Núna verð ég bara að skrifa þessa grein, ég er kominn með ógeð á fordómum fólks í samfélaginu. Hef ég ákveðið að skrifa þessa grein í von um að ég fái fólk til að hugsa aðeins út í hvað það segir áður en það segir það. Það sem fékk mig til að byrja að skrifa þessa grein eru fordómar fólks hérna á Huga, þó það sé kannski meira um fordóma á internetinu en úti í samfélaginu þá er þetta samt í raun bara verið að sýna það sem fólk hugsar og þorir ekki að segja beint við aðra manneskju með orðum.
Það sem flest fólk hugsar um þegar þau heyra orðið fordómar, er t.d. kynþáttahatur. En það er ekki alltaf eitthvað þannig, það getur verið eitthvað jafn hallærislegt og t.d. fordómar gegn tónlistarsmekk eða íþróttum sem einstaklingurinn hefur áhuga á. Það er samt ekki mikið um fordóma á Íslandi miða við flest önnur lönd, en það er alltaf hægt að gera samfélagið betra en það er.

Ég vil nefna nokkur dæmi á fordómum sem ég hef séð hérna á Huga…

Í greininni “Nsync” sá ég fordóma frá notandanum “AllesKlar”

“ Nei þegar maður er að hlusta á tónlist fer tónlistarsmekkurinn uppávið, og maður verður að lenda í eitthverju bílslysi eða eitthvað álíka heilaskemmandi til að fara aftur á botninn…… sem er N'Sync og allar þessar fjöldaframleiddu pretty boy fagga “bönd” ”

Auðvitað hefur þessi einstaklingur sinn rétt til þess að fíla rokk og fíla ekki popp, en að nota svona skítkast á þá sem fíla eitthvað annað en hann eru grófir og leiðinlegir fordómar! Hann er t.d. að segja að maður þurfi að vera hommi til að vera í svona boyband sem er auðvitað ekki rétt!

Í grein sem ég skrifaði sem heitir “Sannleikurinn um Britney Spears” þá var notandinn “egertik” með mikla fordóma gegn mér.

“ GAUR?? Gaur! Hvað meinarðu?? Þú ert 85 módel, ert hommi og fílar Britney?? Djöfull á að svæfa þíg maður!!! ”

Fyrst er hann með fordóma gegn mér fyrir að vera 85 módel, og svo afþví ég er hommi, svo afþví ég fíla Britney Spears. 3 fordómar í 19 orða svari við grein. Úff! Kannski hann sé bara sá sem ætti að svæfa! (smá djók).

Notandinn “axel86” var með fordóma gegn samkynhneigðum í greininni “hommar”

“ ég mundi nú aldrei láta strákinn minn enda sem homma ”

“ það er nú kolrangt hjá þér að þessi líf skipti máli því að þau gera það ekki. Hommar eru alger eyðsla, fólk er komið á jörðina til þess að eignast börn og láta þau alast upp og láta þau eignast börn og þau eignast börn og koll af kolli. Hommar gera þetta ekki, þeir eru bara á jörðinni til þess að vera á jörðinni, þeir gera ekkert og þessvegna skipta þeir ekki jafnmiklu máli og annað venjulegt fólk. ”

Hér er dæmi um grófa fordóma gegn hommum, sem er auðvitað útaf fáfræði. Ég meina hann heldur virkilega að hann eigi eftir að geta ráðið því hvaða kynhneigð börnin hans eigi eftir að tilheyra! Og hann talar eins og það mikilvægasta í heiminum sé að eignast börn! Seinast þegar ég man þá er þessi jörð troðfull af fólki og í raun er offjölgun eitt af aðal vandamálum heimsins í dag, svo því skil ég ekki hvað er svona að því að eignast ekki börn!

“kmg” var með fordóma í greininni “Svartir eiga að vera í afríku, gult fólk í asíu, hvítt fólk í evrópu.”

