Jæja, önnur pæling frá málfræðimeistaranum.(Ég veit, ég er með mikið egó, en hverjum er ekki sama?)


Hér á eftir koma ýmis atriði um Tolkien(eða heiminn sem hann skóp) sem eru lausar hugdettur úr daglega lífinu sem maður gleymir að skrifa niður.

Þótt að ég hafi eiginlega eingöngu skrifað um málfræðipælingar og þurrar staðreyndir, þá koma við og við skemmtilegar og vel kryddaðar pælingar inná milli.
Hvernig eru Tolkien aðdáendur miðað við aðra “nörda” í svipuðum áhugamálum, s.s. StarWars? Ja, á StarWars áhugamálinu hérna á huga er a.m.k. ekki neinn sem skrifar um tungumálin sem eru þar, þó svo að margar síður séu til á netinu um þau tungumál. Ætli þær séu fleiri en síðurnar hjá Tolkien málamönnunum?

“Við” Tolkien aðdáendur(ég reyni að gæta hlutleysis hérna) höfum verið gagnrýndir fyrir að vera strangtrúaðir áhugamenn, en StarWars menn hafa frekar sagðir vera þessi bólugröfnu-gleraugna-tölvunördar. Tolkien aðdáendurnir virðst meira þá vera að grúska í margs konar bókum, og margir hafa áhuga á íslendingasögunum(rétt eins og ég geri) og öllu því sem fornt er. Ég kem að þessu forna seinna í greininni.

En aðalmunurinn á Starwars og Tolkien er sá að Starwars var að mestu leyti búið til fyrir aðdáendurna. Tolkien gerði sinn heim bara að gamni sínu, eða einhverri löngun. Hver svo sem ástæðan var, þá hefur hann örugglega ekki langað til að fólk læsi allt það sem hann hefði skrifað, enda vandaði hann til verks þegar hann ætlaði að gefa út bók á almennan markað. Að öðru leyti lá sköpunarárátta hans bara af einlægum áhuga á tungumálum og sögum. Ég ætla ekki að fara út í fleiri atriði sem eru ólík þessu tvennu, eins og að það þekktust ekki geimskip á Miðgarði og fleira þess háttar. Það tti ekki að skipta neinu máli fyrst megnið af þessum sögum byggist á mennlegum samskiptum.
Eftir á að hyggja, þá held ég að Tolkien aðdáendurnir séu harðari, þótt að ábyggilega fleiri vissu hvað Starwars var áður en LotR myndirnar komu til sögunnar. Núna á Tolkien aðdáendum örugglega eftir að fjölga til mikilla muna, og þetta á alltsaman eftir að blandast meira inn í almenninginn.

Annað atriði sem mig langar til að koma að, er þáttur Iluvatar, eða Eru í heimssögunni. Hver var hann? Hvernig varð hann til, nú eða hvenær?

Að sjálfsögðu er þessi spurning heimspekilegri heldur en hinar. Rétt eins og með gömlu guðina, þá var ekki mikið spurt út í svona hluti, ekki reynt að kryfja til mergjar þá hluti sem áttu að útskýra allt. Það hélt líka dulúðinni yfir þeim, svo að fólk bæri frekar virðingu fyrir guðunum. Ekki svo galið eftir allt saman?
Þetta hefur Tolkien áreiðanlega vitað, og þar af leiðandi ekki skrifað mikið um Alföður. Hann gerði ekki mikið í því að skrifa um þessa flottu og ógnvekjandi hluti í heiminum sínum sem maður vill endilega fá að vita meira um. Reyndar ætla ég að leyfa mér að segja það, að mikill hluti af þeirri dýrð og “leynd” ef ég má orða það svo, sé komin af því að hann var ekkert að fylla í tómu skörðin sem vantar í sögurnar. Það er jú vissulega heilmikill söguþráður, og stórkostlegar lýsingar, en sem betur fer ekki á öllu. Því ímyndunaraflið er alltaf besta sparslið til að sparsla upp í götin, og það vissi hann og það notfærði hann sér til hins ýtrasta. Kvikmyndirnar reiða fram miklu lýtalausari byggingu þar sem litlu er við að bæta í hann, því þarna eru allir hlutir eins fyrir hvert einasta mannsbarn. Það sjá langflestir ef ekki allir Gandalf fyrir sér sem Ian McKellen og þeir sem sjá myndina á undan bókinni eru ekki í neinum vafa um að Balroggur Morgots hafi verið með vængi.

En svona til að hnýta endahnút á þáttöku Eru í heiminum, þá áttu Æsirnir og grísku guðirnir(sem og aðrir guðir) að útskýra t.d. regnið, tunglið og stjörnur og svo stóru spurninguna um hvernig alheimurinn haf orðið til. Það var bara svona að Guð skapaði jörðina og heiminn, punktur. Það þurfti engar fleiri útskýringar, enda voru þær ekki til og þeir sem aðhylltust þessar kenningar vildu ekki benda á veiku hlekkina í þeim. Við skulum því halda að hið sama hafi Noldorar, Telerar, Númenar, Atanar og fleiri hugsað.

Og svo hið forna. Hver sá sem hefur heillast af Miðgarði og Amanslandi, hefur ekki einungis hrifist af frábærum lýsingum á náttúrunni eða vel gerðum söguþræði, heldur líka hinu forna í heiminum. Í LotR skín sífellt í þá staðreynd að glæsibragurinn sé farinn af heiminum, mennirnir séu ekki eins hraustir og áður, lifi ekki eins lengur, álfarnir séu að fara, og ljóminn yfir þeim fari sífellt minnkandi enda eru þeir allir að sigla til Amanslands. Í fornöldinni hinsvegar var allt svo fallegt, máttugt og þrautseigt, miklar hetjur voru uppi sem eiga engan sinn líkan seinna meir, Balroggar, drekar og aðrir máttugir djöflar voru mun algengari og mun fleiri gátu ráðið við þá þótt að þeir hafi verið miklu öflugri í þá daga og svo framvegis og svo framvegis. Tolkien átti heima í úthverfum mestalla sína ævi, og sá það þegar stórvirkar vinnuvélar ruddu burt fallega sveitalandslaginu sem blasti við honum út um gluggann, og í staðinn komu raðhús, blokkir og borg. Það ríkti því ákveðinn söknuður í honum sem braust fram í sagnagerð hans; þegar maður les Hobbitann og LotR þá saknar maður alltaf hetjanna og forndægranna. Þau eru líka svo heillandi því ímyndunaraflið sér um mestalla sköpunina á því.
Takk fyrir
Hvurslags.