Megaman Legends (PS, Nintendo 64 & PSP) Sælir leikjaáhugamenn og aðrir hugarar. Datt mér nú í hug upp á síðkastið að fjalla um einn leik sem mun alltaf vera með bestu leikjum sem ég hef spilað. Í rauninni er þetta fyrsti leikurinn sem ég hef átt sjálfur (var alltaf að fá lánaða leiki). Fékk hann ásamt A Bugs Life leiknum í 6 ára afmælinu mínu. Jú þetta er leikurinn Megaman Legends í PlayStation.

Í rauninni er Megaman Legends fyrsti þrívíddarleikurinn í Megaman seríunni og er grafíkin ekkert svakalega góð enda kom leikurinn út árið 1997 en þrátt fyrir það er hún samt sem áður allt í lagi. Á myndinni hér til hliðar er hægt að sjá grafíkina og einnig part af gömlu rústunum fyrir ofan neðanjarðarrústirnar sem ég fjalla um hér fyrir neðan.

Leikurinn fjallar um 14 ára strákinn Megaman Volnutt sem er ættleiddur af Professor Barrel sem sér einnig um barnabarnið sitt Roll sem er víst jafn gömul Megaman. Eins og í öllum Megaman leikjum er Megaman klæddur bláum vél-armor sem er með byssu-hönd og margt fleira. En í þessum heimi sem þau búa í er mikið af vatni og er hafið víst gríðarstórt og aðeins 2-3 stór meginlönd standa ásamt þúsund eyjum.

En það er eitt vandamál með rafmagn og eldsneyti ef maður sleppir Refractors sem eru nokkurskonar orkusteinar mislaga að stærð og lit og eru grafnir í jörðinni í fornum rústum þar sem þúsund ára gömul vélmenni vernda þau. Þessi vélmenni heita Reaverbots. Og er því svolítill vandi að komast að þessum orkusteinum án þess að vera vel búinn. En sérstakur hópur af fólki sem nefnist “Diggers” eða grafarar eru vél búnir vopnum og slíku til að geta grafið upp allskyns forna hluti sem gætu gagnast þeim.
En bílar eru ekki einu vinsælu farartækin þarna, heldur eru airships eða flugskip afar vinsæll ferðamáti sem hægt er að nota til þess að ferðast á milli landa. Og eru þessi skip víst bara eins og venjuleg heimili fyrir hverja fjölskyldu. En græðgin virðist yfirtaka ýmsa aðilla þarna og eru til slæmt fólk sem vill stela og ræna frá öðrum gröfurum forna hluti sem gætu gagnast þeim og kallast þeir bara einu nafni: “Pirates”, eða sjóræningjar (í þessu tilfelli “flugræningjar). En í rauninni bendir margt til þess að þessi leikur gerist þúsundum árum eftir Megaman X leikina og allar þessar “fornu rústir” séu í rauninni ekkert annað en gömlu vélmennaborgirnar úr gömlu Megaman leikjunum.

