Það var dimmt í miðjum Duskwood. Reyndar var alltaf dimmt þar, það var sjaldgæft að sjá í himininn því ævafornir trjátoppar svo langt sem augað eygði huldu himininn og sköpuðu eins konar eilífa nótt. Skógurinn var tómur, einstaka kráka flaug frá einu tré til annars og litlar köngulær földust í háu grasinu. Alltíeinu brá fyrir ljósgeisla í suðrinu, hann stækkaði uns maður gat greint manninn sem var þar á gangi. Unglegur og sterkbyggður maður, hann var klæddur í dökkbrúna leðurbrynju og hanska með kyndil í hendinni. Andlit hans var frítt ásjónum en var að hálfu afmyndað af örum, hann hafði sterklegan og heillandi svip og dökk grænu augun hans geisluðu af krafti. Hann var einungis kallaður Alex, en hét fullu nafni Alexander, Alexander Perenolde.
''Andskotans kuldi, algjörlega dæmigert af henni að senda mig um miðja nóttina í eftirlitsferð yfir í norðurskóginn. Mjög greinilega engir herir uppvakninga og blóðþyrstra úlfamanna að safnast saman til að ráða okkur af dögum, ekki frekar en í síðustu viku, eða þar síðustu viku..'' hugsaði Alex með sér. Hann stoppaði í smástund, hlustaði hljóður í nokkur andartök en heyrði ekkert. Hann sneri við og byrjaði að ganga af stað til suðurs, en kipptist allt í einu snögglega til.
'' Könguló.. Jæja, maður getur aldrei verið of varkár.“ sagði með hann með sjálfum sér og setti upp kaldhæðnisglott. Hann leit aðeins á hana, en hélt svo áfram. Hann gekk í nokkra stund í átt til suðurs. Jafnvel þótt hann þráði bara að fá að leggjast í rúm og sofa sínar sex klukkustundir með sér og sínum draumum, þá vissi hann að hann yrði að gefa henni daglegu skýrsluna og verða spurður spjörunum úr áður en hann fengi svo lítið sem að setjast niður í næði.
Eftir svona stundarfjórðung var hann kominn á veginn fyrir ofan bæinn sem var að mestu leyti þögull. Hann leit hljóðlega yfir Darkshire. Það skein ljós í ráðhúsinu og svo sá hann ljós af kyndli í fjarska meðfram suðurveginum, Ekel var greinilega líka að klára sína vakt.
Hann gekk hljóðlátlega inn í ráðhúsið, lagði brynjuna og sverðið niður og gekk svo fram undirbúinn undir að hitta yfirmann sinn.

”Jæja, velkominn aftur! Einhverjar fréttir?“ gall í dökkhærði konu sem leit upp úr bókinni sinni til að mæta aðkomumanninum. Althea Ebonlocke var síðasta persónan sem Alex hefði viljað hitt á kvöldi sem þessu, en neyddist þó til þess. Jafnvel þótt hún var leiðtogi Næturvaktinnar og mjög sterk og hugrökk kona sem Alex bar mikla virðingu fyrir, þá gat hún valdið hinum samviskulausasta bardagamanni manni hugarangri og jafnvel ótta.
”Já, gífurlega sterkt og risavaxið köngulóarskrímsli réðst á mig að óvörum, bardaginn entist lengi en ég náði að ráða niðurlögum hennar að lokum, en þó sit ég uppi með þetta ör til æviloka.“ sagði hann í hæðnistón og benti á skrámu á handleggnum sem hann hafði fengið áðurfyrr við að nuddast upp við grein. ”Þú getur hlegið og grínast eins og þú vilt Alex, en þegar tveggja og hálfs metra úlfamaður í berserksgangi rífur af þér hausinn að óvörum verð ég fyrst til hláturs.“ sagði hún á móti hörkulega, en þó mátti greina glettnistón í röddinni.
”Jæja.. allvega, ekkert í kvöld frekar en í gær. Svæðið hér upp að árbakkanum er enn tómt.. Hef ég leyfi til að fara?“ sagði Alex.
Althea kinkaði kolli hugsi og sneri sér aftur að bókinni. Alex gekk í átt að dyrunum, en leit þó í stutta stund á Altheu. Hún hafði fallegt andlit og líkamsvöxt og lítill partu af Alex hafði alltaf verið heillaður af henni, en hann óttaðist mest að ef hann minntist á það við hana þá myndi hann einungis uppskera sársauka.
Hann gekk út úr ráðhúsinu og út í næturkuldann, hann leit stutta stund á heimabæinn sinn og hugsaði með sér að hann myndi líklega hvergi annarstaðar vera þrátt fyrir að hann væri hreinasta helvíti á jörðu. Hann gekk yfir í svefnskálann örþreyttur og sofnaði fljótt.
Alex eins og margir aðrir menn í konungsríkinu, var ættaður norður úr Lordaeron. Nánar tiltekið Alterac Mountains. Allt sitt líf hafði Alex lifað í ótta og stöðugum flótta, en loksins fannst hann eins og hann hefði fundið samanstað í þessum dimma guðsvolaða skógi.
Alex hafði í raun aldrei verðskuldað að upplifa barnæsku sína eins og hann gerði, allt útaf ættarnafni sínu hafði hann verið eltur og hataður af ókunnugum. Það var þessvegna sem hann hafði kosið að minnast aldrei á sitt sanna nafn, jafnvel þótt hann hafði einungis vitað um það fyrst á unglingsaldri Já, nafnið Perenolde var ekkert sérstaklega vinsælt hjá mönnum, eða flestum meðlimum Bandalagsins. Hann bar blóð og nafn svikara bandalagsins, í seinna stríðinu hafði Lord Perenolde, konungur Alterac, svikið Terenas, Greymane og Arathor í hendur The Horde og reynt að ráða af dögum leiðtoga The Silver Hand. Svik hans reyndust árangurslaus, og í sameinaðri árás allra meðlima bandalagins var konungsríkinu í Alterac gjörsamlega eytt. Hann hafði verið fluttur ásamt veikri móður sinni með skipi suðir í Stormwind, en á leiðinni var ráðist á skipið af herskipi Kul Tiras sem átti leið um. Móðir hans ásamt meirihlutanum af áhöfninni létust og það var fyrir algjöra tilviljun að hann lifði það af. Hann skolaðist á land, aðeins þriggja ára, á strönd í Westfall. Gamall og fátækur bóndi að nafni Aiden fann hann á ströndinni, nær dauða en lífi og ól hann upp. Alex lifði þar fátækur en hamingjusamur ásamt Aiden sem hann taldi vera föður sinn, óafvitandi af öllu því sem hafði gerst fyrir hann þegar hann var aðeins ungabarn. Það er að segja þangað til þeir komu og gjörbreyttu öllu. Alex fann alltaf til sársauka þegar hann hugsaði um það.

