Fellowship of the Ring DVD umfjöllun Enginn hefur tekið sig til og skrifað neitt um DVD útgáfun Lord of the
Rings: The Fellowship of the Ring, hvorki á Tolkien né Kvikmyndir þannig
að ég verð víst að gera eitthvað í málinu.

Og smá tilkynning: Þar sem verið var að hreinsa til í stjórnandamálum á
öllum hugi.is urðu stjórnendur að skrá sig aftur og hvorki Aragorn né
bjarni85 hafa gert það þannig að ég er einn eftir. Vonandi eru allir sáttir við
það.


DVD umfjöllun:
____________
____________



Hulstrið:
______

Ég kom heim úr ferðalagi og það fyrsta sem ég gerði var að hlaupa út í
búð og næla mér í eintak af LOTR:FOTR á DVD. Hulstrið lítur mjög vel út,
það sem vekur kannski athygli er smá íslenska framan á og aftan.
Hringaversið er á íslensku fremst, en ég hefði nú heldur kosið að hafa það
á ensku. Umfjöllunin um myndina er einnig á íslensku og er hún alveg
ágæt. Það sem kannski mestu máli skiptir er innvolsið. Diskarnir eru tveir
og eru mjög smekklega skreyttir: aðaldiskurinn með góðri mynd af Frodo
með hringinn og hinn diskurinn með flottri mynd af hringnum.

Aðaldiskur:
_________

Valmynd fyrsta disksins er mjög flott með smá myndskeiði af hringnum og
falleg tónlist Howard Shore er í bakgrunni. Allt umhverfið er líka mjög flott
og með smá blæ af einhverju sögulegu og fornu.
Ég veit að sumir höfðu áhyggjur af því að LOTR:FOTR væri mynd sem
eiginlega bara nyti sín á hvíta tjaldinu í bíóhúsum en ég get ekki tekið
undir það. Í gærkvöldi ákvað ég að horfa á alla myndina frá upphafi til
enda og að mörgu leyti er myndin betri en eins og ég sá hana í bíó þó að
hljóðgæðin í Bang & Olufsen sjónvarpinu jafnast kannski ekki alveg á við
hljóðkerfi bíóhalla Reykjavíkur. Þegar ég fyrst setti myndina í gang þá varð
ég var við gífurlega góð myndgæði. Myndgæðin eru með því besta sem ég
hef séð á DVD diski. Ég horfði á atriðið þegar höfðingjar Álfa fá hringina
sína og mér fannst mun betra að sjá atriði þetta en í bíósal. Allt miklu
skýrara og litasamsetning einnig betri. Grænir akrar Hobbitions eru mjög
fallega grænir. Ég fæ þá tilfinningu að myndin hafi verið ansi grámygluleg í
bíó í samanburði við þetta. Hljóðgæði einnig mjög skýr þó kannski sé ég
nú enginn expert í þeim efnum. Stríðið í byrjun er einnig mjög flott og með
góðu heimabíókerfi ætti það að jafnast vel á við atriðið í bíó.
Kvikmyndin sjálf veldur heldur ekki vonbrigðum og er auðvitað frábær í
alla staði, þó að ég held ég bíði með að sjá hana í sjöunda skiptið enda
orðinn dálítið …ehm…leiður á henni…

Íslensk textagerð er á sinum stað og sjálfkrafa stillt á. Fyrir þá sem það vilja
(þar á meðal greinarhöfundur) geta auðvitað tekið hana af. Þrátt fyrir að
hún sé almennt góð, með fáum villum, þá finnst mér hún bara fyrir í þessari
mynd auk þess sem sumar setningar verða bara ekki þýddar nógu vel.

Diskur 2:
________

Á öðrum diski pakkans má finna ýmislegt aukaefni myndarinnar. Á fystu
valmyndinni eru þrír langir heimildarþættir auk 15 lítil myndskeið um
myndina sem áður voru staðsett á vefsíðu myndarinnar, lordoftherings.net.

