmungar og meira hatur.

Í allri fjölmiðlaathyglinni sem “Striðið gegn hryðjuverkum” fær gleymist svo að það eru fjöldi landa þar sem ástandið er enn hræðilegra en í þeim löndum sem bandamenn hafa verið í stríði við. T.d. eru stanslaus átök og mannréttindarbrot í nokkrum Afríkuríkjum, án þess að nokkur sé dreginn til ábyrgðar, efst þar á lista Kongó og Búrúndí.

Í skýrslunni er svo að lokum rætt um að á meðan ríkisstjórnir hafi eytt billjónum dollara í að reyna að styrkja þjóðaröryggi og í þetta “Stríð gegn hryðjuverkum”, þá sé hið raunverulega óöryggi og ógn fyrir flest fólk allavegana, spilling, kúgun, mismunun, hræðileg fátækt og sjúkdómar. Hvers vegna eru ekki lagðir jafn mikilir peningar í stríð gegn þessum raunverulegu ógnvöldum okkar ?

Gamalt orðatiltæki segir “Hatur elur af sér hatur”, og með því nota sömu ósiðlegu og ómannúlegu aðferðirnar gegn óvinum okkar og við erum að ásaka þá um að beita,
(og erum hreinlega í stríði við þá VEGNA þess að þeir geri þett) fáum við þá ekki aðeins til að hata okkur enn meira en fyrr, heldur gerir það okkur ekkert betri !
Nú kann vel að vera að stríð og ofbeldi séu stundum einu leiðirnar gegn þeim ógnum sem að okkur steðja. En það er ALDREI rétta leiðin að virða að vettugi lög og reglur og almenn mannréttindi.
Eða finnst okkur í lagi að taka börn hryðjuverkamannanna sem við óttumst og hötum svo mikið og stinga þeim í örbylgjuofn ?
Ég vona að ekkert okkar sé það blint af hatri að það þurfi svo mikið sem að hugsa sig um.

Hinsvegar er mín persónulega skoðun sú að Albert Einstein hafi hitt naglann á höfuðið (eins og svo oft) þegar hann sagði :
“Peace cannot be achived through violence, it can only be attained through understanding.”