“ Núna er hinsvegar mikið af fólki að koma frá aðallega asíu löndunum. Ég myndi vilja að þetta fólk myndi fara heim til sín og lifa þar góðu lífi, ekki að koma hingað og vinna í einhverjum “skíta” jobbum eins og að setja í poka í bónus og svona. Skáeygt fólk eru að MÍNU MATI og margra annara ljótasta fólkið af öllum kynþáttunum “

Hér er gott dæmi um kynþáttafordóma. Auðvitað er eðlilegt að fólk blandist mikið núna á þessari öld þar sem auðveldlega er hægt að ferðast hringinn í kringum jörðina á mjög stuttum tíma. Er réttlætanlegt að fólk sem er að flytja til Íslands eigi að flytja til baka afþví þessum einstaklingi finnst þau vera ljót ? Þó að kynþáttur upprunalega sé frá sömu heimsálfu þá þýðir það ekkert að þau verði að vera þar og aldrei færa sig! Ég er bara ánægður með að fólk sé að flytja til Íslands enda er Ísland stórt land sem á möguleika á að vera stærri þjóð með meiri áhrif á heiminn en í dag. Þetta er mjög stórt land miða við hversu fáir íslendingar eru, og því fáranlegt ef við færum að banna fólki að flytja hingað inn. Því meira sem fólk dreifist um heiminn því minni líkur eru á að t.d. í einu sérstöku landi væri of mikið af fólki. Ísland er nógu stórt til að verða margra milljóna manna þjóð og bara fáranlegt að fólk vilji hafa bara “alvöru” hvíta íslendinga hérna!

Við höfum öll okkar fordóma, í raun er það mannlegt eðli að hafa eitthvað af fordómum. Sjálfur hef ég fordóma eins og allir aðrir, en það sem er mikilvægt er að maður láti þessa fordóma ekki hafa áhrif á aðra. Segjum t.d. að ég væri að labba í gegnum dimmt húsasund kl 4 á laugardagsnóttu í miðbæ Reykjavíkur, þá væri ótti minn um að eitthvað slæmt gæti skeð minni ef ég myndi sjá konu koma gangandi í áttina að mér en ef það væri karlmaður, sem er í raun fordómar gegn karlmönnum. En á þessu stigi eru þetta bara hugsanir mínar og hefur ekki áhrif á neinn annan nema sjálfan mig. Ef þetta er komið út í það t.d. að banna karlmönnum að koma í verslun sem maður ætti þá er þetta komið út í eitthvað rangt. Þessir fordómar mínir eru ekki eitthvað sem ég reyni að hafa, þetta kemur bara sjálfkrafa í undirmeðvitund mína eftir að hafa t.d. séð í fréttum að það sé algengara að karlmenn ráðist á fólk í miðbænum en konur.

Ég er virkilega að vona að með nýrri og nýrri kynslóð muni fordómar deyja út að mestu. Auðvitað munu fordómar alltaf vera partur af heiminum en samt vonandi á þetta eftir að lagast en versna! Íslenska þjóðin er ein af þeim þjóðum sem breytist mjög hratt, t.d. er sagt að við breyttumst úr sveitafólki í nútíma fólk sem spáir mikið í tísku og nýjustu tækni rafmagnstækja á aðeins nokkrum árum, eitthvað sem margar aðrar þjóðir notuðu heila öld í að gera. Því væri gaman ef við íslendingar myndum núna gera stórt átak gegn fordómum t.d. með aukinni fræðslu í skólum. Þá meina ég ekki að byrja í gagnfræði eða framhaldskólum, heldur byrja alveg í leikskólum og hafa þessa fræðslu alveg í gegnum allt menntakerfið. Það væri gaman að sjá ef við íslendingar myndum í framtíðinni mælast úr könnunum sem fordómaminnsta þjóð heimsins.

Sjálfur hef ég ákveðið að reyna að vera eins fordómalaus og ég get í framtíðinni, ég reyni að hafa eins opin hug um öll málefni og hægt er. Tel ég að allir ættu að hafa rétt til að vera þeir sjálfir án þess að fá skítkast frá öðrum. Hvort sem það sé smekkur á tónlist, klæðnaður, kynþáttur, kynhneigð, starf, menntun, trúarbrögð, áhugarmál eða eitthvað annað álíka. Það ættu allir að hafa sama rétt til að lifa í þessu þjóðfélagi og hafa sömu réttindi og allir aðrir! Og vona ég að flestir hér á Huga séu sammála því.

Væri ánægður að sjá svör frá fólki hvort sem það séu svipaðar eða ólíkar skoðanir.