Fyrsti heimildarþátturinn ber heitið “Welcome To Middle Earth: Houghton
Mifflin In-Store Special” var nokkuð góður og frábær hugmynd að hafa
smá umfjöllun um Tolkien, bækurnar og viðtal við son útgefandans Rayner
Unwin sem sá til þess að Hobbit, fyrsta bók Tolkiens kom út. Fjallað var um
bækurnar sem gefnar hafa verið út alls staðar í heiminum og gaman var
að sjá hina íslenska útgáfu bókanna, “Hringadróttinssögu” á borði einu
ásamt öðrum útgáfum á öllum tungumálum. Í seinni hluta þáttarins er
fjallað um kvikmyndina og hvernig bókin var færð yfir á kvikmyndaform.
Hér er mjög margt að sjá, fullt af bakviðtjöldin-myndskeiðum, viðtölum við
leikara og aðstandendur og margt fleira. Mjög góður heimildarþáttur og
margt kom fram sem ég hafði ekki séð og heyrt áður.

Annar heimildaþáttur var “Quest for the Ring” um hálftíma þáttur með
umfjöllun um kvikmyndina. Þessi þáttur er mjög líkur seinni hluta
“Welcome to Middle Earth” og hefur þessi verið sýndur á Stöð 2 og Sýn
áður þannig að ég ákvað að sleppa því að horfa á hann í þetta skiptið en
fyrir þá sem ekki hafa séð hann þá mæli ég mjög með honum.

Þriðji heimildarþátturinn “A passage to Middle Earth: Sci-fi Channel
Special” var lengstur þáttanna og að mínu mati sá besti. Þarna var
gífurlega mikið um gerð myndarinnar sem ég hafði ekki séð áður svo sem
þjálfun Orkaleikaranna, mikið um sverð og brynjur og margt fleira. Mjög
góður þáttur.

Ég nennti ekki að horfa á öll lordoftherings.net myndskeiðin en það sem
ég sá var mjög flott og margt nýtt kom fram. Myndskeiðin eru nokkurra
mínútna löng.

Ef maður svo valdi “more” fékk maður fram aðra valmynd með meira
aukaefni. Hér gastu séð þrjá “trailera”, nokkrar sjónvarpsauglýsingar,
Tónlistarmyndskeið með Enyu, kynningu á lengri útgáfu myndarinnar,
kynningu á næstu mynd The Two Towers og kynningu á tölvuleik
Electronic Arts “The Two Towers”.

Ég hafði séð alla trailerana áður en gaman var að sjá þá á
sjónvarpsskjánum sínum í góðum gæðum og með hljóðið stillt hátt. Þeir
eru allir mjög góðir og var gaman að rifja upp kynnin við þá sem var á
tímabili það eina sem maður vissi um myndina.

Sjónvarpsauglýsingarnar voru líka alveg ágætar. Mjög hraðar og fínar
skreyttar brotum úr umsögnum gagnrýnenda o.s.frv. Maður skilur ekki að
nokkur maður myndi vilja láta myndina fram hjá sér fara ef hann sæi svona
auglýsingu.

Ef maður er hrifinn af lagi Enyu sem er í blálok myndarinnar (á meðan
credit-listinn rúllar) þá er það þess virði að horfa á tónlistarmyndskeiðið
sem er einnig skreytt brotum úr myndinni. Mér finnst lagið nokkuð gott og
synd að allir voru farnir út úr salnum þegar lagið var að hefjast í bíó.

Kynning á lengri útgáfu myndarinnar fannst mér frábær og með því besta
af aukaefninu á disknum. Hérna sá maður fullt af góðum atriðum sem
maður saknaði úr myndinni. Þrjátíu mínútum af efni sem klippt var úr
myndinni (vegna lengdar myndar o.fl.) hefur verið bætt við myndina og
verður hægt að kaupa þessa lengri útgáfu á DVD diski þann 12.
nóvember. Sérstaklega gaman þótti mér að sjá að “ástarsaga” Gimla og
Galadríelar er á sinum stað en ég saknaði þess atriðis mjög mikið.

