GEGTchrobbus sigraði Íslandsmeistaramótið í Starcraft 2

Í gær, laugardaginn 19. maí, var Íslandsmeistaramótið í Starcraft 2 haldið á Classic Rock Sportbar í Reykjavík. Átta bestu Starcraft 2 spilarar landsins mættu til leiks og var hart barist um hver myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum. Þó nokkur fjöldi áhorfenda mætti á svæðið til að hvetja sína menn áfram, en leikjunum var lýst af Alla „icemodai“ og Gretti „wGbBanzaii“. Vegleg verðlaun voru í boði, en sigurvegari mótsins fékk 30.000kr inneign hjá Buy.is, ásamt tölvuleikjunum World of Warcraft og Diablo III í boði Senu.

Á mótinu var spilað eftir svokölluðu best-of-three kerfi, þar sem fyrsti spilarinn til að vinna tvo leiki sigrar. Eftir að fyrstu tveimur lotunum var lokið stóðu GEGTchrobbus og iMpShake einir eftir, en úrslitaleikurinn var spilaður eftir best-of-five kerfi, þar sem fyrri spilarinn til að vinna þrjá leiki sigrar. Spilararnir stóðu mjög jafnir í seinustu lotunni, en staðan var komin í 2-2 áður en lokaleikurinn var spilaður. Eftir hatramma baráttu í seinasta leiknum stóð Terran-spilarinn GEGTchrobbus, sem heitir réttu nafni Daníel Ingi Þórarinsson, uppi sem sigurvegari mótsins og er því Íslandsmeistari í Starcraft 2.

Mótið virðist hafa heppnast vel og vonandi sjá mótshaldarar sér fært um að halda fleiri slík mót í náinni framtíð. Við hjá Nörd Norðursins viljum óska Daníel Inga til hamingju með sigurinn, og vonumst til að sjá hann verja Íslandsmeistaratitilinn í komandi mótum.