Ég læt það vanalega ekki fara í taugarnar á mér þegar fólk er í fjörugum samræðum og missir út úr sér dæmigerðar villur eins og „mér langar“ og „ég vill“ eða hið nýlega „það var sagt mér“.
Ég reyni að tala sem réttast en það kemur fyrir að maður missi aðeins út úr sér villur, ég tek þó yfirleitt eftir því þegar aðrir tala vitlaust.
En krónísk þágufallssýki fer í taugarnar á mér. Ég veit um nokkra aðila, sem ég veit ekki til að séu lesblindir eða með einhver einkenni í þá áttina, sem bara geta ekki talað rétt, eins og þeir vilji það ekki. Mér finnst líka undarlegt hvað grunn - og menntaskólakennarar eru einstaklega latir að leiðrétta. Það er þeirra hlutverk.
Ef við höldum okkur við þágufallssýkina eða hneigðina þá er mjög algeng villa „hverjum vantar“, sem á að sjálfsögðu að vera „hvern vantar“.
Ef við „googlum'etta“ koma upp 602.000 niðurstöður fyrir „hverjum vantar“ en 377.000 fyrir „hvern vantar“.
Ef við myndum skella niðurstöðunum saman kæmi í ljós að um 2/3 af þeim eru ekki réttar. Ég held nú að meirihlutinn af þeim röngu sé af bloggsíðum hjá krakkagríslingum og skil vel að það verður alltaf þannig að krakkar eiga eftir að tala vitlaust að einhverju leiti.
En eitt sem er jafnvel verra en þágufallsóværan er léleg stafsetning. Maður getur kannski ekki alltaf hugsað áður en maður skrifar eða talar: „segir maður strákinn langar eða stráknum langar?“, gott og vel.
En það sem virðist vera orðin einhvers konar lenska í netheimum að skrifa „hvað segiru?“ í staðinn fyrir „segirðu“. Ef við „googlum'etta“ koma svipaðar niðurstöður og í „hverjum vantar“-dæminu.
Þetta litla ð virðist að vera að hverfa í talmáli og er að gleymast í stafsetningunni.
Málið þróast, það er alveg á hreinu en ég er ekki viss um að þessi þróun sé á réttri braut; þágufall og þolfall eru að renna saman, stafsetning sagna í þátíð er að breytast og „það var sagt mér“ virðist vera að festa sig í sessi.

Jæja, núna er ég hættur að röfla og ég vona að þessir litlu punktar hafi verið gagnlegir, þó ekki nema að einhverju leiti. Ég vona líka að ég hljómi ekki eins og þurr og leiðinlegur málfræðingur en endilega segið ykkar skoðun :)
Það er nefnilega það.