Ég er einn af þeim sem læt í mér heyra ef ég er ekki sáttur við þá þjónustu sem ég er að borga fyrir. Hins vegar reyni ég líka að láta í mér heyra þegar ég er ánægður með það sem gert er og þess vegna ætla ég að minnast á það hér hversu ánægður ég hef verið með þjónustu Símans í tengslum við lagvandræði sem upp hafa komið hér á landi við spilun á WOW.

Ég var áður hjá Vodafone en ákvað eftir langt ströggl og nákvæmlega enga þjónustu að segja upp öllum mínum viðskiptum við þá (sími, GSM og ADSL) og flutti mig yfir til Símans. Ég skal alveg viðurkenna að ég var ekki allskostar ánægður þegar þangað var komið, enda var laggið ennþá til staðar og leikurinn nánast óspilandi. Hins vegar var munur á þjónustunni allur annar. Strax þegar ég tilkynnti um vandamálið fór málið í ákveðinn farveg, ég sendi inn gögn á prófunum sem þeir báðu um, allar upplýsingar sem ég gat gefið um tenginguna við WOW osfr. Nokkrum dögum síðar fékk ég sent Email um hvar vandinn lægi (breytingar á neti innan Blizzard + of lítil utanlandsgátt) en var jafnframt sagt að verið væri að vinna í þessum málum. Þá var einnig sagt að aðrir spilarar væru að lenda í þessu. Í þessum eina tölvupósti fékk ég hreinskilið svar hvað um var að vera og annað biður maður ekki um. Í heilan mánuð hafði ég reynt að fá slíkt svar frá Vodafone án árangurs og alltaf þegar mér var svarað voru gefin loðin og óskýr svör.

Tenging mín við WOW er nú orðin all góð þó ennþá finni maður fyrir smá cast laggi á háannatíma. En það er alveg ljóst að Síminn er að vinna í þessu bæði fljótt og örugglega. Og þeir viðurkenna vandan.

Ég veit að margir WoW spilarar leggja upp úr traustri tengingu til þess að geta notið leiksins til fulls. Án hennar er leikurinn lítils virði svo ekki sé talað um það að þeir sem eru að “raida” eru að spila með fjölda annarra spilara sem treysta á fjöldan allan af öðrum til þess að hægt sé að komast áfram í leiknum. Ég held að það sé mikilvægt að Símafyrirtæki á Íslandi geri sér fyllilega grein fyrir þessum aðstæðum og tryggi WoW spilurum þá þjónustu sem þörf er á. Ég hygg að það séu talsvert margir spilarar sem láta góða tengingu við WOW ráða öllu um hvert þeir beyna sínum viðskiptum. Mín von er að þjónusta við netspilunarleiki innan símafyrirtækjana verði aukin enn frekar og hágæða tengingar sem krefjast meira heldur en einfalds gagnaflutnings innan internetsins verði tryggðar þeim sem eftir leita.

Gaman væri að heyra frá fulltrúum Símafyrirtækjana hér um hvort einhver slík þjónusta verði í boði í framtíðinni.

Svo mörg voru þau orð =)