Í bæði Fréttablaðinu og 24 Stundum í dag er að finna opnuauglýsingu frá Gamestöðinni, nýrri verslun frá Senu (lesið: Skífan og BT) sem bæði segist ætla að lækka leikjaverð á Íslandi, svo og að bjóða uppá leikjaskiptimarkað. Taldir eru upp PS2, PS3, PSP, Nintendo DS og Wii, X-Box 360 og PC-CDRom leikjastaðlarnir í auglýsingunni, ásamt “þremur einföldum skrefum til að spara peninga”. Þetta er allt svo sem gott og blessað, en það sem vantar í þessa auglýsingu eru skilmálarnir fyrir vöruskiptunum. Þeir eru sko margir, reyndar svo margir að ég náði ekki einu sinni að fræðast um þá alla eftir stutta dvöl í búðinni. Hérna tel ég upp þá skilmála sem ég gat lært um:

1: Gamestöðin verðleggur sjálf hvað notaðir leikir kosta. Gamlir og notaðir PS2-leikir eru andvirði 300kr, notaðir PS3-leikir eru andvirði 2300kr, ef mig misheyrði ekki. Ekki gat ég fengið upplýsingar um verðlag á öðrum leikjum, en vonandi hafið þið fengið grófa hugmynd byggt á ofangreindum dæmum.

2: Gamestöðin tekur ekki við PC-leikjum. Punktur. Engar undantekningar. Á meðan ég skil alveg þessa stefnu hjá þeim (sökum afritunarvarna og ræsilykla) þá þykir mér það lágkúrulegt að hafa PC-leiki í auglýsingunni, en neita svo að taka við þeim. Svör þeirra voru að þeir selji PC-leiki, sem er alveg rétt, en auglýsingin er augljóslega gerð til að vekja athygli á skiptimarkaðnum.

3: Gamestöðin tekur ekki við þeim leikjum sem eru ekki í “kerfinu” þeirra. Aðspurður sagði afgreiðslumaðurinn að kerfið næði til tveggja eða þriggja ára aftur í tímann, og að von væri á að “eldri” leikir kæmu inn í næstu viku. Ekki veit ég hvort hann átti við að þeir kæmu inn í kerfið eða bara í verslunina.

4: Ég heyrði útundan mér þarna niðurfrá að ef þú skiptir leikjum og kýst bara að fá peningana, þá færðu bara helminginn af upphæðinni. Þetta er víst gert til að hvetja að þú notir peninginn hjá Gamestöðinni. Ég þyrfti að fá þetta staðfest frá öðrum aðila hérna, því þetta finnst mér sérstaklega grófur skilmáli, sérstaklega þar sem það finnst ekki stafur um þetta í auglýsingunni!

5: Gamestöðin mun skoða notaðar leikjatölvur til að gá hvort þær virki, áður en þeir taka við þeim. Þetta er fullkomnlega skiljanlegur hlutur, en það kæmi mér ekki á óvart þótt þeir tæku bara við leikjatölvum sem eru enn í sölu. Einhverjir reyndu að skipta X-Box tölvu og PS1 tölvu á meðan ég var þarna. Gaman væri að vita hvernig þeim gekk.

Ef þið vitið um einhverja fleiri skilmála hjá Gamestöðinni, endilega látið heyra í ykkur.

Mín skoðun á þessari verslun? Góð hugmynd og góð tilraun, en maður myndi búast við því að eftir að Neytendastofnun bannaði BT að auglýsa “Vaxtalausu veisluna” sína eins vafasamt og þeir gerðu, að þeir myndu sjá að sér og reka auglýsingahönnuðinn sinn. Auglýsing Gamestöðvarinnar sýnir öllum að svo er ekki. Það kæmi mér ekki á óvart að Neytendastofnun myndi skipta sér af þessu.