BAR-liðið fagnaði í lok tímatökunnar í A1-Ring enda aldrei náð svo góðum árangri hvað báða bíla varðar. Kom frammistaða Ricardo mjög á óvart en hann náði sjötta sæti, einu framar en félagi hans Jacques Villeneuve.

Zonta hafði í 22 mótum sínum á ferlinum lengst náð í áttunda sæti í tímatökum en nú komst hann tveimur sætum ofar. Var hann og með bestu tíma á æfingunum í gær og morgun svo frammistaðan er engin tilviljun.

Varð Zonta fyrstur til að fara út í brautina í tímatökunum og eftir aðra lotu var hann í öðru sæti. Lauk öllum hringjunum sem hann hafði til umráða áður en tímatakan var hálfnuð en féll þó ekki neðar en í sjötta sæti.

Villeneuve vann sig hins vegar smátt og smátt upp töfluna en varð að sætta sig á endanum við að vera 2/1000 á eftir Zonta í sjöunda sæti. Jarno Trulli varð aðeins 19/1000 á undan honum í fimmta sæti.

Zonta var í sjöunda himni eftir á og Villeneuve kvaðst hafa vonast til að verða ofar en gladdist fyrir hönd liðsins. Sagði bílana hafa tekið miklum framförum undanfarið sem lofaði góðu í stigakeppni bílsmiða um að verða bestir restarinnar, þ.e. það lið sem næst kemur McLaren og Ferrari.

SphinX