En aftur að sögu leiksins. Megaman og félagar eru þarna diggers sem ferðast um í flugskipinu “Flutter” sem er víst voða kósý lítið skip. Leikurinn byrjar þar sem Megaman er fastur í turn-rústum í miðju hafinu þar sem er að sjálfsögðu voða dimmt. En introið minnir pínu á Indiana Jones þar sem hann kemst loksins að herberginu þar sem refractor rústanna er geymdur. Hann tekur steininn varlega upp og um leið fer herbergið að titra og skyndilega eru allar dyrnar að lokast og þarf Megaman að hlaupa mjög hratt til að komast út. Auðvitað tekst honum þetta. Þá allt í einu heyrir maður rödd tala við mann sem vælir alltaf: “Megaman!! Megaman!! Blablabla…” Og er það víst Roll í flugskipinu Flutter að leiðbeina Megaman í gegnum rústirnar fyrst Megaman er með sérstaka skynjara á sér sem skynja allt í kringum piltinn. En þá fær maður að prófa sig áfram að skjóta niður vélmenni og alveg með einhverju stóru kóngulóar vélmenni sem er uppi í loftinu og fleira. Svo í síðasta herberginu áður en maður fær að fara út er risa-stórt vélmenni sem gengur hægt og rólega til manns og lemur allt í kringum sig. Ansi auðvelt vélmenni fyrir Megaman og loksins sleppur hann út. En þá vaknar vélmennið aftur og er þá aumingja Megaman einn með vélmenninu í risastórum turni í miðju hafinu. En þá brosir strákurinn og hoppar niður. Þá sér maður að hann lenti á flugskipinu sínu Flutter og flýgur í burtu. Þá kemur langt myndband þar sem maður fær að kynnast fólkinu á skipinu en svo allt í einu ofhitnar vélin og springur sem þýðir að þau þurfa að brotlenda og gera það á eyjunni Kattelox Island. Og þar byrjar leikurinn alveg.
Kattelox Island er lítil og nett eyja með svolítið mörgum íbúum. Þessi eyja var greinilega mikill staður fyrir vélmenni árum áður enda sér maður alltaf byggingarrústir meðfram nýbyggingum. En í nútímanum búa vélmennin aðeins í rústunum fyrir neðan eyjuna. Op eru í rústirnar víða um eyjuna og kallast þau “Ruin Gates”. Svo eru sérstakar rústir með refractorum inni sem aðeins er hægt að komast í gegnum Sub-Gates sem eru sérstök vernduð hlið af bæjarbúum og þarf víst sérstök skírteni til þess að komast inn í þau. En eitt gate í leiknum kallast Main Gate en málið er að enginn bæjarbúi hefur getað komist inn í það vegna þess að það er enginn inngangur. En til að gera langa sögu stutta (Spoiler fyrir þá sem ætla sér að spila leikinn hehe)

Þá er Main Gate í rauninni inngangurinn að aðalendakarlinum í leiknum. Maðurinn/vélmennið sem í rauninni á alla eyjuna og öll hliðin er grafinn þarna lengst niðri og sefur langan svefn þar til ákveðinn aðilli kemur og vekur hann og þá veldur hann hræðslu og eyðileggingu.

En er við erum nýbúin að kynnast bæjarbúum þá ráðast sérstakir pirates á eyjuna í leit að “sérstökum fjarsjóði” sem er sagður vera grafinn neðst í Main Gate. Og sögur herma að ef maður tæki fjarsjóðinn þá myndu allir bæjarbúar á eyjunni deyja. Og því reyna allir að stöðva þessa pirates. Og þá kemur Megaman til bjargar.
Þessir pirates eru samt sem áður í rauninni sérstök fjölskylda. Það er elsti bróðirinn Teisel Bonne, 14 ára stelpan Tron Bonne og litla barnið Bon Bonne sem kann bara að segja Babu og er inni í vélmenni sem það stjórnar. En Tron er svo mikill snillingur að hún smíðaði 40 lítil gul vélmenni sem eru eiginlega bara hálfgerðir Legokarlar sem hún kallar Servebots. Þessi Servebots eru bara litlu hermennirnir í fjölskyldunni og einnig þjónar.
En Bonne fjölskyldan varð svo vinsæl að gerður var Spin-Off leikur um hana sem gerist ári fyrir Megaman Legends og heitir The Misadvantures of Tron Bonne og kom út á PlayStation. Teisel Bonne lendir í fjárhagslegum vandræðum með aðra ríkari fjölskyldu og verður á endanum rændur ásamt litla bróður sínum Bon Bonne. Þessi fjölskylda segir Tron að þeir muni skila bræðrunum tveimur ef Tron gæfi þeim 1.000.000 zenny (zenny er gjaldmiðillinn í leiknum). Og því þarf maður að ræna og rupla borgir og einnig skoða fornar rústir og margt fleira til að afla peninga. Svo árið 2001 var gefinn út Megaman Legends 2 á PlayStation og gerist árinu eftir fyrri leikinn.

En allt í allt eru þessir þrír leikir hreint út sagt æðislegir og mæli ég með þeim öllum fyrir þá sem hafa nákvæmlega ekki neitt betra að gera. Ef ég ætti að gefa þeim einkunn þá myndi hún hiklaust vera 9.0 þó svo að það sé bara mín persónulega einkunn og gætu víst margir verið ósammála mér en ég kýs að hunsa þá algjörlega! :-)