Alex vaknaði skyndilega frá draumlausum svefni. Hann leit í kringum sig, hann var í svefnskálanum. Svefnskálinn var frekar ömurleg vistarvera, gömul smiðja sem var búið að einangra og svo voru hoggin lítil skot í vegginn þar sem litlum svefnbekk og grófri tréhillu var troðið inn í. Flestir verðirnir áttu fjölskyldu í bænum þar sem þeir bjuggu, og sluppu þannig við að búa í skálanum. Restin af vörðunum voru yfirleitt bardagamenn með skuggalega fortíð, eða þá gamlir hermenn frá Stormwind sem vildu ekki yfirgefa bæinn eins og herinn gerði. Smám saman róaðist Alex í kringum sig og var að fara að leggjast niður, hann leit þó út um gluggann í hinum enda salarins þar sem laus hleri fauk og slóst svo aftur til skiptist. Það var napurt og kalt úti, líklega langt liðið um nóttina og ekki langt í sólarupprás en enn aldimmt. Allt í einu fannst hann sjá skugga bregða fyrir gluggann, en hverfa strax aftur.Venjulegur maður hefði líklega velt þessu fyrir sér í nokkur andartök, en svo sannfært sjálfan sig um að þetta væri ekkert. Alex hafði lært á óþægilegan hátt að þar sem hann lifði, dygði ekki að hunsa svona nokkuð. Hann stökk á fætur og klæddi sig í, gekk svo út að glugganum og leit út. ”Hvað í fjandan.." hugsaði hann með sér, en það var gripið snögglega í hann og hann var dreginn út um gluggan af sterkum höndum. Hann lenti öfugur á moldargötunni og tjónkaði sér aðeins, svo sneri hann sér við og sér til undrunar sá tvo menn klædda í svarta leðurbrynju með tvö rýtinga slíðraða við mittið og sama merkið brennt gróflega í bera handleggi þeirra. Og fyrir aftan þá stóð stór og virðulegur maður í dökkri skykkji með þykkt skegg og horfði niður á hann, Alex kannaðist við þennan mann of vel. Niðurbældar tilfinningar, sorg, hatur, reiði, brutust út í öskri þegar hann sá andlitið á manninum sem hann hataði meira en nokkuð annað. Hann reis upp og ætlaði að henda sér á manninn, en var kippt niður jafnóðum. Og svo varð allt svart.


Eftirmáli:Ég veit að þessi smásaga er í lengra laginu (taldi ekki orðin) en ég bið bara ykkur að láta þetta sleppa og nenna að lesa hana. Mun örugglega senda inn framhald fyrst skáldagyðjan er vöknuð í manni :) Þetta verður þá bara mitt framlag í keppnina.