Kynningin á The Two Towers er mjög góð og segir Peter Jackson leikstjóri
okkur dálítið frá myndinni. Hér er á ferðinni mikið af efni sem sást í Two
Towers previewinu fyrir nokkrum mánuðum og í hinum nýja trailer en
einnig er mjög mikið af nýju efni. Hinar nýju persónur sem bætast við eru
kynntar ágætlega og líst mér mjög vel á. Persónan Gollum er aðeins kynnt
betur og fær maður að sjá hvernig atriðin með honum fóru fram en passað
er sérstaklega upp á að maður sjái aldrei veruna nákvæmlega.

Kynningin á tölvuleiknum er nokkuð góð og finnst mér sú leið sem farin var
að byrja leikin í Rivendell og enda einhvers staðar í The Two Towers
nokkuð sniðug leið til að búa til skemmtilegan leik án þess að hann
eyðileggi grunnþema sögunnar of mikið. Til dæmis líst mér ekki á leik frá
einhverju fyrirtæki þar sem byrjað er frá byrjun og Frodo þarf að berjast við
fullt af skrýmslum á leiðinni til Rivendell sem er ekki beint eins og hobbiti
gerir.
Í leiknum velur maður að spila annað hvort Aragorn, Legolas eða Gimla
þó að Föruneytið sjálft er auðvitað allt af með manni.
Grafík leiksins lítur ágætlega út og hlakka ég til að fá að prófa þennan.
Leikurinn verður fyrir Playstation 2.

______

Smá kvörtun til Morgunblaðsins vegna gagnrýni Birtu Björnsdóttur í
Morgunblaðinu 7.ágúst:

“Þó að fjöldinn allur af áhugaverðu efni sé þarna á boðstólum fær maður
þó á tilfinninguna að eitthvað vanti. Lítið sem ekkert er fjallað um gerð
myndarinnar sem maður var að enda við að horfa á og var þess talsvert
saknað.” Mbl. 7 ágúst. bls. 47

Þetta finnst mér ekki beint við hæfi í annars góðri gagnrýni. Meira en
klukkustundar efni er um gerð myndarinnar í fyrrgreindum heimildarþáttum
og í 15 litlum myndskeiðum. Greinarhöfundur hefur greinilega sleppt að
horfa á þetta sem mér finnst hreint út sagt lélegt.

“Annað sem vakti athygli var auglýsing og umfjöllun leikstjórans um
væntanlega útgáfu á lengri útgáfu Föruneyti Hringsins. Veltir maður
óneitanlega fyrir sér af hverju maður ætti að fjárfesta í þessum mynddiski
ef annar og betri er á leiðinni?”

Lengri útgáfa myndarinnar hentar ekki öllum. Margir eru ekki hrifnir af þeirr
þróun að kvikmyndir verða lengri og lengri og sumir sakna þess þegar
kvikmyndir voru 90 mín. að lengd. Þessi mynddiskur þarf heldur ekki að
vera betri heldur er um val að ræða. Ef þú vilt sjá myndina sem þú sást í
bíó þá velur þú þessa, ef þú vilt sjá lengri útgáfu myndarinnar þá gerirðu
það, en hún er kannski að mestu leyti fyrir aðdáendur og inniheldur efni
sem var klippt út vegna lengdar myndar og til að hraða atburðarásinni.
Auk þess kom einnig fram í kynningunni að verið væri að semja nýja
tónlist og klára tæknibrellur og slíkt fyrir þessar auka 30 mín. sem segir
manni það að þetta mál er ekki bara markaðsbrella.

Lokaorð
______
Ég mæli mjög með þessari DVD útgáfu og hefði ég ekki viljað missa af
henni þrátt fyrir að ég bíð spenntur eftir Nóvemberútgáfunni sem auk lengri
myndar inniheldur 6 klst. af efni sem ekki hefur sést áður.